Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 17:17:04 (4802)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. hafa á undanförnum vikum og mánuðum gert harðar árásir á Alþingi fyrir málefnalegar umræður sem hér hafa farið fram og sagt að þær væru niðurlæging fyrir Alþingi og tefðu þingstörf. Nú sýnist mér sífellt koma betur og betur í ljós að það eru óvönduð vinnubrögð ríkisstjórnarinnar sem tefja þingstörfin og hafa að því leyti sem þau snerta Alþingi orðið því til lítils sóma. Það kom reyndar þegar í ljós við undirbúning tillagna og frumvarpa ríkisstjórnarinnar á síðustu mánuðum síðasta árs hversu handahófs- og flausturslega var að þeim unnið og þar er af mörgu að taka. Síðast var hér áðan minnt á aðstoðina við sjávarútveginn vegna kvótaskerðingarinnar. Þar gengu yfirlýsingar á víxl í sumar milli hæstv. sjútvrh. og hæstv. forsrh. sem lýsti

því reyndar yfir að aðstoðin ætti að koma eftir örfáa daga eða eina viku. Hún er ekki komin enn þó að hæstv. forsrh. læsi upp eitthvert nál. sem við vitum ekki hvort verður meira virði en fyrri tillögur.
    Í öðrum málum um aðgerðir í efnahagsmálum var það oft svo að ákvörðun sem tekin var að kvöldi var horfin að morgni og annað komið í staðinn. Það minnti mann óneitanlega á það að ríkisstjórnin virtist vera að sökkva í fen, reyndi í örvæntingu að grípa í eitthvert hálmstrá sem sum hver brustu jafnóðum og þá væri gripið í það næsta. Því miður hefur farið svo með þær aðgerðir sem áttu að vera atvinnuvegunum til mikils stuðnings að það liggur a.m.k. ekki fyrir nú hversu miklu betur atvinnulífið stendur en það gerði áður en þær aðgerðir hófust því síðasta vaxtahækkun tók alveg í burtu ávinninginn sem sjávarútvegurinn átti að fá af að afnema aðstöðugjaldið. Hæstv. forsrh. segir að vísu nú að vaxtahækkunin eigi ekki að vara lengi, vextirnir eigi að lækka fljótt aftur. Vonandi verður það, en við minnumst þess líka að þegar ríkisstjórnin kom af stað vaxtasprengingu sinni í upphafi síns ferils þegar vextir voru hækkaðir með handafli um 3% í einu vetfangi og þeir áttu að lækka aftur eftir 2--3 mánuði þá varð löng bið á þeirri lækkun.
    Ef ég vík svo aðeins að málum sem mér finnast vera táknræn fyrir fumkenndan undirbúning ríkisstjórnarinnar og renna stoðum undir það hver áhrif þau hafa á vinnubrögð Alþingis þá vil ég nefna tvennt. Ég vil rifja upp hreppstjóramálið sem hér var allmikið til umræðu fyrir jól. Það var kynnt í fjárlagafrv. að þær stöður skyldi leggja niður. Það var ekki tekið tillit til ábendinga frá minni hluta allshn. Fjárln. tók ekki tillit til ábendinga um að hverfa frá þessari röngu ákvörðun og tillaga um fjárveitingu var felld við 2. umr. fjárlaga. Síðan gerist það að hæstv. dómsmrh. flytur sitt frv. um þetta og leggur til í 29 greinum að embættin skuli lögð niður en segir svo í lok framsöguræðu sinnar fyrir frv. að þetta sé nú allt í plati, það eigi að hætta við þetta og biður nefndina að bjarga sér út úr málinu og breyta þessu. Þetta var gert. Nefndin breytti frv. og breytingin var samþykkt. Þetta tel ég vera dæmi um að málefnalegar umræður hér á Alþingi geta þó borið árangur ef tími er leyfður til þess, ef ríkisstjórnin rekur ekki svo sitt lið, nefndarformenn og jafnvel forseta svo hart áfram í vinnubrögðum að það sé ekki tóm til umræðu. En ef þetta tóm er veitt þá ber það sem betur fer árangur og það er hægt að hafa áhrif á hv. alþm., stuðningsmenn stjórnarliðsins til þess að nógu margir snúist gegn hinum vanhugsuðu tillögum ríkisstjórnarinnar.
