Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 17:08:28 (4796)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ekki eðlilegt að líta á Atvinnutryggingarsjóðinn sem eiginlegan hluta af Byggðastofnun þó að Byggðastofnun hafi verið fengin umsýsla með sjóðnum. Ég tel alls enga frágangssök að sjóðurinn verði sameinaður í þróunarsjóði þegar til kemur og tel alls ekki að Byggðastofnun sem slík hafi neitt veikst vegna þess. Það er alls ekki hægt að færa rök fyrir því.
    Varðandi vextina átti ég við það að ég fagnaði þessum yfirlýsingum hv. þm. vegna þess að ég hef ekki orðið var við það að Kvennalistinn tæki yfirleitt undir nokkurn sparnað í ríkiskerfinu, þvert á móti vildi hvarvetna ýta undir eyðslu. Þegar þingmaður Kvennalistans segist vera að verja bankana eða bankaráð, að ríkisvaldi sé um að kenna, ríkið hafi ekki náð tökum á lánsfjáreftirspurn sinni, þá fagna ég því vegna þess að það hlýtur samhengi að vera í skilningi þingmannsins og þingmaðurinn mun þá taka undir með okkur næst ef við þurfum að standa að sparnaði á vegum ríkisins.