Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 14:40:47 (4784)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Það kom fram í máli síðasta ræðumanns að það væri erfitt að skylda lífeyrissjóðina til þess að fjármagna húsnæðiskerfið. Ég vil þá vekja athygli á því að þær skuldbindingar sem lífeyrissjóðirnir hafa þurft að standa skil á til húsnæðiskerfisins hafa minnkað úr 55% í 25%. Ég vil enn fremur minna á að stærsti hlutinn af þessu lánsfjármagni, um 6--7 milljarðar a.m.k., fer til þess að byggja upp félagslega húsnæðiskerfið sem hlýtur að vera til hagsbóta fyrir sjóðfélaga lífeyrissjóðanna. Því vænti ég þess að þeir vilji leggja nokkuð á sig til þess að hægt sé að halda uppi þeirri útlánaáætlun sem að er stefnt, þ.e. 500 íbúðir á ári. Engu að síður vil ég segja að ég hygg að taka þurfi upp þá samninga sem voru gerðir við lífeyrissjóðina á síðasta ári til tveggja ára þar sem fram kom að 1 / 4 af þörfinni yrði fjármagnaður í gegnum sölu á svonefndum húsnæðisbréfum og

helmingurinn á árinu 1993 miðað við reynsluna þar sem í ljós kemur að það hefur ekki staðist, sem áætlað var og lífeyrissjóðirnir lögðu áherslu á, að keypt yrði fyrir 2 milljarða gegnum húsnæðisbréfin. Það hefur einungis orðið 1 milljarður. Þess vegna hygg ég að taka verði upp samningana sem gerðir voru við lífeyrissjóðina vegna þess að ætla má, miðað við fyrri reynslu, að ekki sé raunhæft að helmingurinn af þessu sé fjármagnaður í gegnum svokölluð húsnæðisbréf.