Lánsfjárlög 1993 o.fl.

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 17:53:36 (4809)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Við erum við 2. umr. um lánsfjárlög að þessu sinni sem raunar hefðu átt að afgreiðast fyrir jól en var frestað. Á þeim tíma hafa komið fram brtt. á fjórum þingskjölum við frv. eins og það var lagt fram í haust. Það sýnir náttúrlega, eins og hér hefur verið rakið í máli nokkurra hv. þm., að vinnubrögðin við efnahagsmálafrv. ríkisstjórnarinnar hafa ekki verið með þeim hætti sem æskilegt væri. Það má líka minna á að þegar frv. var við 1. umr. var áætlað að heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs væri 15,8 milljarðar kr. og þegar væru dregnar frá afborganir af teknum lánum sem væru 6,3 milljarðar þá yrði hrein lánsfjárþörf, þ.e. nýjar lántökur umfram afborganir af eldri lánum 9,5 milljarðar kr. Með þeim brtt., sem lagðar hafa verið fram, hækkar þessi tala að sjálfsögðu allmikið og er hægt að nefna nokkrar staðreyndir í því sambandi. Það er t.d. tillaga um fjármagn til járnblendiverksmiðjunnar sem að vísu er ekki nema 150 millj. í þessari brtt. að mig minnir en hv. formaður efh.- og viðskn. nefndi í gær að hér væri líklega um að ræða á milli 400 og 500 millj. kr. Og á þessari sömu brtt., þ.e. þskj. 589, eru einnig fleiri brtt., m.a. um breytingu í skattamálum sem nokkuð hefur verið rædd þar sem verið er að fella niður breytingar á endurgreiðslu virðisaukaskatts, það eru í fjárlagafrv. 400 millj. kr. Það má því segja að bara við þessar tvær brtt. eða það sem vitað er um af þeim upphæðum muni breyta lánsfjárlögum um líklega 1 milljarð kr. til hækkunar.
    Það var líka rakið hér í frv. til lánsfjárlaga að hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu mundi lækka bæði frá árinu 1991 sem er talið vera mjög mikið eða 40% og einnig að hún mundi lækka á milli áranna 1992 og 1993. En það er hvort tveggja samkvæmt fyrri áætlunum og ég tel að þær áætlanir séu ekki mjög marktækar. Og einnig það að hér er búið að hækka lánsfjárlögin um a.m.k. 1 milljarð kr. til viðbótar frá því sem áður var. Þannig að nú standast þessar lækkunartölur alls ekki lengur.
    Mér fannst það dæmigert að í framsöguræðu hv. formanns efh.- og viðskn. í gær, rétt áður en þingfundi lauk talaði hann um að þetta væri orðinn eins konar hrærigrautur, eins og hann orðaði það. Ég get vel tekið undir að þessi lánsfjárlög eru orðin talsverður hrærigrautur með öllum þeim brtt. sem komnar eru fram síðan þau voru upphaflega lögð fram.
    Það er hægt að fara yfir einstök atriði í þessu. Ég ætla ekki að taka langan tíma í það en vil þó nefna að þegar verið er að ræða um skuldsetningu ríkisins sem vissulega er mikil þá ættum við að huga að því hverjir þessir lántakendur eru. Það er t.d. að stórum hluta Landsvirkjun sem hefur á undanförnum árum farið í framkvæmdir í orkumálum sem ekki hafa skilað okkur tilætluðum tekjum þar sem ekki hafa verið kaupendur að því rafmagni. Landsvirkjun er með einn fimmta hluta af öllum skuldum hins opinbera. Þannig að þar er stór aðili í þeirri heildarskuldabyrði sem við erum að ræða um þegar við erum að ræða um skuldir þjóðfélagsins.
