Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 14:20:23 (4678)

    Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur Hermannson) (andsvar) :
    Hv. forseti. Þótt ég hafi aðeins eina mínútu verð ég að lýsa ánægju minni með að hæstv. ráðherra hefur dregið mjög í land og talar miklu rólegar nú en hann hefur gert áður.
    Hins vegar verð ég að leiðrétta örfáa hluti. Það er í fyrsta lagi að það var ekki að íslensku frumkvæði sem þetta var boðið í Brussel. Mig minnir að það hafi komið fram hjá Delors að þetta yrði að leysa sem fyrst af því að þetta væri mál sem hefði beðið allt frá því 1972. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra rakti um fundinn sem haldinn var hér heima vikuna áður. Staðreyndin er bara sú að þó að ég endurtæki þetta boð hafnaði Marin að koma hingað til lands því hann sagði --- eins og sendiherra okkar þar sagði --- að það væri ekkert nýtt eða bitastætt í því sem við værum að bjóða. Þetta er kjarni málsins og það var ég að reyna að segja hér áður.
    En svo verð ég að leiðrétta það sem hér kom fram, sem hann telur mér helst til áfellisdóms, en það er það að ég sagði: ,,Eftir fullnaðarsigur í landhelgisdeilunni telur hæstv. ríkisstjórn að hún sé að gera góðan samning með því að hleypa á ný fiskiskipum Evrópubandalagsins inn í íslenska fiskveiðilögsögu til að veiða þar í samkeppni við íslensk fiskiskip af fiskstofnum sem eru fullnýttir.`` --- Og ég legg mikla áherslu á það: sem eru fullnýttir.
    Að sjálfsögðu stend ég við hvert einasta orð af þessu. Þetta er satt og rétt.