Evrópskt efnahagssvæði

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 15:35:02 (4722)

     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Þessi mikilvægi samningur um Evrópska efnahagssvæðið mun ekki losa okkur frá þeim skyldum og þeirri ábyrgð sem fylgir því að treysta efnahag þjóðarinnar og halda hér sjálfstæðu ríki á Íslandi. Þrátt fyrir mörg stór orð hér við umræðurnar ætla ég engum íslenskum þingmanni að vilja fórna sjálfstæði þjóðarinnar fyrir tímabundinn viðskiptasamning eða kalla yfir okkur atvinnuleysi sunnan úr Evrópu líkt og ýmsir stjórnarandstæðingar þessa samnings vilja láta í veðri vaka að muni fylgja. Allt frá stofnun lýðveldisins hafa íslensk stjórnvöld verið virkir þátttakendur í samstarfi á meðal þjóðanna á mörgum sviðum. Fyrir smáþjóð sem okkur Íslendinga er frelsi í viðskiptum innan

marka Evrópu afar mikilvæg trygging fyrir hagsmunum okkar. Reynsla okkar af samstarfi innan Norðurlandaráðs, Atlantshafsbandalagsins og EFTA gefur ekki tilefni til annars en að hagsmunum okkar sé vel borgið í samstarfi við þær þjóðir sem eru innan EFTA og EB og ekki síst Norðurlandaþjóðanna sem stefna nú allar inn í Evrópubandalagið, en þangað munum við ekki geta fylgt þeim að öllu óbreyttu.
    Ábyrgð okkar þingmanna er mikil í þessu máli, það er mér vissulega ljóst. Kjöri okkar þingmanna fylgir sú ábyrgð sem við getum ekki skotið okkur undan og við eigum ekki og í raun getum ekki hlaupið frá málinu með því að vísa því til þjóðarinnar svo sem ýmsir andstæðingar samningsins hafa viljað. Með því værum við að bregðast skyldu okkar sem alþingismenn og efna til ófriðar með þjóðinni. Á ýmsu öðru þurfum við að halda frekar um þessar mundir þegar vandi steðjar að, meiri vandi en áður þegar auðlindir til lands og sjávar hafa brugðist.
    Eftir ítarlega skoðun er ég sannfærður um að við núverandi aðstæður, sem við hljótum að byggja mat okkar á, eru hagsmunir okkar vel tryggðir með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Með samningnum eigum við að geta styrkt atvinnuvegina og ég vísa því á bug að hann stangist á við stjórnarskrána. Með samningnum er sjálfstæði okkar betur tryggt en með því að skáka okkur frá samstarfi við evrópskar vinaþjóðir. Ég segi því já.