Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 16:47:32 (4749)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Mig langar áður en ég hef mál mitt að fá að vita hvort hæstv. sjútvrh. er hér staddur og hvort hann gæti komið til fundar. ( Forseti: Forseti mun gera ráðstafanir til að fá hæstv. sjútvrh. á fundinn.) Ég þakka það því að ræða mín er ekki síst til komin vegna þeirra ummæla sem féllu hjá honum í gær og ég hafði ekki tóm til að svara nema hluta í andsvari, en ég ætla þá að fá að bíða eftir að hann komi.
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir að bregðast skjótt við. Ástæða þess að ég kem aftur í ræðustól er fyrst og fremst að fylgja því aðeins eftir sem ég sagði í andsvari í framhaldi af ræðu hæstv. sjútvrh. í gær. Ég ætla ekki að blanda mér í karp um

samningafundi í tíð fyrrv. eða núv. ríkisstjórna. Svo sem kunnugt er höfum við kvennalistakonur ekki átt aðild að þeim störfum. Hins vegar vil ég halda því til haga að ég tel að það sé mjög varasamt að opna lögsöguna fyrir skipum Evrópubandalagsins og gildir þá einu þótt nokkrir gamlir belgískir togarar séu hér enn. Það er ekki á þeim grunni sem við erum að opna landhelgi okkar núna ef þessi samningur verður að veruleika heldur er þar verið að setja fordæmi sem ég tel að við sjáum ekki fyrir endann á. Ég bendi á að í þessum samningi eru ákvæði um árlega endurskoðun og mér þykir bera nokkuð mikið á því í áliti meiri hluta utanrmn. og sjútvn. að þar sé gert ráð fyrir því að sú endurskoðun verði endilega okkur í hag. Mér finnst að gangur samningamála gefi ekki tilefni til slíkrar bjartsýni heldur þvert á móti svartsýni.
    Ég vil benda á það líka að sé það virkilega bjargföst skoðun talsmanna hæstv. ríkisstjórnar að unnt sé að halda því til streitu að EES-samningurinn sé algjörlega ótengdur fiskveiðisamningnum, þá er ekkert því til fyrirstöðu að kolfella samninginn í ljósi þeirra upplýsinga og ég held að það sé ærin ástæða til að gera það því hér hefur í umræðunni komið fram að samningurinn er okkur afspyrnu lélegur. Það er trúa mín að þeir sem verji hann bendi á þau fáu atriði sem eru í þokkalegu standi og reyni síðan að drepa umræðunni á dreif um önnur atriði með því að karpa um hverjum sé um að kenna að svona illa sé komið. Það gerir samninginn ekkert betri, síður en svo. Þetta er mjög áberandi.
    Svo ég reki ágalla þessa samnings, og það mun ég ekki gera í mjög ítarlegu máli þar sem það hefur þegar verið gert, þá ætla ég í fyrsta lagi að halda því til haga að það hefur komið glöggt fram að við nánari athugun er alls ekki um neinar gagnkvæmar eða jafngildar veiðiheimildir að ræða. Þetta er staðreyndin hvað svo sem líður öllu karpi um veiðstuðla sem annars er hægt að drepa þeirri umræðu á dreif með.
    Í öðru lagi vil ég benda á þann ágalla, sem jafnvel hæstv. sjútvrh. hefur viðurkennt að sé ágalli, og það er að ekki er tryggt í þessum samningi að veiði komi á móti veiði. Einungis er frá því gengið að heimilt sé að koma á viðræðum til að reyna að koma á jafnræði. En það er auðvitað allt, allt annar handleggur og allt öðruvísi staða sem við höfum þar.
    Ég vil leyfa mér að vitna í Morgunblaðið frá 28. nóv. Þar segir hæstv. sjútvrh. og hefur ekkert borið til baka, enda engin ástæða til, að báðir aðilar hafi látið nokkuð af ýtrustu kröfum sínum. Hann telur þó að í heild sé niðurstaðan góð, en bendir á að í rauninni sé ekki búið að tryggja neitt nema að þarna sé málamiðlun og ef ófyrirsjáanlegar aðstæður koma upp, segir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta, t.d. ef menn af einhverjum ástæðum geta ekki veitt þann kvóta sem út hefur verið gefinn, ,,getur sá aðili sem telur á sig hallað óskað eftir viðræðum í þeim tilgangi að tryggja jafnræði`` --- segir sjútvrh. í Morgunblaðinu, virðulegi forseti.
