Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 14:34:13 (4782)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður vék nokkuð að lánsfjárþörf húsnæðiskerfisins og bréfi sem efh.- og viðskn. barst frá Landssambandi lífeyrissjóða og Sambandi almennra lífeyrissjóða vegna aukningar á lánsfé til byggingarsjóðanna á næsta ári miðað við síðasta ár. Á því má segja að séu nokkrar skýringar. Ég vil rifja upp að á árinu 1990 voru skuldbindingar lífeyrissjóðanna við húsnæðiskerfið um 53% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna, sem hefur farið lækkandi, var 47% 1991 og fór niður í 25% á síðasta ári. Stefnt var að því að lánsfjárþörfin frá lífeyrissjóðunum þyrfti ekki að vera meiri en 24% á næsta ári. Var þá miðað við þær áætlanir ríkisstjórnarinnar að hægt væri að byggja hér 500 félagslegar íbúðir á ári.
    Nú stefnir í það að þetta verði ekki 24% eins og áætlað var heldur 29% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna á næsta ári. Á það sér einkum tvær skýringar. Í fyrsta lagi hefur verið ákveðið og áform uppi um það að leggja af skyldusparnaðinn á þessu ári og greiða hann út að hluta til sem kallar á fjárþörf upp á sennilega 1.200--1.400 millj. Einnig hefur ekki tekist á þessu síðasta ári að greiða skuld Húsnæðisstofnunar við ríkissjóð sem var um 1.500 millj. og á sér sögu sennilega 2--3 ár aftur í tímann og er tilkomin vegna þess að lífeyrissjóðirnir hafa ekki staðið við skuldbindingar sínar og þess vegna hefur þurft að taka bráðabirgðalán hjá ríkissjóði. Þessar tvær meginskýringar eru á því að lánsfjárþörfin er meiri. Það er í fyrsta lagi skuldin við ríkissjóð og í annan stað að áformað er að leggja niður skyldusparnaðinn.
    Síðan vil ég nefna eitt atriði til örstutt. Það er að áformað var að að hluta til yrði lánsfjármögnunin gegnum svonefnd húsnæðisbréf, sem lífeyrissjóðirnir lögðu áherslu á, og að 1 / 4 af þörfinni kæmi þaðan en lífeyrissjóðirnir hafa ekki keypt nema fyrir um 1.100 millj. á síðasta ári af húsnæðisbréfunum miðað við 2 milljarða sem áætlað var.