Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 16:02:55 (4791)

     Steingrímur Hermannsson (frh.) :
    Herra forseti. Það er rétt að ég hafi hafið mína ræðu. Ég fjallaði nokkuð almennt um stöðu efnahagsmála og vakti athygli á því að flestir þeir stjórnarsinnar sem gerðu grein fyrir atkvæði sínu um hið Evrópska efnahagssvæði töldu það mál mikilvægt fyrir íslenskt atvinnulíf og að sóknarfæri sköpuðust þar. A.m.k. hafði það þau áhrif á mig að mér sýndist að flestir þessara ágætu hv. þm. sæju ekki aðra kosti fyrir íslenskt atvinnulíf í þeirri stöðu sem er nú. Ég dró ekki í efa að þarna gætu verið sóknarfæri en ég vakti athygli á því að til þess að nýta sér slík færi þyrftu atvinnuvegirnir að vera sterkir og til þess þarf ríkisstjórnin að gera meira en hún hefur gert til þessa. Hún þarf að taka hendur úr vösum og breyta um stefnu og taka til með atvinnulífinu að styrkja það og undirbúa það undir þau átök sem hljóta að fylgja opnu efnahagslífi eins og að er stefnt með þessum samningum.
    Ég vakti athygli á því að flestir þeir hagfræðingar sem hvað mest eru metnir um þessar mundir telja að frjálshyggjan hafi gengið sér til húðar og nauðsynlegt sé að ríkisvald og atvinnulíf vinni saman og að því er stefnt í Bandaríkjunum eins og greinilega hefur komið fram í ræðum og yfirlýsingum þess manns sem tekur við forsetasæti þar eftir nokkra daga.
    Ég ræddi nokkuð hins vegar um það sem ríkisstjórnin hefur gert. Ég lýsti stuðningi við það að ná jafnvægi eins og hægt er og draga úr halla á ríkisfjármálum en vakti athygli á að það mun vart nást með atvinnulífið í þeirri stöðu sem það er nú og því atvinnuleysi sem er í landinu og ég ætla að koma að á eftir.
    Líklega einna hlutlausasta mat á skattaálögum ríkisstjórnarinnar kom fram í fréttum á Stöð 2 þar sem áætlað var að ríkisstjórnin hafi lagt á skatta sem nema 6 milljörðum umfram það sem dregið hefur verið úr sköttum eða það sem fellt hefur verið niður. Ég hygg að jafnvel svonefndur ,,skattmann`` í fyrri ríkisstjórn, sem stundum var svo kallaður af stjórnarandstöðunni, blikni mjög í samanburði við það sem núv. ríkisstjórn hefur afrekað í þessum efnum. Þetta er svo sannarlega ekki til að draga úr atvinnuleysi. Það hefur greinilega komið fram, m.a. í nýlegum aðgerðum ríkisstjórnarinnar þar sem horfið var frá að hætta við að endurgreiða söluskatt í byggingariðnaði. Ég vil óska hæstv. forsrh. til hamingju með það. Það er vissulega enginn maður minni af því að viðurkenna sín mistök eins og hæstv. ráðherra hefur gert. En ég hygg að þessi mistök séu miklu víðar. Það kom mjög greinilega fram í orðum hæstv. forsrh. við fjölmiðla að hann er að uppgötva hin ýmsu leyndarmál vísitölunnar. Við sem höfum orðið að þola hana lengi gerðum okkur grein fyrir því, eins og reyndar talsmenn stjórnarandstöðunnar gerðu grein fyrir hér í umræðunni, að áhrifin mundu verða þessi. Og þau munu víðar verða þessi. Það hefur komið fram að áhrifin eru miklu meiri t.d. í landbúnaði en gert var ráð fyrir þar sem dregið hefur verið úr greiðslum og svo mun víðar verða.
