Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 14:25:47 (4682)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Sá samningur sem hér er leitað eftir staðfestingu á er fullkomlega óeðlilegur. Með samningnum er verið að fallast á þá stefnu Evrópubandalagsins, sem það hefur klifað á frá því 1976, að tengja saman breytingu á aðgangi Íslands að mörkuðum, þ.e. greiðslu tolla fyrir útflutning íslenskra sjávarafurða til Evrópubandalagsins, og veiða úr íslenskum fiskstofnum. Það er það sem er kjarni þessa máls. Í 4. gr. samningsins er vikið að því að árlega skuli fara fram viðræður um ásættanlegt jafnvægi. Og hvaða skilning halda menn að Evrópubandalagið hafi á orðunum ,,ásættanlegt jafnvægi`` í þessu sambandi?
    Síðan þegar gengið er til samninga í þessu máli er samið þannig að Íslendingum er ætlað að veiða úr tveimur íslenskum fiskstofnum, það eru skiptin, loðnu sem Íslendingar eiga aðgang að og sem er íslenskur fiskstofn með sama hætti og karfinn er íslenskur fiskstofn. Þetta er með þeim dæmalausa hætti að það blasir við alþjóð hvernig menn hafa haldið hér á málum.