Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 14:36:53 (4783)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir þessi svör en þau beina sjónum að stöðu húsnæðiskerfisins og hvernig menn ætla sér að fjármagna það í framtíðinni því nú er það að gerast að fjármagnsmarkaðurinn er mjög að opnast og varla hægt að skylda lífeyrissjóðina áfram til þess að fjárfesta í húsbréfum og öðrum bréfum sem Húsnæðisstofnun býður upp á ef þar er ekki um að ræða bestu ávöxtun sem hægt er að fá. Við hljótum því að standa frammi fyrir nokkrum vanda. En ég minni líka á það sem ég sagði áður og kemur fram í lánsfjárlögunum að vandi byggingarsjóðanna ræðst ekki síður af því að þeir hafa neyðst til að leita út á lánamarkaðinn í æ ríkara mæli.
    Það er náttúrlega ákveðinn fortíðarvandi sem þarna er á ferð þó menn megi ekki einblína á hann. Erum við ekki enn þá einu sinni komin að þeim punkti að þurfa að fara að skoða þetta húsnæðiskerfi allt í heild? Það hefur verið skoðað í bútum. Það hafa verið gerðar breytingar á Byggingarsjóði ríkisins og húsbréfakerfið tók þar við. Það hafa verið gerðar allverulegar breytingar á félagslega húsnæðiskerfinu. En er ekki komið að þeim punkti nú að við þurfum að fara að skoða þetta kerfi í heild og marka framtíðarstefnu sem felur í sér að það sé ekki verið að búa sífellt til ný vandamál?