    Hvað hefur þá þessi hæstv. ríkisstjórn gert til þess að styrkja íslenskt atvinnulíf? Í ræðu hæstv. forsrh. þegar hann tilkynnti aðgerðir ríkisstjórnarinnar 23. nóv. sl. rakti hann nokkur þau atriði sem grípa ætti til. Hann nefndi m.a. að veita 2 milljarða til að flýta vegaframkvæmdum. Þarna var náttúrlega aðeins verið að flýta. Það er verið að taka úr Vegasjóði það sem síðar kæmi þar til útgreiðslu. Úr þessu mun hafa verið dregið niður í 1,8 milljarða ef ég man rétt.
    Ég vek sérstaka athygli á því að af þeim liðum sem stærri voru voru m.a. nefndar 500 millj. til atvinnumála á Suðurnesjum. Á þessu hefur ekki nokkurn skapaðan hlut bólað. Það hefur enginn orðið var við þessar 500 millj. Þarna er allt á huldu og væri mjög fróðlegt og nauðsynlegt að fá upplýst hjá hæstv. forsrh. hvað líður þessum 500 millj. Áttu þessar 500 millj. ekki að koma að einhverju leyti a.m.k. úr ríkissjóði? Mér er ljóst að gert er ráð fyrir því að Aðalverktakar leggi fram nokkuð af þessu fjármagni og vona ég að svo verði en það er ekki komið enn og aðeins hefur heyrst frá einum hluthafa í Aðalverktökum, þ.e. Sameinuðum verktökum, að þeir væru tilbúnir að leggja 300 millj. til þessara mála með sérstökum skilyrðum. En hvað á að koma úr ríkissjóði til þessara mála og hvað líður lausn þessa heildardæmis?
    Þá var boðað að það ætti að veita 500 millj. til viðhalds á byggingum. Ef ég man rétt var það skorið niður í 100 millj. Þetta eru því harla litlar aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur lofað og úr þeim hefur orðið enn þá minna til að efla íslenskt atvinnulíf. Og ekkert komið fram, sem margsinnis hefur verið nefnt á hinu háa Alþingi, enginn vilji að því er virðist hjá hæstv. ríkisstjórn til að stuðla að nýsköpun í íslensku atvinnulífi og ekkert

fjármagn í því skyni. Ríkisstjórnin hefur selt hlut sinn í Þróunarfélagi Íslands og sem betur fer keyptu lífeyrissjóðirnir það og vonandi halda þeir þeirri starfsemi áfram. En ég tel sjálfsagt í því ástandi sem nú er að ríkisstjórnin leggi viðbótarfjármagn til þess að veita áhættufé til nýsköpunar í íslensku atvinnulífi. Það hefur sem sagt ekki gerst.
    Fjölmargt fleira mætti nefna sem verkar neikvætt. Ríkisstjórnin boðaði í þessum aðgerðum sínum lækkun vaxta og dró síðan smávegis úr bindiskyldu bankanna en meira var ekki gert. Hver hefur niðurstaðan af þessu orðið? Niðurstaðan hefur ekki orðið lækkun vaxta heldur hækkun vaxta um um það bil 2%. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá Þjóðhagsstofnun hefur það þessi áhrif í þjóðfélaginu: Heildarskuldir heimilanna telur Þjóðhagsstofnun vera um 211 millj. kr. 1% hækkun vaxta veldur auknum útgjöldum upp á 2,1 milljarð kr. Eða 2% hækkun vaxta leiðir til aukinna útgjalda upp á 4,2 milljarða kr. hjá heimilunum í landinu. Atvinnuvegirnir eru taldir skulda um 285 millj. og þar af eru innlendar skuldir taldar vera um 50%. Þjóðhagsstofnun metur að 1% hækkun vaxta muni auka útgjöldin um 1,4--1,5 milljarða eða hátt í 3 milljarða við þessa 2% vaxtahækkun. Í Morgunblaðinu í morgun sá ég því lýst hvað vextir af viðskiptavíxlum eru nú orðnir. Af 45 daga víxli er kostnaður yfir 30% um 32% eða 33% í Íslandsbanka og eitthvað um 28% eða svo í Landsbanka.
