Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 14:39:36 (4693)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur einfaldlega enn á ný staðfest að hann byggir andstöðu sína á allt öðrum rökum en þeir talsmenn Framsfl. sem hér hafa talað og með þessum gömlu aðdróttunum sem ég hef áður gert að umtalsefni. Því miður gerir hann það. Hann er ekki meiri maður fyrir vikið vegna þess að auðvitað ber hann pólitíska ábyrgð á aðdraganda þessa máls sem ráðherra í þeirri ríkisstjórn sem vann að því, með nákvæmlega sama hætti og hv. 7. þm. Reykn. Hefði farið miklu betur á því að hv. þm. hefði flutt ræðu með svipuðum tón og í svipaðri tóntegund og hv. 7. þm. Reykn. gerði í dag. Hann hefði verið meiri maður fyrir vikið.
    En eftir stendur að aðgreining mín á málflutningi þingmanna stjórnarandstöðunnar er fullkomlega rétt og hann hefur staðfest það með sinni ræðu.