Evrópskt efnahagssvæði

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 15:09:46 (4704)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég er þeirrar skoðunar að mál þetta sé ekki í þeim búningi að það sé yfir höfuð frambærilegt til afgreiðslu frá Alþingi. Málatilbúnaður hæstv. ríkisstjórnar og einkum hæstv. utanrrh. hefur upp á síðkastið keyrt um þverbak og hæstv. ráðherra orðið ber að hverri rangfærslunni á fætur annarri og er í raun og veru ekki lengur marktækur í málinu. Fullkomin óvissa ríkir um hver verður framtíð þessa samnings og hvort yfir höfuð eða þá hvenær Evrópskt efnahagssvæði verður að veruleika. En eitt liggur þó fyrir, er óumdeilt, og það er að sú útgáfa samningsins sem við erum hér að fjalla um mun aldrei verða að veruleika. Þetta frv. er einfaldlega úrelt. Það væri því réttast af hæstv. ríkisstjórn, sem leggur þetta frv. fram, að hafa reisn til þess að kalla það til baka með svipuðum hætti og ríkisstjórn Spánar kallaði til baka úrelt frv. sem lá fyrir spánska þjóðþinginu. En úr því að hæstv. ríkisstjórn sér ekki sóma sinn í að gera þetta ber Alþingi að vísa málinu til hennar. Ég tel rétt að senda þetta frv. til föðurhúsanna og segi því já.