Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 17:05:50 (4795)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. gerði lítið úr því sem hefur verið bent á í dag að það kynni að koma til þess að menn yrðu að endurskoða ýmsar aðrar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar í skattamálum en þá að hætta við að innheimta virðisaukaskatt af vinnu á byggingarstað og vék sérstaklega að umræðum um ferðaþjónustuna. Það virtist vera sem hann gerði heldur lítið úr þeirri skattlagningu og nefndi að þetta skilaði eingöngu 48 millj. kr. en ég vil minna á það sem fram kom í áliti Þjóðhagsstofnunar þar sem hún mat það svo að skattlagning á ferðaþjónustuna gæti þýtt fækkun allt að 70 starfa í ferðaþjónustu og við þær kringumstæður sem nú ríkja í þjóðfélaginu er þetta auðvitað mjög alvarlegt. Það er rétt sem fram kom að áhrifin eru auðvitað mismunandi eftir því hvar er í ferðaþjónustunni en þetta er alvarlegt mál. Fyrir atvinnugreinar sem standa tæpt og sem eru að berjast fyrir lífi sínu, þá er slík skattlagning auðvitað af hinu vonda.
    Hæstv. forsrh. fagnaði ummælum mínum um vexti og virtist halda að um einhvern nýjan skilning væri að ræða en mér hefur lengi verið alveg ljóst að hin gríðarlega eftirspurn ríkisins eftir lánsfé hefur áhrif á vextina þó að ýmislegt fleira komi þar inn í og ríkisvaldið getur haft mikil áhrif á vaxtastigið í landinu með aðgerðum sínum.
    Að lokum, virðulegi forseti, þá gerði hæstv. forsrh. heldur lítið úr þeim breytingum sem hafa verið gerðar á Byggðastofnun. Ég fæ ekki betur séð en að hlutverk hennar sé að breytast allverulega og muni breytast enn meira verði hinn svokallaði þróunarsjóður að veruleika því að auðvitað er verið að færa sjóði frá Byggðastofnun og til þróunarsjóðsins og menn hljóta að spyrja spurninga um það hvert eigi að verða framtíðarhlutverk

Byggðastofnunar.