    Þetta er nákvæmlega það sem það segir. Það er búið að ná inn ákvæði um viðræður. Það er ekki búið að tryggja neitt hvað komi út úr þeim viðræðum, enda er það ekkert hægt. Það hefði hins vegar verið hægt að hugsa sér að þarna væri einhver trygging ef það hreinlega stæði, en það gerir það ekki.
    Í öðru lagi er alveg öruggt mál að enginn hefur treyst sér --- ég veit að vísu ekki um hæstv. utanrrh. sem hefur treyst sér til þess að koma með hinar ótrúlegustu fullyrðingar, en enginn annar sem ég hef átt tal við og er kunnugur þessum málum hefur treyst sér til að segja að það sé nein skuldbinding í þessum samningi falin um að bæta upp skerðingu eftir á. Það er einfaldlega talið að fyrirheit liggi í bréfaskriftum, að það sé gengið út frá því að þessi 3.000 tonn af karfa mæti 30.000 tonnum af loðnu, en lengra hafa þeir sem þarna hafa staðið í samningaviðræðum ekki treyst sér til að ganga. Það er bent á ákvæði, sem ósköp vel er hægt að rekja enn einu sinni, sem felast í viðauka A um aflaheimildir með þeirri tillögu sem við hér ræðum, en þar segir í 2. lið, með leyfi forseta:
    ,,Um öll mál er tengjast framkvæmd þessa samkomulags --- þar á meðal ef ófyrirsjáanlegar aðstæður koma upp --- skulu aðilar hafa samráð sín á milli ef annar hvor þeirra óskar eftir því.
    Ef svo ber undir að lækka verður aflaheimild annars samningsaðilans vegna ófyrirsjáanlegra líffræðilegra ástæðna skulu samningsaðilar tafarlaust ræðast við í þeim tilgangi að koma aftur á jafnvægi.``
    Þetta er það veika haldreipi sem verið er að vísa til og ég held að það gefi auga leið að þetta segir okkur ekkert annað en að það sé skylt að ræða málin, það sé skylt að reyna að koma á jafnræði, en ef við erum þarna að tala um jafnræði á borð við jafnræði veiðiheimildanna er það auðvitað ekki mikið til að gera veður út af.
    Í þriðja lagi er rétt að hafa í huga að samningur Evrópubandalagsins og Grænlands rennur út eftir tvö ár. Hvaða stofna gæti þá Evrópubandalagið boðið okkur að veiða ef Grænlendingar kysu t.d. að hefja sínar loðnuveiðar og hafa raunar verið með tilburði í þá átt með því að kaupa sér a.m.k. eitt loðnuveiðiskip? Jú, samkvæmt upplýsingum um þá stofna sem Evrópubandalagið er aflögufært um, og það er hægt að ganga út frá því að það væri fyrst litið á þá stofna sem Evrópubandalagið er aflögufært með, þá er hægt að benda á t.d. eina fisktegund, en það er makríll. En þá ber þess að gæta að makríllinn er ekki ein þeirra fiskitegunda sem samkvæmt EES-samkomulaginu á að verða tollfrjáls. Þetta væru skipti sem kæmu okkur ekkert til góða.