    Ég held að hver einasti maður hljóti að sjá að þetta er ekki aðstoð við atvinnulífið. Þetta er ekki lækkun vaxta og þaðan af síður aðstoð við atvinnulífið og að sjálfsögðu hlýtur þessi stóraukni fjármagnskostnaður að leiða til hækkunar á öðrum sviðum. Að sjálfsögðu hljóta þeir smásalar t.d. sem þurfa nú að greiða yfir 30% í kostnað af sínum vöruvíxlum að færa það út í verðlagið. Ég er því hræddur um að áhrifin af þessu, sem aftur má rekja til þeirrar auknu verðbólgu sem fylgir aðgerðum ríkisstjórnarinnar og alveg sérstaklega til þeirrar stórhækkunar á vöxtum sem ríkisstjórnin sjálf hefur beitt sér fyrir og gerði æðimyndarlega í upphafi síns ferils með einu pennastriki, muni leiða til þess að verðbólga eykst enn. Samkvæmt þeim tölum sem ég hef fengið frá Þjóðhagsstofnun þá fæ ég ekki séð að þessi hækkun vaxta hafi verið tekin inn í það dæmi.
    Það kom fram í viðtali við formann Samtaka fiskvinnslustöðvanna að hækkun vaxta tæki bróðurpartinn eða a.m.k. helminginn af þeim bata sem leiddi af niðurfellingu aðstöðugjaldsins. Það er sem sagt búið að taka það allt til baka. Í yfirliti sem ég fékk frá Þjóðhagsstofnun um stöðu sjávarútvegsins kemur fram að afnám aðstöðugjaldsins bætir afkomu sjávarútvegsins um 1%. En samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir frá formanni samtaka vinnslustöðvanna þá er þetta allt tekið til baka með 2% hækkun á vöxtum á skuldum sjávarútvegsins.
    Það er reyndar athyglisvert að í því mati sem kemur fram hjá sjávarútveginum er talið að aðgerðirnar allar, og þá ekki reiknað með hækkun vaxta, bættu afkomu sjávarútvegsins 4,9%. Eftir stæðu rúmlega 3% eða 3,1% í mínus. En það er athyglisvert að auk þess að taka ekki tilliti til hækkunar vaxta er þarna búið að reikna inn í áhrifin af opnun Evrópumarkaðarins. Hann er reiknaður þar upp á 1,8% en eins og allir vita þá kemur það ekki til framkvæmda fyrr en um mitt ár. Afkoma sjávarútvegsins er því augljóslega töluvert lakari en Þjóðhagsstofnun metur. Mér sýnist eitthvað um í kringum 2% lakari eða í mínus 5%.
    Sjálfsagt er að taka fram að þessar tölur Þjóðhagsstofnunar hafa verið vefengdar af fulltrúum sjávarútvegsins sem vekja athygli á því að hér er ekki reiknað með nema 6% ávöxtun fjármagns. Eins og allir vita þá eru vextir langtum hærri en það og ef reiknað er með raunverulegum fjármagnskostnaði þá versnar afkoman um 2--3%.
    Það horfir því ekki vel fyrir íslenskan sjávarútveg að eiga að takast á við niðurgreidda fiskvinnslu í Evrópulöndunum. Og sannarlega er meira aðkallandi nú en nokkru sinni fyrr að bæta afkomu íslenskra atvinnuvega ekki bara sjávarútvegsins, sem er gerður að sérstöku umræðuefni hér, heldur líka íslensks iðnaðar.
    Fram kemur í nýlegri úttekt Félags íslenskra iðnrekenda að á öllum sviðum iðnaðarins nema í neysluvöruiðnaðinum er samdráttur og vaxandi atvinnuleysi og alls staðar er því spáð að uppsagnir muni aukast á næstunni. Hér er áætlað að atvinnuleysi sé yfir

5.000 manns og líklega að nálgast 6.000. Það er athyglisvert og ekki verður á móti mælt að í þessum tölum eru ekki fjölmargir sem ekki njóta atvinnuleysisbóta svo þær munu að öllum líkindum vera töluvert hærri. Væri áhugavert að vita hvort ríkisstjórnin hefur gert ráðstafanir til þess að kanna hvert raunverulegt atvinnuleysi í landinu er. Fjölmargir, t.d. ungir námsmenn, sem eru nýkomnir til landsins ganga um atvinnulausir. Hefur verið athugað hver sá fjöldi er? Þarna þarf vitanlega að taka til hendi og það er ekki nóg. Það verður að grípa til róttækra aðgerða til að draga úr þessu atvinnuleysi.
