Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 14:40:50 (4785)

     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mig langar að koma með örstutt andsvar við mjög svo málefnalegri ræðu hv. 18. þm. Reykv. því að vissulega metur maður það hvernig þingmenn setja fram mál sín og í þessu tilfelli ég þó að við séum sitt hvoru megin borðs í afstöðunni í þessu stóra máli.
    Ég vil aðeins koma upp til þess að fjalla um vinnuna í efh.- og viðskn. vegna þess að tveir hv. síðustu ræðumenn komu örlítið inn á vinnubrögðin þar. Vissulega er þessi nefnd með umfangsmikil mál, mörg mál og oft þung mál og nægir þar að nefna skattamál sem við erum með á okkar borðum fyrir jól. Ég vil gjarnan að það komi fram hér að það er reynt að verða við öllum óskum um að kalla til aðila og taka tillit til sjónarmiða þeirra sem þar koma fram. Þar með vil ég geta þess varðandi járnblendiverksmiðjuna, þó að hv. 18. þm. Reykv. hefði ekki nefnt það, að bæði komu fulltrúar ráðuneytis á fund nefndarinnar og eins voru gögn útveguð sem óskað var eftir. En ég læt formanni nefndar það eftir hvort haldinn verður sá fundur sem hér var nefndur af fyrri ræðumanni.
    Ég vil gjarnan nefna það líka að auðvitað er það misjafnt hvað frumvörp taka miklum breytingum í nefnd, en get nefnt samkeppnislög sem dæmi um góða yfirferð, góða samvinnu og miklar breytingar á mikilvægu máli. Það er síður þegar þungar ákvarðanir eins og skattamál eru fyrir nefnd og mál af þeim toga sem byggja á málamiðlun milli flokka, að þau taki miklum breytingum. Það gerðist þó fyrir jól að við umfjöllun lagði efh.- og viðskn. til breytingar á skattalögum sem vissulega var viðkvæm tillaga og kallaði á að fella út aðra viðkvæma tillögu og gerði það að verkum að menn voru jafnvel að taka á sig mjög þunga gagnrýni í tvígang.
    Það er misjafnt hversu mikið tillit er tekið til sjónarmiða af hálfu gesta í efh.- og viðskn. Það var vissulega bent á vísitöluhækkunina og þau margfeldisáhrif sem hún hefði og það er kannski þess vegna sem ég kom hér upp. Auðvitað var það búið að koma fram í greinargerð fjárlaga að hækkun yrði á byggingarvísitölu þó að menn greindi á um hve mikil hún yrði. Mér finnst sjálfri að það sé afar gott mál þegar ríkisstjórn fellur frá máli eftir að meira samráð hefur verið haft og niðurstaðan er að sjónarmiðið sé það að gallar séu meiri en menn töldu áður.
    Ég vil líka að lokum, virðulegi forseti, taka undir sjónarmið varðandi þætti eins og torfbæina og að við stöndum saman að því í menntmn. að hreyfa áfram þeim mikilvægu málum þó að smá séu.