Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 17:08:10 (4750)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrst vil ég leiðrétta þann misskilning að INMARSAT-kerfið er ekki staðsetningarkerfi heldur er það alþjóðlegt fjarskiptakerfi. GPS, eða Global Positioning System, er hins vegar fjarskiptakerfi sem nýtist með INMARSAT til þess að gefa upplýsingar um staðsetningu og siglingarhraða skipanna.
    Hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson hefur klifað mjög á því að eftirlitsþætti samningsins sé áfátt. Þó er það eigi að síður svo að allir talsmenn sjávarútvegs hafa lýst því yfir að þar sé vel að málum staðið. Ég minnist þess líka að hv. 1. þm. Austurl. lýsti því við 1. umr. málsins að sá þáttur samningsins væri ásættanlegur. Mig minnir raunar að hann hafi notað sterkari lýsingarorð í þeim efnum. Þess vegna vil ég að það komi skýrt fram vegna þeirra ábendinga og umkvartana sem þingmaðurinn hafði í sínu máli að sökum orða hennar við 1. umr. voru fengnir menn til fundar við sjútvn. sérstaklega til að geta spurt þá um þessi atriði. Allir sem komu til fundar við nefndina töldu að eftirlitsþátturinn væri mjög vel viðunandi.
    Það er hárrétt hjá hv. þm. Önnu Ólafsdóttur Björnsson að það hafa verið uppi efasemdir um sannverðugleika þeirra upplýsinga sem berast frá höfnum Evróubandalagsins. Hún gat þess réttilega í sinni fyrstu ræðu við fyrri umræðu málsins og einmitt þess vegna lagði ég mig sérstaklega eftir því að spyrja þá talsmenn sjávarútvegsins sem komu á fund hv. sjútvn. um þetta mál. Þar kom fram að þeir telja að þær 19 hafnir sem skráðar eru leyfilegar löndunarhafnir í samningnum væru áreiðanlegar. Þeir töldu sig ekki hafa neitt í höndum sem gæfi færi á að vefengja upplýsingar þeirra. Og það er rangt að Landhelgisgæslan hafi talað um að eftirlitsþætti samningsins væri eitthvað áfátt. Þeir bentu hins vegar á að það væri æskilegast í framtíðinni að nota samtengt kerfi Global Positioning System og INMARSAT til þess að auðvelda þeim að fylgjast með ferðum skipanna.