Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 17:42:17 (4758)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann hafi hlustað á ræður hæstv. sjútvrh. í þessu máli sem hefur borið það við af mikilli eljusemi að rökstyðja það fyrir þingheimi ásamt fleirum reyndar að sá samningur sem hér er verið að ræða sé í jafnvægi og að veiðheimildirnar sem verið sé að skipta á séu jafngildar. Hæstv. utanrrh. kemur hér og segir beinum og berum orðum að hér hafi menn verið að kosta til til að fá heildarjafnvægi í samningana um EES. Mig langar til að spyrja hann í beinu framhaldi af því: Telur hann að orðin ,,ásættanlegt jafnvægi`` í þeim samningi sem hér er verið að ræða þýði að EB muni í framtíðinni krefjast þess að fá sams konar jafnvægi eftir sínu mati á samningunum og er í þessum samningi, þ.e. að veiðiheimildir verði með mjög ólíku formi? Og þegar það er líka skoðað að EB neitaði þegar á átti að herða að taka langhalann gildan í skiptum fyrir loðnuna og taldi þá að þessu ásættanlega jafnvægi sem talað er um í samningnum væri raskað, er það þá þannig að við megum eiga von á því í næsta samningi að EB muni benda á það að þetta ásættanlega jafnvægi sé ekki endilega ásættanlegt jafnvægi um jafngildi veiðiheimilda heldur með tillit til einhverra annarra samninga?