Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 12:03:43 (4775)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það kann að vera svo að í vissum tilvikum sé þrýstingur af samkeppninni það harður að menn telji sig ekki hafa forsendur til að koma þessum hækkunum út en í öðrum tilvikum er þetta öfugt og dæmin sanna það. Það er nefnilega mikil

bjartsýni og oftrú að halda að þetta sé í öllum tilvikum þannig að menn taki svona kostnaðarhækkanir á sig sjálfir. Auðvitað reyna allir sem geta að koma þeim af sér. Og menn skulu ekki horfa fram hjá hinu að í ákveðnum tilvikum er það freisting fyrir menn að nota tækifærið og setja út jafnvel meiri hækkun en þeir þurfa á að halda. Neytendasamtökin t.d. hafa verið að kanna það að undanförnu og samkvæmt upplýsingum frá þeim sem ég hef sjá þau dæmi upp í allt að 15% verðhækkanir þar sem menn kannski geta rökstutt 3--5% vegna gengisbreytinga eða af öðrum ástæðum. En menn nota tækifærið og krækja sér í talsverða hækkun sem þá hefur auðvitað lengi langað í til að auka hagnað sinn og í ýmsum tilvikum er mönnum stætt á því eða telja sig geta gert það þannig að ég er því miður ekki eins bjartsýnn og hv. formaður efh.- og viðskn. að verðlagsáhrifin af þessum aðgerðum öllum muni verða minni eða hverfandi vegna þess að samkeppnin sé svo mikil. Ég óttast að það sé ekki svo. Og varðandi ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna á nýjan leik og kaup þeirra á húsbréfum, þá er það nú ekki rétt að kaupin eigi að vera 2 milljörðum minni en á þessu ári. Það var eingöngu tilflutningur yfir áramót á útgáfu skuldabréfaflokks upp á 4 milljarða, af hverjum átti að reyna að selja allt að 1 milljarði fyrir áramót sem breytir auðvitað engu um ráðstöfunarféð á þessu tímabili stórt séð. Og það er ljóst að þegar meðaltalið verður tekið yfir þessi tvö ár, þá er útgáfa húsbréfanna hin sama bæði árin eða um 12 milljarðar kr.