Samningar við EB um fiskveiðimál

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 18:17:18 (4810)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég er andvígur samningnum. Ég vil ekki veita flota Evrópubandalagsins heimildir til veiða á fullnýttum fiskstofnum í íslenskri fiskveiðilögsögu. Í samningnum er ekkert jafnvægi. Við látum verðmætan karfa en fáum í staðinn loðnu sem er sennilega einungis pappírsloðna. Ég tel mjög misráðið hjá ríkisstjórninni að hverfa frá þeirri grundvallarstefnu okkar Íslendinga að láta ekki aðgang að fiskimiðum okkar í skiptum fyrir tollfríðindi í Evrópubandalaginu. Ef menn vilja skilja á milli samningsins um Evrópskt efnahagssvæði og þessa fiskveiðisamnings þá ber okkur að neita Evrópubandalaginu um þessar fiskveiðiheimildir og fella samninginn. Ég segi nei.