    Þá vil ég víkja að hinu málinu sem því miður fór á annan veg með. Reyndar er þegar búið að ræða mikið um það, þ.e. virðisaukaskattinn á húsbyggingar. Hv. frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. sagði að þegar menn settust niður og fóru að velta fyrir sér afleiðingunum af þessari ákvörðun hafi sannleikurinn komið í ljós. Nú var það ekki svo að hæstv. ríkisstjórn og meiri hluta hennar á Alþingi væri ekki bent á afleiðingarnar. Það var kynnt í fjárlagafrv. hvaða áhrif þessi niðurfelling eða lækkun á virðisaukaskattinum hefði á ýmsum sviðum og það kom m.a. fram í máli hv. 1. þm. Austurl., Halldórs Ásgrímssonar, við umræðu um þetta mál hvaða áhrif það hefði á byggingarvísitölu og þar af leiðandi lánskjaravísitölu og hinar margvíslegu afleiðingar í þjóðfélaginu. Stjórnarandstaðan varaði við því fyrir jólin að keyra þetta mál áfram í gegnum þingið á þessum stutta tíma sem þá var til jóla. Það var ekki farið að þeim ráðum og því fór sem fór. En hlýtur ekki hæstv. forsrh. að viðurkenna að það hefði verið betra, bæði fyrir Alþingi og ríkisstjórnina að þetta mál hefði verið rætt betur, menn hefðu fengið meiri tíma til bæði að bera fram rök og svo ríkisstjórnin að hlusta á rökin en að eyða fyrst tíma í umræður um þetta fyrir jólin og koma svo aftur með það hér inn nú. Þetta er held ég dæmi um hvernig ekki á að vinna að málum. Það á að vanda betur undirbúninginn og ef ríkisstjórninni tekst ekki að gera betur af því að hún getur ekki haft svo víða yfirsýn þá tel ég það ákaflega mikilvægt að þingmenn stjórnarliðsins geri sér grein fyrir því í ríkara mæli en þeir því miður hafa gert á undanförnum vikum og mánuðum að það má ekki gleypa við frumvörpum ríkisstjórnarinnar eins og þau eru lögð fram. Það þarf að gagnrýna þau og skoða rækilega. Og af því að sessunautur minn er hæstv. 6. varaforseti, fyrrv. formaður fjárveitinganefndar, 2. þm. Norðurl. v., Pálmi Jónsson, þá vildi ég gjarnan spyrja hann hvort hann mundi sætta sig við

svona vinnubrögð, t.d. ef hann hefði verið formaður fjárln. nú, að afgreiða mál sem eru svona vanhugsuð og alveg fjarstæða að afgreiða frá Alþingi. En því miður virðist það vera svo að hæstv. ráðherra vanti næga yfirsýn yfir málin og segi því meira en þeir geta staðið við.
    Það kom fram í einu máli sem bent er á í nál. minni hluta efh.- og viðskn., þ.e. lækkun á niðurgreiðslum á nokkrum tegundum landbúnaðarafurða. Eftir áramótin kom hæstv. forsrh. í fjölmiðla og hafði allstór orð um afleiðingarnar af þessum gjörðum ríkisstjórnarinnar og stjórnarliðsins, eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. gat hér um í framsöguræðu sinni. En ég vildi aðeins vekja athygli á ummælum hæstv. forsrh. þar sem hann segir svo, með leyfi forseta, í viðtali 5. þessa mánaðar á Stöð 2:
    ,,Það er enginn vafi á því að þær tölur sem áður höfðu verið færðar fram eru allt of háar og þetta eru alvarlegar skekkjur sem þarna eru á ferðinni því að þarna munar tæpum helmingi og þá vek ég athygli á því að að meðaltali eru menn að tala um 12% hækkun og allt upp í 15% hækkun á sumum sviðum. En í þeim tölum, sem raunverulega má byggja á ákvörðun ríkisstjórnarinnar, um að falla frá hluta af niðurgreiðslum, þá er hækkunin ekki nema 7% og þá erum við að tala um að öll hækkunin komi fram í vöruverði en við höfum ekki gert ráð fyrir því.``
    Þ.e. afleiðingar af gerðum ríkisstjórnarinnar eiga ekki að koma fram. Það er nokkuð sérstæð kenning en hitt er öllu verra að þarna er um alrangar fullyrðingar að ræða eins og kemur fram í yfirlitinu frá minni hluta efh.- og viðskn. t.d. sem varðar nautakjöt að þá er hækkunin 48 kr. á kg eða 13,48%. Og vegna lækkunar endurgreiðslna frá ríkissjóði 48 kr., 13,48%.
