Evrópskt efnahagssvæði

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 15:49:04 (4730)

     Þuríður Pálsdóttir :
    Hæstv. forseti. Það er sannfæring mín að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið gefi Íslendingum tækifæri til að viðhalda þeirri velmegun sem hóf skeið sitt upp úr stríðslokum, en virðist nú vera að renna skeið sitt á enda. Ég óska ekki Íslendingum að búa við þau kjör sem við bjuggum við fyrir 1940. Þess vegna óska ég ungu fólki á Íslandi að það fái notið þeirra tækifæra til menntunar og vísinda sem þessi samningur felur í sér. Og ég hafna því að samningurinn sé konum óhagstæður. Þvert á móti hygg ég að margvísleg ákvæði hans séu konum einmitt til hagsbóta, svo sem ákvæði um jafnrétti og launajöfnuð. Einnig býður hann upp á ýmsa nýja valkosti fyrir eldra fólk.
    Þá vil ég benda á að andstaðan við samninginn hér á hinu háa Alþingi er kannski alls ekki eins mikil og atkvæði gefa til kynna þar sem bæði hæstv. fyrrv. forsrh. Steingrímur Hermannsson og hæstv. fyrrv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson hófu þessar samningaumræður og unnu að gerð samningsins í tvö ár eða þar til þeir fóru í stjórnarandstöðu. Ég tel því andstöðuna meira í orði en á borði.
    Hæstv. forseti. Ég segi já.