Evrópskt efnahagssvæði

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 16:10:49 (4740)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Í þau skipti sem ég hef tekið til máls um það málefni sem hér er til afgreiðslu hef ég lagt áherslu á nauðsyn þess að leitað verði eftir sem mestri pólitískri sátt um málið. Reynt verði að forða því að þjóðin klofni enn á ný í tvær andstæðar fylkingar í utanríkismálum. Í ljósi þess að nánast einhugur er um það á Alþingi að Ísland gangi ekki í EB, í ljósi þess að þingflokkur Alþb. hefur gefið út greinargerð þar sem kemur fram að tvíhliða samningur við EB verði byggur á viðskiptaþætti EES-samningsins, í ljósi yfirlýsinga allra þingkvenna Kvennalistans um að gera þurfi viðskiptasamning við EB, í ljósi margítrekaðra yfirlýsinga Sjálfstfl. frá síðasta kjörtímabili þess efnis að hagsmunum okkar Íslendinga væri best gætt með tvíhliða samningi við EB, í ljósi þess að í andsvörum við þann sem hér talar sl. föstudag lýsti hæstv. utanrrh. því yfir að hann í samráði við utanrrn. væri tilbúinn að skrifa framkvæmdastjórn EB bréf fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar þar sem farið væri fram á að samningnum yrði breytt í tvíhliða samning við inngöngu hinna EFTA-þjóðanna í EB, í ljósi afstöðu okkar sem sitjum hjá við afgreiðslu málsins til þess m.a. að leggja áherslu á að tvíhliða samningur við EB verði að byggja á EES-samningnum, í ljósi þess að samningurinn sem meiri hluti Alþingis er hér að lögfesta er ekki hin endanleg gerð, --- í ljósi alls þessa, virðulegi forseti, skora ég á Alþingi að sameinast um afgreiðslu ályktunar þess efnis að fara nú þegar fram á að teknar verði upp viðræður við framkvæmdastjórn EB þess efnis að breyta samningnum í tvíhliða samning þar sem tryggt verði að meira tillit verði tekið til sérstöðu okkar Íslendinga. Slík samþykkt gæti byggt á tillögu sem nú liggur fyrir Alþingi sem er flutt af formanni og varaformanni Framsfl. með fullum stuðningi þingflokks flokksins.
    Virðulegi forseti. Að öðru leyti vísa ég til atkvæðaskýringar minnar við 2. umr. þar sem ég gerði grein fyrir því á hvaða rökum ég mundi sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu og greiði ekki atkvæði.