    Ég ætla ekki að hafa þetta langa ræðu heldur fyrst og fremst að vekja athygli á því atriði, sem ekki hefur komið inn í dæmið, að útgjaldaauki heimilanna vegna hækkunar vaxta eru líklega um 4 milljarðar og atvinnuveganna líklega um 3 milljarðar samkvæmt áætlun Þjóðhagsstofnunar. Það munar um minna. Það er afar nauðsynlegt að menn hafi í huga að í öllum áætlunum, t.d. Þjóðhagsstofnunar, hefur þessi vaxtahækkun ekki verið tekin með í reikninginn. Telja menn virkilega að hún sé þess eðlis að ekki þurfi að skoða hana vandlega?
    Ég óttast því að af þeim víxlhækkunum sem nú eru hafnar muni leiða meiri verðbólga en spáð hefur verið. Ég vona sannarlega að svo verði ekki því að vissulega var það að ná niður verðbólgunni við mjög erfiðar aðstæður eitt hið besta sem fyrri ríkisstjórn gerði og skilaði núv. ríkisstjórn í arf og núv. ríkisstjórn hefur mjög vísað til sem mikilvægt íslensku efnahagslífi. Það væri afar illt ef þessi víxlverkun hæfist á ný.
    Ég vil að lokum segja örfá orð um tvö mál. Í fyrsta lagi þá breytingu sem hefur orðið á eiginfjárstöðu bankanna að mati þeirra. Ég vil aðeins geta þess að samkvæmt ítarlegri grein sem ég hef nýlega fengið úr erlendu tímariti um þessa svokölluðu ,,BIS-reglu`` er það athyglisvert, og ég vil koma því hér á framfæri, að framkvæmdin á þeim fer mjög eftir því hvernig háttar í viðkomandi löndum. T.d. er þess getið hér að Frakkar telja með í eiginfjárstöðu bankanna lán sem veitt eru til frönsku nýlendnanna, til þróunarlandanna. En hér á landi er ekki heimilt að telja með lán sem veitt eru til sjávarútvegsins með veð í skipum. Hér kemur greinilega fram, án þess að ég fari að lengja mál mitt með því að lesa það, að þessar reglur eru framkvæmdar mjög eftir aðstöðu í hverju landi. En hér hafa hæstv. viðskrh. og Seðlabankinn gerst, eins og oftar, kaþólskari en páfinn og af því að Evrópubandalagið telur ekki veð í fiskiskipum, í þeim ryðdöllum sem þeir eiga --- ég leyfi mér að segja svo því ég held að allir viti að þeirra skip eru ekki talin mikils virði --- með í eiginfjárstöðu bankanna þá er það heldur ekki talið hér. Það er hreint og beint ótrúlegt. Við skulum taka sem dæmi að lán í líklega glæsilegasta togara í heimi sem var að koma til Skagastrandar eru talin 100% áhætta í reikningum bankanna samkvæmt reglum hæstv. viðskrh. og Seðlabankans.
