Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 12:51:23 (4671)

     Árni Johnsen (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er misskilningur hjá hv. síðasta ræðumanni ef hann telur að ég hafi verið að draga eitthvað úr ágæti þessa samnings. Ég rakti í stuttu máli að samningurinn væri vel viðunandi. Og hvernig menn líta á hann í heild. Það getur verið einhver munur á slíku. En fyrst og fremst er niðurstaðan sú varðandi samninginn að þar sé jafnvægi.
    Það er að vísu hægt að túlka á margan hátt verðlagningu á afurðum. Ef Íslendingar legðu til að mynda þá verðlagningu í loðnuna að verka hana að japönskum sið, eins og hún er unnin dýrust, bæði með hrognatöku og með þurrkun, þá eru menn komnir upp í miklu hærri verð en karfinn gæfi hlutfallslega. En það yrði ekki raunhæft að gera það á þennan hátt fyrr en kannski markaðurinn býður upp á slíkt eða menn leita þeirra söluleiða sem kann að vera gert í framtíðinni. Og dæmi eru um granna okkar, Grænlendinga,

sem þurrka hluta af loðnu sem þar veiðist og er seld miklu dýrari en sú loðna sem fer í bræðslu.
    Þetta geta menn teygt lopann um endalaust, en í heild er þarna um gagnkvæman samning að ræða og það er undirstaðan í þessu máli. Og þeir staðlar sem sjútvrn. hefur sett fram eru þeir marktækustu í stöðunni. Undir það ber að strika.