Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 13:52:47 (4780)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hvað sem líður nú allri formennsku í þessari nefnd sem á sér mjög sérstaka sögu, þá skil ég hæstv. sjútvrh. þannig að þessi nefnd, sem er undir allmerkilegri formennsku, sé um það bil að ljúka sínum störfum. Ég lít þá svo á að nefndin ætli sér að ljúka þessum störfum og klára þessi smáatriði sem hún á eftir eins og hæstv. ráðherra gat hér um án þess að ræða þetta mál neitt frekar við sjútvn. Alþingi. Það kemur mér satt best að segja ekkert á óvart, hæstv. ráðherra, miðað við það hvernig þetta mál hefur verið rekið. En ég tel það ekki vera í samræmi við anda laganna eða a.m.k. ekki þá gagnrýni sem viðhöfð var að því er varðar samráð um þetta stóra mál hér áður fyrr. Ég vil minna á í þessu sambandi að sá þróunarsjóður sem nú er hugmyndin að koma upp minnir í mörgu á Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins eins og hann var áður en núv. ríkisstjórn breytti honum þótt áreiðanlega sé þar einhver breyting á og vil minna hæstv. ráðherra á að það var mjög gagnrýnt á sínum tíma að ekki skyldi vera haft nægilegt samráð við þáv. stjórnarandstöðu. Ef þetta mál er með einhverjum svipuðum hætti og fyrrv. Hagræðingarsjóður þá bið ég hæstv. ráðherra að lesa þó ekki væri nema lítið brot af löngum ræðum flokksfélaga sinna um þetta mál á Alþingi hér áður fyrr. Ég veit að það er að vísu allmikið verk að komast í gegnum það en það ætti að vera vel leysanlegt fyrir hæstv. ráðherra ef hann leggur sig fram í þeim efnum. ( Gripið fram í: Hvaða ráðherra er það?)