    Það vakti því athygli mína þegar ég hljóp yfir þessa grein að í öðrum löndum er þetta vitanlega lagað að aðstæðum í hverju landi og að því hvað er talið þar mikilvægast í efnahagslífinu. En eins og ég sagði áðan er í því nýja andrúmslofti sem við komum til með að hrærast í að öllum líkindum, þ.e. við opnun Evrópu, ákaflega mikilvægt að ríkisstjórnin taki hendur úr vösum og geri ýmislegt til þess að styrkja íslenskt atvinnulíf og ætla ég að lokum að fara örfáum orðum um það. Þar eru kostirnir sem betur fer æðimargir. Ríkisstjórnin hefur núna horfið frá því að endurgreiða ekki virðisaukaskatt í byggingariðnaði og ég óska hæstv. forsrh. til hamingju með það, en hvað t.d. um þá atvinnugrein sem talin hefur verið einna líklegust til vaxtar hér á landi, ferðaiðnaðinn, sem skilar líklega í gjaldeyri á síðasta ári 10% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar? Það er á allra vitorði að hér eru hótel og matur mjög dýr og mikið undan því kvartað af erlendum aðilum. Það var einmitt með það í huga að fyrri ríkisstjórn ákvað að leggja ekki virðisaukaskatt á ferðaiðnaðinn, enda er þetta má segja útflutningsiðnaður og því eðlilegt að hann njóti frelsis að þessu leyti. Hæstv. ríkisstjórn telur að með því að fella niður önnur gjöld þá sé þarna um 250 millj. kr. að ræða. Eftir viðtölum að dæma sem ég hef átt við forustumenn í þessum iðnaði þá mun þetta eins og í byggingariðnaðinum vera rangt metið og ég vil eindregið skora á hæstv. forsrh. að láta taka þetta mál upp líka og skoða það vandlega. Þá er ég aðeins að tala um tölurnar, um staðreyndina, um tölurnar, ekki að tala um hitt, hvaða áhrif

þetta muni hafa á ferðaiðnaðinn almennt sem berst við mjög hátt verðlag og mun erfiða samkeppnisstöðu við erlendan ferðaiðnað.
    Ég tel þetta vera afar mikið spor aftur á bak og geti orðið til þess að vöxtur í þessari grein sem menn hafa bundið miklar vonir við muni ef nokkur verða langtum minni heldur en menn gerðu ráð fyrir. Hvað um ýmiss konar nýsköpun á sviði t.d. hátækniiðnaðarins? Þar á ég bæði við í hugbúnaði og vélbúnaði. Hér hafa fyrirtæki staðið sig vel þar og það er athyglisvert að fyrirtæki, t.d. eins og Marel, sem gekk illa, það naut aðstoðar frá Þróunarfélagi Íslands og það var með þeirri aðstoð, með því áhættufjármagni sem þar var lagt inn, sem tókst að reisa það fyrirtæki við og það er orðið mjög öflugt og okkur Íslendingum til sóma og alls staðar þekkt. Fleiri þannig dæmi gæti ég nefnt um fyrirtæki sem með því að veita inn áhættufé var komið af stað og þetta þarf alveg tvímælalaust að auka. Þau eru fjölmörg hér litlu fyrirtækin sem berjast í bökkum vegna þess að þau fá ekki nægilegt hlutafé, ekki nægilegt áhættufé og hafa ekki fjármagn til markaðssetningar erlendis sem er að sjálfsögðu mjög kostnaðarsamt. Ég hygg að því fjármagni væri afar vel varið, jafnvel þótt ríkisstjórnin tæki erlent lán til að veita í slíkt hlutafé í slíkum fyrirtækjum og kæmi margfalt til baka, þó það væri ekki nema brot af þeim fyrirtækjum sem kæmist yfir þröskuldinn. Ég er sannfærður um það að þau fyrirtæki, sem hafa með aðstoð Þróunarfélags Íslands komist yfir þröskuldinn, eins og stundum er sagt, hafi þegar greitt margfalt til þjóðarbúsins þá aðstoð sem þau fengu. Hvers vegna ekki að leita skipulega að öllum slíkum tækifærum? Hvers vegna að vera að horfa stöðugt á álbræðslu? Nú kemur í fréttum að Indverjar ætla að tvöfalda sína álbræðslu. Við höfum ekki heyrt frá hæstv. iðnrh. hvað það þýðir fyrir íslensku álbræðsluna, en er það ekki alveg ljóst að miðað við það framboð sem er í heiminum þá hlýtur það að seinka enn byggingu álbræðslu?
