Evrópskt efnahagssvæði

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 15:51:02 (4731)

     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Í langri umræðu sem fram hefur farið á Alþingi Íslendinga um Evrópskt efnahagssvæði hafa andstæðingar aðildar Íslands að EES talið þá alþingismenn sem málinu eru fylgjandi brjóta drengskaparheitið sitt gegn íslenskri stjórnarskrá. Þannig tala þeir margir hverjir sem á valdatíð fyrri ríkisstjórnar lögðu upp í þá ferð sem nú verður til lykta leidd og mjög sjálfum sér ósamkvæmir. Ég tel þann samning sem greidd eru hér atkvæði um hafa mikla kosti fyrir íslenska þjóð hvort sem litið er til sjós eða lands. Fjarlægðir skipta nú minna máli en áður landa í milli. Ísland má ekki einangrast á sviði viðskipta og menningar evrópskra þjóða.
    Ég met mikils land mitt og þjóð. Við Íslendingar þurfum á nýju afli að halda fyrir íslenskt atvinnulíf. Með framtíð og hagsmuni lands og þjóðar í huga segi ég já.