    Það er staðfest þarna að það er algerlega rangt sem hæstv. forsrh. er að segja og lítið virðist bæta úr viðtal sem við hann var haft daginn eftir á Stöð 2, en þar segir hæstv. forsrh:
    ,,Nei, sko framsetningin sem fram kom þegar búvöruhækkunin var tilkynnt og rædd, það er viðurkennt að hún er röng.``
    Hvað er rangt í þessu? Þetta kemur skýrt fram með nautakjötið. Þetta er allt vegna þess að fjárveitingin á fjárlögum þessa árs er of lág. Og því tel ég þetta vera mjög alvarlegan hlut þegar svona fullyrðingar eru settar fram til að vekja tortryggni.
    Ég vil þá aðeins víkja að brtt. sem fram kemur á þskj. 551 frá meiri hluta efh.- og viðskn., það er 2. liður hennar, en hún er þannig, með leyfi forseta:
    ,,Á eftir 5. gr. komi ný grein er orðist svo:
    Fjármálaráðherra er heimilt að lána Byggðastofnun sérstaklega víkjandi lán að fjárhæð allt að 20 m.kr. til að mæta framlögum í afskriftarsjóð útlána í tengslum við ákvæði í viðauka II við búvörusamning frá 11. mars 1991.``
    Þetta kom reyndar fram við atkvæðagreiðslu við 3. umr. fjárlaga þegar stjórnarliðið felldi brtt. sem ég flutti ásamt nokkrum öðrum þingmönnum um að staðið yrði við ákvæði búvörusamnings. Það ákvæði um Byggðastofnun er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Byggðastofnun verði útvegað fjármagn til að greiða fyrir annarri atvinnuuppbyggingu á þeim stöðum sem viðkvæmastir eru fyrir samdrætti í sauðfjárframleiðslu. Árið 1992 100 millj., árið 1993 100 millj., árið 1994 50 millj., árið 1995 50 millj., árið 1996 50 millj. og árið 1997 50 millj.``
    Nú var engin fjárveiting og ekkert gert á sl. ári til þess að verða við ákvæðum þessa viðauka við búvörusamninginn sem undirritaður var af þáv. hæstv. landbrh. og hæstv. fjmrh. Vissulega verður því miður að segja að á þeim tíma sem liðinn er síðan núv. hæstv. ríkisstjórn tók við, þá hefur Byggðastofnun verið vængbrotin og lítið getað gert til að vinna að slíkum verkefnum sem eru ákaflega brýn og það er af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna fjárskorts. Fjárveitingar til stofnunarinnar hafa verið skornar niður og í öðru lagi vegna svo einstrengingslegrar reglugerðar sem kemur í veg fyrir að, jafnvel þótt fjármagn væri til, Byggðastofnun gæti orðið þar að liði.
    Ég veit að hæstv. forsrh. er kunnugt um það að Byggðastofnun er aðili að fyrirtæki sem er máttarstólpi byggðarlags einmitt á einum þeirra staða sem hefur orðið einna verst úti vegna niðurskurðar í búvöruframleiðslu. Hún á þar um það bil helming hlutafjár. Til þess að koma þessu fyrirtæki til hjálpar hefur hinn eigandinn boðist til þess að auka hlutafé en Byggðastofnun sjálfri er settur stóllinn fyrir dyrnar, að mega koma þarna til hjálpar með tiltölulega mjög litla upphæð, a.m.k. miðað við það sem nú er talað um til að styðja við járnblendiverksmiðjuna, örlítið brot sem gæti ráðið örlögum heils byggðarlags. Og það er vissulega alvarlegt mál. ( EgJ: Hvaða fyrirtæki er þetta?) Hv. 3. þm. Austurl. mun vera það mætavel kunnugt og hann getur komið hér í ræðustól á eftir og gert nánari grein fyrir því þar sem hann er í stjórn Byggðastofnunar.
