Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 14:30:20 (4686)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vildi aðeins leiðrétta hjá hæstv. sjútvrh. að það er einkum tvennt sem við höfum gagnrýnt í þessu sambandi. Það er annars vegar verðmæti veiðiheimildanna og það er hins vegar sá

möguleiki sem er fyrir hendi til að ná viðkomandi afla. Þetta eru tvö mikilvægustu mál þess einstaka máls sem hér er verið að ræða um.
    Að því er varðar langhalann hef ég sagt að það væri eðlilegt að leggja hann að jöfnu við loðnuna vegna óvissunnar. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að það átti eftir að finna verðstuðul fyrir langhalann. En ég vil hins vegar mótmæla því þegar hæstv. ráðherra vill fara að leiðrétta stuðul Þjóðhagsstofnunar. Ég tel að það eigi að taka tillit til þess hvað við getum gert úr þessum karfa. Það er það sem verðstuðull Þjóðhagsstofnunar sýnir. --- En að fara að leiðrétta hann niður í 0,6 eða eitthvað annað, eins og hæstv. ráðherra var hér að reyna að gera, tel ég vera fráleitt. Og ég tel vera jafnfráleitt að halda slíku haldi eins og hann gerir í þennan eina stuðul sem ég tel ekki vera rétt í þessu máli.
    En ég heyri það, hæstv. ráðherra, að við verðum einfaldlega ekki sammála um þetta og við það verður að sitja.