    Byggingarsjóðirnir taka allir mikið fjármagn til sín og verður það til þess að það er mikil eftirsókn eftir lánsfjármagni bæði innlendu og erlendu. Og það er að sjálfsögðu líka meðvirkandi til vaxtahækkunar í þjóðfélaginu hversu mikil eftirspurn er hjá byggingarsjóðunum og húsbréfadeildinni eftir fjármagni.
    Ég nefndi áðan að járnblendifélagið er nefnt í brtt. vegna erfiðrar stöðu þess og ég tel að ekki sé stætt á öðru en að taka á því máli. Hitt er samt vert að taka fram að enn þá hefur ekki fengist skýrsla um stöðu félagsins þannig að raunverulega getur Alþingi ekki tekið á því máli eins og það er í dag, en það er alveg ljóst að það verður að skoða það

mál alveg ofan í kjölinn og sjá hvort hægt er að tryggja rekstrargrundvöll þess fyrirtækis. Mikið er í húfi fyrir það svæði og einnig þjóðhagslega séð að verksmiðjan geti haldið áfram.
    Ég vil einnig fagna því að tekið er inn í brtt. heimild fyrir hönd ríkissjóðs um að semja við Suðureyrarhrepp um yfirtöku á hluta af skuldum Hitaveitu Suðureyrar, en þetta er raunverulega gamalt loforð sem verið er að uppfylla vegna þess að þegar Suðureyrarhreppur var í gjörgæslu á sínum tíma hjá félmrn. var þetta eitt af þeim málum sem rætt var um að ganga frá.
    Hvað varðar það að fella niður þessa nýju breytingu í skattamálum, þ.e. um endurgreiðslu á virðisaukaskatti af vinnu á byggingarstað, er að sjálfsögðu til bóta eins og allir hafa nefnt sem hér hafa talað. En kannski hefði ekki þurft að koma til þess ef vinnubrögðin hefðu verið betri í upphafi og verð ég að taka undir það með hv. þm. Jóni Helgasyni þar sem hann nefndi áðan að vissulega hefði átt að skoða það betur og í því sambandi þau áhrif sem þetta hefði haft á vísitölur þjóðfélaginu.
    Einnig vil ég lýsa yfir ánægju með það sem kom fram hjá hæstv. forsrh. í viðtali í fjölmiðlum nú nýlega að hann hygðist láta endurskoða grundvöll vísitalna. Ég hef oft nefnt það þegar verið hafa umræður um efnahagsmál að ég telji að þær vísitölur sem við erum með í gangi séu ekki allar raunhæfar. Það þarf að endurskoða. Það er allt of mikið fyrir þetta þjóðfélag að vera með a.m.k. þrjár vísitölur framfærsluvísitölu, byggingarvísitölu, lánskjaravísitölu sem hver hefur áhrif á aðra og sem dæmi hef ég nú stundum sagt að það er furðulegt að skuldir landsmanna skuli hækka við það að kaffið í Brasilíu verður svolítið dýrara á morgun en það var í dag. En allt eru þetta atriði sem koma inn í vísitölurnar og það sama gerist einnig með byggingarvinnu. Ég held því að alveg tímabært sé að skoða hvernig við byggjum upp vísitölurnar í þjóðfélagi okkar.
