Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 12:53:32 (4672)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér fannst 3. þm. Suðurl. farast illa að draga til baka það sem hann sagði í ræðu sinni. Hann tók til orða eitthvað á þá leið að engum hefði átt að koma á óvart að neyddust til að gera þennan samning, þ.e. sjávarútvegssamninginn. Það var ekki hægt að misskilja af framhaldi orða hans hvað hann átti við, hann væri sem sagt neyðarbrauð og hluti af því að gera þetta EES-samkomulag.
    Það er út af fyrir sig hægt að halda áfram þeim umræðum sem hér hafa staðið yfir lengi um að bera saman þessar veiðiheimildir, en aðalatriði málsins er að nú liggur ljóst fyrir að þessi samningur til eins árs um nýtingu veiðiheimilda mun ekki færa Íslendingum neitt í aðra hönd. Sú loðnuvertíð sem stendur yfir núna er í þeirri stöðu eftir óveðurskafla að ekki er líklegt að það veiðist neitt af þessari grænlensku loðnu. En Íslendingar ætla samt að halda sínu striki og þrátt fyrir að enginn viti um endalok eða gildistöku EES-samkomulagsins ætlar stjórnarmeirihlutinn á Alþingi að knýja fram að þessi samningur um skipti á veiðiheimildum verði að veruleika. Það verð ég að segja að mér finnst alveg fáránlegt. Ég tel að það hefði verið mannalegra að koma fram eins og hv. 3. þm. Suðurl. gerði þó í fyrri ræðu sinni og segja sannleikann, að menn telji sig neydda til að skrifa upp á þennan samning. En þá ætti beint framhald af þeirri ræðu að vera að viðurkenna að sá samningur ætti þá ekki að taka gildi nema EES-samkomulagið yrði að veruleika. --- [Fundarhlé.]