Evrópskt efnahagssvæði

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 16:17:18 (4745)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Aðild að Evrópsku efnahagssvæði er ekki annað en biðsalur aðildar að Evrópubandalaginu, enda byggð á þeirri grein Rómarsáttmálans sem kveður á um aukaaðild að EB. Á þessu tvennu er aðeins stigsmunur en ekki eðlismunur eins og hæstv. sjútvrh. Þorsteinn Pálsson hefur bent á.
    Dómur núv. formanns utanmrn. um EES-samningsgerðina er sá að vera skipulegasta átakið sem gert hefur verið til að opna Íslandi leið inn í Evrópubandalagið. Hér þarf ekki frekar vitnanna við um hvert leiðinni er heitið. Báðir stjórnarflokkarnir hafa á flokksþingum sínum gert samþykktir þar sem aðild að EB er ekki útilokuð.
    Varfærnislegt mat Þjóðhagsstofnunar er að verg landsframleiðsla muni aukast um 0,6% eftir átta ár. Það jafngildir aukningu einkaneyslu um 24 þús. kr. á ári á hverja fjögurra manna fjölskyldu sem er um 1 / 5 hluti þeirrar kjaraskerðingar sem ákveðin var af Alþingi fyrir síðustu jól. Á móti þessum ávinningi koma milljarða króna útgjöld sveitarfélaga, fækkun starfa og þar með aukið atvinnuleysi og stórfelld hætta á hruni margra byggðarlaga á landsbyggðinni, samanber skýrslu Byggðastofnunar um það efni.
    Þingmenn eiga að taka afstöðu til EES-samningsins á grundvelli staðreynda en ekki ítrekaðra einnota fullyrðinga utanrrh. sem dansað hefur á stultum í kringum sannleikann. Staðreyndin er sú að ávinningurinn er hverfandi miðað við þær skyldur sem við tökum á okkur með samningnum og réttlætir í engu það að opna fiskveiðilögsögu Íslendinga fyrir togaraflota EB, réttlætir í engu það valdaframsal sem felst í samningnum, auk þess sem samningurinn samrýmist ekki stjórnarskránni.
    Af öllu þessu samanlögðu er það niðurstaða mín, virðulegi forseti, að ég segi nei.