Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 13:48:37 (4675)

     Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur Hermannsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. var augljóslega ekki í salnum þegar ég ræddi þetta mál áðan, ég held hann hafi mætt eftir það. Þá sagði ég einmitt að ég hefði svo sannarlega ekkert á móti því að birta þessa fundargerð. -- En hún er ekki bara okkar einna. Hún er líka fundargerð þeirra sem við töluðum við. Ég sagði að ég teldi þá a.m.k. alveg sjálfsagt að leita samþykkis þeirra fyrir því að hún verði birt því að þar var líka lokaður fundur með Delors sem eflaust er greint frá í fundargerðinni.
    Ég hef hins vegar ekki fundargerðina. En það er afar athyglisvert að formaður Sjálfstfl. náði í þessa fundargerð fyrir kosningarnar og leyfði sér að birta úr henni á fundi í Kópavogi, eins og fram kemur í Morgunblaðinu, þar sem var sagt að það væri fjölmennur fundur í Menntaskóla Kópavogs. Það má eflaust fá þessa fundargerð frá honum eða kannski hefur líka hæstv. sjútvrh. hana. Ég hef ekkert á móti því. En það er ekki einhliða hægt að ákveða slíkt. Og ég sagði líka áðan að út af fyrir sig þætti mér að það ætti að fara mjög varlega í að birta trúnaðargögn. Hvar endar það? Og ég sagði líka, svo ég endurtaki það, að við hæstv. forsrh. ræddum þetta fyrir nokkru og þá urðum við sammála um að slíkt bæri að forðast í lengstu lög. En persónulega hef ég ekkert á móti því þó að hún væri birt.