Evrópskt efnahagssvæði

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 16:07:03 (4738)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Mikilvægasti ávinningur þessa samnings er að íslenskt atvinnulíf mun búa við sambærilegar tolla- og viðskiptareglur og keppinautar okkar í Evrópu sem er stærsti og milkilvægasti útflutningsmarkaður Íslendinga. Þrátt fyrir þá staðreynd get ég ekki greitt þessum samningi atkvæði mitt af eftirtöldum ástæðum:
    Hæstv. utanrrh. hefur ofboðið þingi og þjóð með ofmati á gæðum samningsins. Á þeim fagurgala ber ég ekki ábyrgð.
    Þá miklu umræðu sem orðið hefur um málið hér á Alþingi hefði mátt spara ef hæstv. ríkisstjórn og fylginautar hennar hefðu haft kjark og þor til að bera þennan mikilvæga samning undir þjóðaratkvæði. Þá hefðu landsmenn fengið nánari útskýringar á kostum samningsins og göllum, fengið að vega og meta, en það eru sjálfsögð mannréttindi í lýðræðisþjóðfélagi. Þjóðin hefði ekki aðeins fengið að heyra um þá svörtu og hvítu mynd sem stjórnmálamenn draga gjarnan upp í hita leiksins heldur hefðu aðilar atvinnulífsins, sem ýta mjög á að þessi samningur sé staðfestur, kynnt enn betur þá möguleika sem samningurinn kann að opna. Þessi kynning hefði farið fram ef þjóðin hefði fengið að greiða atkvæði um samninginn.
    Virðulegi forseti. Hér áðan var því hafnað að bíða með staðfestingu frv. þar til endanlegur texti liggur fyrir, en það hlýtur að teljast óeðlilegt að staðfesta samning sem ekki er í sinni endanlegu mynd.
    Sjávarútvegssamningurinn sem lengi var beðið eftir er ekki ásættanlegur.
    Síðast en ekki síst var því hafnað að taka af allan vafa varðandi stjórnarskrána.
    Virðulegi forseti. Af þessum ástæðum greiði ég ekki atkvæði.