Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 17:46:38 (4804)

     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég man að sjálfsögðu ekki orðrétt öll ummæli þessara hæstv. ráðherra um Alþingi. En ég býst við að við öll hér inni munum a.m.k. ummælin um gagnfræðaskólann sem ég veit ekki af hverju á að vera niðrandi en ég held að ekki hafi samt farið fram hjá neinum að voru sett fram af hæstv. forsrh. um Alþingi sem stofnun. Alþingi væri eins og gagnfræðaskóli. Þar var ekki verið að taka fyrir einstaka þingmenn. Og lýsing hæstv. utanrrh. á blaðamannafundi var t.d. á þá leið að á Alþingi væru engin þingsköp sem fælu í sér að hægt væri að takmarka ræðutíma, með öllum þeim lýsingum sem því fylgdu. Það var verið að tala um stofnunina. Við vitum auðvitað að það er algerlega rangt . . .   (Gripið fram í.) Þingsköp eru til hér sem við förum eftir daglega eftir ákvörðun forseta. Það eru að sjálfsögðu ekki einstakir þingmenn sem gjalda svona ummæla heldur er það fyrst og fremst Alþingi sem heild. Og ég tel að forsætisnefnd þingsins hefði átt að taka þessi mál fastari tökum.