Evrópskt efnahagssvæði

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 16:14:42 (4742)

     Guðmundur Árni Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki átt þess kost að taka þátt í umræðum um þessi mál hér á hinu háa Alþingi en fylgst með þeim úr fjarska í gegnum fjölmiðla eins og þorri þjóðarinnar. Sú umræða hefur ekki öll verið jafnskynsamleg. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að gera í örfáum orðum grein fyrir afstöðu minni til þessa stóra máls.
    Það er Íslandi nauðsynlegt að vera virkur og fullgildur þátttakandi í samfélagi þjóðanna. Víðtækt samstarf Evrópuþjóða er staðreynd. Okkur Íslendingum er mikilvægt á grundvelli viðskiptahagsmuna og margþættra samskipta annarra að eiga þar hlut að máli. Aðild Íslands að samningi um EES er skynsamlegur kostur, réttur vettvangur í þeim efnum. Ég segi því já.