    Ég hef hvað eftir annað lýst mig hlynntan því að byggja álbræðslu en ég er þeirrar skoðunar að miklu, miklu meiri framtíð sé í ýmsum smáfyrirtækjum sem hér gætu risið. Við höfum þekkingu, við höfum fjöldann allan af ungu fólki sem hefur sérhæft sig á þeim sviðum sem koma slíkum fyrirtækjum að góðum notum.
    Ég held einnig að menn verði að hafa í huga þá staðreynd að almenn spá í heiminum er sú að botnfiskafli mun ekki aukast. Bjartsýnasta spá sem FAO gerir er sú að botnfiskafli standi í stað, en hins vegar eru margir sem spá því að botnfiskafli í heiminum muni dragast saman. Við skulum vona að svo verði ekki hér en ég legg á það mikla áherslu að menn þurfi að undirbúa sig undir það að svo geti farið. Hér er fiskeldi orðið einhvers konar bannorð en staðreyndin er sú að nánast öll aukning í framboði á fiski er frá fiskeldi um allan heim. Ég hef haft tækifæri til að skoða slíkt erlendis og það er alls staðar verið að gera stórátak til að koma fiskeldi upp. Hér urðu mistök sem fyrst og fremst voru þess valdandi að svo fór sem fór, þó svo ég segi að allt of lítið hafi verið lagt í rannsóknir í þessu skyni, heldur fyrst og fremst varð verðfall erlendis sem síðan hefur lagast nokkuð og vonandi verður það til þess að þau fiskeldisfyrirtæki sem lifa komist á fætur á ný. En hvers vegna ekki að vinna betur að þessum málum, læra af reynslunni, setja fjármagn í rannsóknir á þessum sviðum og byggja smám saman upp fiskeldi á þann veg sem reynslan kennir okkur að líklegast sé til þess að geta þrifist hér á landi?
    Þannig eru málin mörg. Hæstv. ríkisstjórn hefur að vísu boðað að hún ætli að setja fjármagn í rannsóknir og tilraunir og það skilst mér að eigi að koma af sölu Búnaðarbankans og kannski Landsbankans. Það er ekki fugl í hendi, vil ég segja, og mikið glapræði eftir að við höfum gengið inn í EES ef ætlunin er þá að selja ríkisbankana og ég trúi því ekki fyrr en á það reynir. En hvers vegna ekki að leggja verulegt fjármagn í rannsóknasjóð í því skyni að auka rannsóknir til þess að koma upp nýjum atvinnugreinum?
    Ég vil sem sagt leggja á það ríka áherslu að því miður þá hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar orðið allt aðrar heldur en boðað var, alls ekki til þess að styrkja og efla íslenskt atvinnulíf, því fer víðs fjarri. Þær hafa orðið til þess að stórhækka vexti. Þær hafa orðið til þess að auka fjármagnskostnað fyrirtækjanna og einstaklinga um eitthvað eins og 6--7 milljarða kr. Þær munu að öllum líkindum verða til þess að hækka vísitöluna og auka verðbólguna og þær munu verða til þess að auka á atvinnuleysi, á því er ekki nokkur vafi. Það

mun að öllum líkindum verða til þess að mjög mikill órói verði á vinnumarkaðinum, erfitt verði að ná þjóðarsátt og ég held að það sé full ástæða til að við berum kvíðboga fyrir þessu nú þegar verið er að bjóða erlendum fyrirtækjum, sterkum og öflugum með góða eiginfjárstöðu og nægt fjármagn til fjárfestinga, að fá frelsi eins og íslensk væru í okkar landi.
    Þetta vildi ég segja við þetta tækifæri, eins og ég sagði í upphafi og ætla ég ekki að fara að rekja það nánar, það er ýmislegt sem kemur fram í lánsfjárlögunum en þau eru eins konar samnefnari ásamt fjárlögunum fyrir efnahagsstefnu ríkisstjórnar og því full ástæða til þess að menn ræði þetta nánar. Ég geri svo ráð fyrir því að þessi mál hljóti að vera langtum oftar og ítarlegar hér á dagskránni í framtíðinni því þau eru tvímælalaust þau alvarlegustu sem við blasa á þessari stundu: Atvinnuástandið og staða íslenskra atvinnuvega.