    Nú vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Hvernig kemur þessi grein, sem þarna á að koma inn í lánsfjárlögin, Byggðastofnun til hjálpar til þess að geta veitt aðstoð í tilvikum eins og þeim þar sem vantar eigið fjármagn, áhættufjármagn, en ekki aukin lán? Við vitum að hvort sem um er að ræða fyrirtæki sem þurfa hvatningar við og eflingu eða um ný fyrirtæki þá verður það ekki gert eingöngu með lánsfé eins og vöxtum er nú háttað. Það verður að vera áhættufjármagn. Ég vil því spyrja hæstv. forsrh. hvort hann vilji sjá um það, til þess að þessi ákvæði búvörusamningsins nái markmiðum sínum, að Byggðastofnun losni úr þeim fjötrum sem hún er nú bundin í með aðgerðir í byggðamálum með því að fá þá rýmri hendur til þess að veita aðstoð.
    Það kemur reyndar fram í þessum lánsfjárlögum að það er víða kreppt að landbúnaðinum af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þar er hver liðurinn eftir annan sem segir að ekki eigi að greiða samkvæmt því sem lög segja til um, leiðbeiningar og önnur þjónustustarfsemi, heldur að draga þar úr. Þetta leiðir óhjákvæmilega hugann að því að nú eru fram undan alþjóðlegir samningar og fjölþjóðlegir samningar sem munu vafalaust hafa áhrif á íslenskan landbúnað eins og t.d. GATT-samningarnir. En það hefur komið fram hjá framkvæmdastjóra GATT að ríkisstjórn hvers lands hafi mjög frjálsar hendur um stuðning við landbúnaðinn sem ekki er beinlínis framleiðslutengdur. Eins og öllum er kunnugt þá hefur verið horfið að því ráði að leggja niður útflutningsbætur og ýmsan annan þannig stuðning, markaðsaðstoð og annað slíkt við landbúnaðinn. Þá er það athyglisvert ef það er stefna ríkisstjórnarinnar að draga líka úr stuðningi sem mun mega halda sér eftir að við höfum gerst aðilar að þessum alþjóðasamningum eða hinar svonefndu grænu greiðslur. Eða ætlar hæstv. ríkisstjórn raunverulega að nota þessa alþjóðasamninga til að ná sér niðri á íslensku atvinnulífi? Sá grunur hefur reyndar vaknað fyrr og hann vaknaði einu sinni enn við áramótagrein hæstv. utanrrh. þar sem hann segir m.a., með leyfi forseta: ,,Úr því sem komið er er GATT-samningurinn eina vonin til þess að brjóta endanlega niður rammgerða múra einokunarkerfis landbúnaðarins.`` Er það stefna ríkisstjórnarinnar að gera sem sagt allt sem í hennar valdi stendur og nota til þess alþjóðasamninga leynt og ljóst til að draga úr þessum atvinnuvegi sem hefur verið grundvallaratvinnuvegur íslensks þjóðfélags frá upphafi? En það er ríkjandi viðhorf a.m.k. í nágrannalöndum okkar að þjóð án eigin landbúnaðar eigi ekki bjarta framtíð. Sérstaklega er bent á það nú vegna hættu á umhverfismengun að það sé náið samband milli landbúnaðar og fólks í þéttbýli því án stuðnings landbúnaðarins verði erfitt að leysa þau gífurlegu vandamál sem eru að skapast á umhverfissviði í hinu tæknivædda þjóðfélagi nútímans. Því miður hefur þetta ekki fengið nægjanlega viðurkenningu enn þá þó sífellt séu raddirnar að verða háværari sem á þetta benda.