Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 17:17:52 (4754)

     Kristinn H. Gunnarsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Þessi umræða í dag hefur verið dálítið sérstök og stjórn þingsins verið með þeim hætti að ástæða er til að láta koma fram aðfinnslur við það. Ég vil í fyrsta lagi nefna að þingfundur hófst og umræða um þetta mál áður en ríkisstjórnarfundi var lokið og ráðherrar komnir til þingfundar. Þar á meðal vantaði þann ráðherra sem hefur flutt þetta mál, utanrrh.
    Ég bendi á í öðru lagi að þegar þingfundur og umræða um þetta mál hófst í morgun stóð yfir fundur í þingnefnd þar sem á m.a. sæti sjávarútvegsnefndarmaður.
    Ég vil líka benda forseta á það, sem ég hygg að forseta sé kunnugt um, að hér hefur verið afar fámennt í þingsal eftir að atkvæðagreiðslu áðan lauk og hér hafa setið nær allan þann tíma sem umræða hefur staðið eftir það þrír til fjórir þingmenn. Þó að í augnablikinu séu þeir fleiri er ljóst að á þeim er nokkurt fararsnið. Ég hygg að nóg sé nú dagsverkið þó að menn láti gott heita og ljúki þessum fundi og vil beina þeim tilmælum til forseta að íhuga það. En ég vil einnig benda forseta á það að þingmenn hafa einungis rétt að taka til máls tvisvar í þessari umræðu. Ég bar fram fyrirspurn til hæstv. utnanrrh. sem hann hefur ekki svarað. Ég mundi mjög gjarnan vilja að ráðherrann sæi sóma sinn í því að svara fyrirspurninni þannig að ég væri ekki búinn að nýta minn rétt til fullnustu til að taka til máls áður en hann svaraði.
    Ég vil enn fremur minna forseta á að það er talið heldur við hæfi að sá ráðherra sem ábyrgð ber á málinu sé viðstaddur umræðuna og ég hef ekki séð hæstv. utanrrh. hér eftir að umræðan hófst að nýju né heldur formann utanrmn. sem er frsm. og ábyrgðarmaður meiri hluta utanrmn. sem leggur málið fram til 2. umr.
    Mér þykir umræða vera teygð áfram á heldur veikum forsendum og sé ekki að það sé einn hugur í þingmönnum að taka þátt í henni aftir atburði dagsins og hefði talið heppilegt að menn létu nú staðar numið og lykju þessari umræðu á morgun. En ef forseti kýs að halda áfram umræðunni verður það svo að vera, en ég mun þá fara fram á það við forseta að utanrrh. verði kvaddur til þingfundar. Honum ber að vera hér sem og öllum hinum þingmönnunum sem eru ekki hér. Og ég fer fram á það líka að hæstv. utanrrh. svari minni fyrirspurn áður en ég tek til máls öðru sinni. Ég tel það eðlilega ósk og vænti þess að forseti verði við því.