    Í eins konar bandormi í þessu frv., eins og það er nú orðið við 2. umr., er m.a. verið að breyta ákvæðum útvarpslaga og Ferðamálasjóðs. Raunar gagnrýndi ég það við umræður um fjárlög og endurtek það nú að ég tel að rekstur útvarpsins verði ekki tryggður meðan skerðingarákvæði um Framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins eru alltaf sett inn og sama gildir um Ferðamálasjóð. Ekki er hægt að halda áfram uppbyggingu í ferðamálum á sama tíma og lögboðinn tekjustofn er skertur um hundruð millj., m.a. á þessu ári um 111 millj. kr. Samanlagt hefur þetta verið skert frá árinu 1976 um 800 millj. kr. og ekki er hægt að ætlast til þess að Ferðamálasjóður geti sinnt uppbyggingu sinni á sama tíma og hann hefur ekki það fjármagn sem honum var ætlað til þeirrar uppbyggingar. Gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu voru t.d. á árinu 1991 12,5 milljarðar kr. og eitthvað hafa þær hækkað á síðasta ári þó ég hafi ekki þær tölur hér. Áður hefur sú skoðun Ferðamálaráðs komið fram í umræðunum að hægt sé að auka við allt að 2.200 ársverk á næstu átta árum sem tækju þá við fjórða hverjum nýliða á vinnumarkaðnum. Ég held að hér sé helsti vaxtarbroddurinn í atvinnuuppbyggingu okkar, þ.e. í ferðamálum. En það gerist ekki á sama tíma og framlög til ferðamála eru sífellt skert.
    Sama gerist með Vegasjóð. Hann er skertur um 344 millj. kr. Á sama tíma á síðan að taka 1.500 millj. kr. til nýrra framkvæmda sem Vegasjóður á að standa straum af með afborganir og vexti, en farið er í kringum hlutina með því fyrst að skerða hann um 344 millj.
    Hér er inni ákvæði um það að leiðrétta nokkuð hlut loðdýrabænda og ég vil lýsa yfir ánægju minni með það að hér skuli tekið á því máli. Það var löngu orðið tímabært að gera það vegna þess að þeir eru í vanda sem var að nokkru leyti tilbúinn af stjórnvöldum á sínum tíma og þess vegna skylda ríkisvaldsins að taka á því máli.
    Virðulegi forseti. Ég veit að atkvæðagreiðsla á að fara fram. Mundi forseti vilja að ég gerði hlé á máli mínu eða . . .  ( Forseti: Það fer eftir því hvort hv. þm. á eftir mikið af sinni ræðu, ef svo er þá mundi ræðu þingmannsins verða frestað til morguns, en ef hv. þm. á ekki eftir mikið af ræðunni þá ætlaði forseti að leyfa hv. þm. að ljúka henni.) Já, virðulegi forseti. Ég hugsa að ég eigi ekki eftir nema 3--4 mínútur af ræðu minni og mundi þá óska eftir að mega ljúka henni.

    Eitt atriði vil ég enn nefna sem er í 5. gr. þessara lánsfjárlaga. Það er að Vatnsleysustrandarhreppur á að fá allt að 55 millj. kr. til undirbúningsrannsókna við Flekkuvíkurhöfn. Þetta er fjmrh. heimilt að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð. Ég sakna hv. 14. þm. Reykv. sem mjög hefur gert hér að umtalsefni þessa hafnargerð í Flekkuvíkurhöfn og ég er alveg viss um það að hún mundi hér hafa haft allmargar athugasemdir við þessa grein. Ég get að mörgu leyti tekið undir það sem ég veit að hún hefði haft við þetta að athuga. Ég tel ekki tímabært að standa að neinum undirbúningsrannsóknum frekar við Flekkuvíkurhöfn þar sem fyrirhuguð álbræðsla á að rísa. Aðstæður á heimsmarkaði eru þannig í dag að ekkert útlit er fyrir það að ný álverksmiðja rísi hér alveg á næstu árum. Ég tel því að við þær aðstæður, sem við búum í efnahagsmálum í þjóðfélagi okkar sé alveg ástæðulaust að leggja 55 millj. kr. til þess að byggja nýja höfn fyrir álverksmiðju.
    Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi lokið við flestar þær athugasemdir sem ég vildi koma hér á framfæri. Auðvitað væri hægt að hafa nokkuð langt mál um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar en búið er að gera það allvel og eins og ég hef nú kannski oft haft á orði í þessum ræðustól þá er ég ekki mjög mikið fyrir langar ræður eða fyrir að endurtaka það sem aðrir hafa hér verið að segja á undan mér en ætla að láta þetta nægja.