    Í fjórða lagi er ástæða til að hafna fiskveiðisamningnum vegna þess að fjöldi skipa og eftirlitsþátturinn, sá mikilvægi þáttur samningsins, eru ekki gallalaus og þetta hef ég þegar gert að umtalsefni. Í nál. minni hluta utanrmn. segir eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta, um fjölda skipa:
    ,,Samkvæmt viðauka B er gert ráð fyrir að útgefin leyfi verði aldrei fleiri en 18 og togarar við veiðar geti ekki verið fleiri en fimm samtímis. Að mati minni hluta nefndarinnar er hér um of mörg skip að ræða miðað við það magn sem er til ráðstöfunnar. Skipunum er heimilt að frysta fiskinn um borð og telur minni hlutinn að slíkt eigi ekki að leyfa.``
    Og varðandi eftirlitið þá kemur fram ákveðin gagnrýni þar einnig þótt við sem höfum komið nálægt minni hluta sjútvn. höfum að mörgu leyti verið afskaplega mild í okkar dómum þar og svo sannarlega leyft því að koma fram að þar hefur náðst nokkur árangur, en þarna stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Óheppilegt er að löndunarhafnir séu eins margar og raun ber vitni sem getur skapað erfiðleika við eftirlit. Af hálfu íslenskra aðila þarf að ganga vel frá verkaskiptingu milli Landhelgisgæslunnar og veiðieftirlitsmanna. Fulltrúar Landhelgisgæslunnar bentu á að með fullkomnum staðsetningartækjum mætti fylgjast nákvæmlega með ferðum erlendu skipanna.``
    Ég gerði þetta að umtalsefni í andsvari í gær og hef einnig rakið svolítið í mínum ræðum að Landhelgisgæslan var hreinlega hunsuð við undirbúning þessa máls þar sem ekki var einu sinni rætt við fulltrúa hennar. Staðsetningarkerfið INMARSAT er að mati Landhelgisgæslunnar mjög mikilvægur þáttur í eftirliti og það er ekki rétt, sem hæstv. sjútvrh. sagði í gær, að það segi ekkert annað en hvar skipin eru stödd á hverjum tíma. Þvert á móti hefur það komið skýrt fram hjá forsvarsmönnum Landhelgisgæslunnar, sem komu á fund sjútvn., að þessi tæki geti bæði gefið til kynna staðsetningu skipa og upplýst hvort þau eru að toga eða á siglingu. Þessar upplýsingar eru mjög mikilvægar, t.d. í því tilviki að EB-skip hafi skilað af sér eftirlitsmanni í íslenskri höfn eins og fullkomlega er heimilt samkvæmt fiskveiðisamningnum og sé á ferð með afla sinn en engan eftirlitsmann um borð í gegnum íslenska landhelgi að löndunarhöfn erlendis. Það stendur hvergi að skylt sé að koma af sér eftirlitsmanni og afla í sömu höfn.
    Þá komum við að öðrum veikum punkti, en það er að fyrst okkur hefur ekki gengið sem skyldi að hafa eftirlit með vigtun okkar eigin skipa í viðurkenndum erlendum höfnum er engin ástæða til að ætla að við getum haft sjálf fullnægjandi eftirlit með þeim nýju erlendu höfnum sem við leyfum vigtun í. Þetta finnst mér full ástæða til að tína til, einfaldlega vegna þess að af og til heyrum við gagnrýni á vigtun erlendis. Ég vísaði í blaðið Fréttir frá 17. des. sl., en þar er viðtal við Sigurbjörn Hilmarsson fiskverkanda, sem er stærsti kaupandinn á Fiskmarkaði Vestmannaeyja, í kjördæmi hæstv. ráðherra eins og ég gat um, en tímans vegna hafði ég ekki tóm til þess að rekja ummæli hans að öðru leyti

en því sem stendur í fyrirsögn þessarar greinar, en þar stendur að vigtun erlendis sé skrípaleikur, og þessa gat ég, en auðvitað er betra að taka þetta eins og það kemur fyrir í þessari grein. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa fyrir hæstv. sjútvrh. og aðra hvað er átt við. Í blaðinu stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Mismunur á vigt er mikill hér á eða í Englandi að mati Sigurbjörns og langt umfram það sem eðlilegt getur talist. ,,Sjómenn og útgerðarmenn eru að vakna upp við vondan draum í þessu máli. Í Englandi koma 420--440 kg upp úr hverju kari, en á markaðinum hér 520--560 kg.``
    Hann segir að rýrnun skýri ekki þennan mismun og sjómenn gangi eins frá fiskinum í körin hvort sem honum er landað heima eða erlendis. ,,Það eru um 100 kg sem þeir stela úti og ofan á endanlega vigt kemur 20% kvótaskerðing þannig að verðið úti má vera talsvert mikið hærra til þess að það borgi sig að senda fiskinn út.````
    Þarna er einfaldlega verið að tala um að vigtun erlendis sé ekki trygg og svo við tökum bara Bretland, sem hann tekur sérstaklega sem dæmi, þá vil ég vekja athygli á því að við leyfum samkvæmt ákvæðum þessarar tillögu tvær hafnir þar, Hull og Grimsby, og ég get ekki ímyndað mér að ástandið þar sé eitthvað betra en annars staðar þar sem þetta eru sjálfsagt þær hafnir sem verið er að ræða í blaðinu, þær eru mjög miklar löndunarhafnir okkar.
