Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 11:57:13 (4772)

     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Út af ræðu hv. þm. Steingríms Sigfússonar vil ég taka fram nokkur atriði. Ég finn það að honum finnst að ríkisstjórnin fari batnandi og játi nú mistök sín og það er ágætt. Í fyrsta lagi vil ég segja það sem mína skoðun að þær aðgerðir sem voru gerðar fyrir jólin, m.a. með gengisfellingunni, gefa minna tilefni tilefni til að taka á í sambandi við kvótaskerðinguna en áður var. Í öðru lagi varðandi stöðuna á fjármagnsmarkaðnum þá vil ég vísa til skýrslu Seðlabankans sem kom út fyrir jólin en þar kom fram það álit að staðan mundi kannski heldur rýmkast. Ég er nú ekki alveg sammála því en ég hygg að vextir og aðstæður á fjármagnsmarkaði muni haldast svipað á þessu ári.
    Varðandi lífeyrissjóðina liggur fyrir að ráðstöfunarfé þeirra á þessu ári mun væntanlega verða 36,6 milljarðar. Það fer mjög vaxandi og ég hygg að kannski verði ekki sama þrengingin þar á bæ og þeir tala um í bréfi sínu.
    Varðandi virðisaukaskattinn á vinnu iðnaðarmanna vil ég taka fram að eins og þeir reikningar sem lagðir voru fram sýna, þá virðist vera búið að finna upp eilífðarvél í sambandi við ríkisfjármálin og ef þetta væri allt saman rétt og satt mundum við ganga hart fram og lækka alla þá skatta sem koma inn í byggingarvísitöluna og ríkið mundi stórgræða. Það hringja alltaf vissar viðvörunarbjöllur þegar þannig eilífðarvélar eru komnar á skrið, en það sem um er að ræða er það að eftir að búið er að stilla af persónuafslátt og þær tölur allar fyrir árið og menn koma svo eftir á og breyta byggingarvísitölunni til lækkunar þá fer viss vísitöluleikur í gang sem felst efnislega fyrst og fremst í því að það verður tilflutningur á skatti sem kemur á byggingarvísitöluna yfir á tekjuskattinn þannig að með

þessu er verið að hækka tekjuskattinn á móti. Og ég held að þetta sé kannski ekki alveg eins rakin leið til velfarnaðar eins og menn tala um.
    Varðandi endurgreiðsluna af búvörunum þá liggur fyrir að hækkunin er 250 millj. Þetta þýðir í verðbólgu um 0,1--0,15% en ekki 0,3% eins og reikningar hafa gefið tilefni til.