Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 18:32:57 (4763)


     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér heyrðist á síðustu orðum hv. síðasta ræðumanns að hann væri að ruglast á umræðum. Við erum ekki að ræða um EES heldur um tvíhliða samninginn.
    Ég verð að segja að það var afskaplega óheppilegt af hv. þm. Stefáni Guðmundssyni að gera að umræðuefni jafngildi veiðiheimilda og verðmætastuðla eins og hæstv. sjútvrh. er búinn að berja Framsfl. sundur og saman í þessu máli þannig að maður hefur ekki lengi vel séð þvílíka útreið.
    Það er rétt, sem kom fram í máli hv. þm. Stefáns Guðmundssonar, að Evrópubandalagið hefur um áratuga skeið rekið eins konar nýlendustefnu gagnvart Íslendingum. Þeir hafa beitt tollum til að laða til sín sem mest af óunnu hráefni til þess m.a. að skapa atvinnu í sínum eigin löndum og til þess að eiga kost á sem ódýrustu efni í sinn matvælaiðnað. Þeir hafa gert þetta með því að setja upp háa tolla á unninn ferskan fisk og saltfisk. Hins vegar hafa þeir beitt lágum tollum eða engum í sumum tilvikum á óunninn fisk. Með þessu hafa þeir náð að laða til sín mikið af óunnu hráefni. Hvers vegna erum við að tala hér um Evrópska efnahagssvæðið í tengslum við þetta? Við erum að gera það vegna þess að með EES er verið að fella niður þessa tolla. Það gerir okkur kleift að færa fullvinnsluna inn í landið, færa atvinnuna inn í landið sem felst í því að fullvinna þessa hluti sem áður voru seldir óunnir til Evrópu.
    Það hefur stundum vafist fyrir mér hvernig stendur á því að jafnglöggur þingmaður og hv. þm. Stefán Guðmundsson hefur lagst gegn jafnmiklu þjóðþrifamáli og EES? Nú er skýringin komin. Hann hefur einfaldlega misskilið samninginn.