    Ég get deilt þeirri skoðun með Sigurbirni að skynsamlegast væri að öll vigtun færi fram hér á landi og er það raunar yfirlýst stefna Kvennalistans að stefna beri að því og ég get ekki ímyndað mér annað en það væri mjög svo til bóta.
    Þetta gefur tilefni til að grípa niður aðeins aftar í þessari grein, með leyfi hæstv. forseta, en þar stendur:
    ,,Sigurbjörn vill að allur fiskur fari í gegnum fiskmarkaði [og á þá við á Íslandi]. ,,Ef yfirlýsingar Þorsteins Pálssonar sjútvrh. að allur fiskur veiddur við Íslandsstrendur, þ.e. sameign þjóðarinnar, fari í gegnum fiskmarkaði frá áramótum 1992--1993, standast yrði samkeppnisstaða innlendra kaupenda betri. Ef útlendingar þyrftu að kaupa fisk eftir þeirri vigt sem hér er hugsuðu þeir sig tvisvar um því 20% skerðing, rýrnun og yfirvigt yrði þeim of dýr.
    Svo eru það skilaboð mín til verkalýðshreyfingarinnar að með einu pennastriki er hægt að eyða öllu atvinnuleysi í landinu. Það hverfur um leið og allur fiskur fer á markað hér heima.````
    Ég get ekki annað en tekið undir það að ég tel að það yrði mjög til bóta, bæði vegna vinnu í landi og vegna þess öryggis sem við vigtun væri, að færa vigtunina hingað. En ég vek þó athygli á að ef við samþykkjum næstu útgáfu af EES-samningnum, því nú er búið að samþykkja þá fyrstu, erum við að bjóða upp á að við verðum að halda okkur við þá samþykkt sem þegar er orðin á þinginu með því að afgreiða frv. um að erlendir aðilar geti keypt sig inn í íslensku fiskmarkaðina. Og það aftur á móti er nokkuð sem við stjórnarandstæðingar vöruðum við þegar það mál var til umræðu. Ég geri ekki ráð fyrir að innan Evrópska efnahagssvæðisins væri hægt að leiðrétta það eða draga það mál til baka, en aftur á móti væri hægurinn hjá ef við bærum gæfu til þess að koma okkur út úr þessu samstarfi sem getur orðið okkur býsna dýrt, þessu Evrópska efnahagssvæði.
    Ég vona að ef af þessu Evrópska efnahagssvæði verði munum við Íslendingar sýna það sjálfstæði að hafna næstu útgáfu sem hér kemur til umfjöllunar því í dag hefur það gerst að við höfum ekki borið gæfu til að hafna fyrstu útgáfunni og það er mér út af fyrir sig algjörlega óskiljanlegt, en enn er svigrúm og ég vona að það verði tekin skynsamlegri ákvörðun en hér var tekin í dag.
    Ég lýsti því yfir í seinustu ræðu minni að ég efaði stórlega að meiri hluti væri fyrir þessum fiskveiðisamningi á Alþingi og spurningin er hvað gerist ef við sýnum þá skynsemi að hafna þessum samningi. Andstaðan við hann er töluvert meiri en við Evrópska efnahagssvæðið í heild og ég held að það væri athyglisvert að heyra rök þeirra sem ætla að samþykkja þennan samning t.d. fyrir eigið ágæti eins og verið er að reyna að telja okkur trú um að sé hægt. Því trúir ekki nokkur maður í alvöru. En þessum orðum taldi ég

ástæðu til að bæta inn í umræðuna vegna ræðu hæstv. sjútvrh. í gær og læt nú lokið máli mínu.