Evrópskt efnahagssvæði

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 15:52:22 (4732)

     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Hér er það að gerast að meiri hluti alþingismanna, allir úr tveimur stjórnmálaflokkum, Sjálfstfl. og Alþfl., 33 að tölu, lögfesta hið Evrópska efnahagssvæði án þess að viljayfirlýsing þjóðarinnar liggi fyrir. Þeir hafa hafnað þjóðaratkvæðagreiðslu. Það nýtilega í þessum samningi kaupum við dýru verði. Við gefum 400 millj. Evrópubúa jafnan rétt á við okkur sjálf í eigin landi. Auðlindirnar til lands og sjávar, jafnt numdar sem ónumdar, eru settar á annes óvissunnar hvað eignarrétt og nýtingu varðar. Hver hefði trúað því að ríkisstjórn Íslands skrifaði undir nauðungarsamning gagnvart fiskveiðilögsögunni þar sem Evrópubandalagið fær allt fyrir ekkert. Hver hefði trúað því í lok landhelgisbaráttunnar að örfáum árum síðar ætti það fyrir þessari þjóð að liggja að opna fyrir fiskveiðiheimildir til rányrkjuþjóðanna á ný. Bretar, Portúgalar, Spánverjar, Belgar og Þjóðverjar taka nú við fiskveiðilykli úr hendi ríkisstjórnarnnar. Þeir munu árlega gera nýjar kröfur um fleiri skip og aukna veiði í okkar mikilvægu fiskstofna.
    Úr því svona er komið íslenskum hagsmunum er mikilvægt að hæstv. utanrrh. standi

við það fyrirheit að hverfa í annað embætti. Við þurfum ábyrga ráðherra og ríkisstjórn sem sameinar þjóðina því sundrist hún innan frá er hætta á ferðum. Við þurfum nýja menn sem hafa kjark og þor til að standa á rétti Íslands gagnvart Evrópuríkinu og leiða þennan samning í annan og betri farveg í fyllingu tímans. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar er því miður ríkisstjórn innflutningsaflanna en ekki framleiðslustéttanna. Því skortir hana þrek til að verja íslenska hagsmuni í þessum nýja sáttmála. Ég segi nei.