Samningar við EB um fiskveiðimál

101. fundur
Miðvikudaginn 13. janúar 1993, kl. 18:26:53 (4817)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Með því að tala um gagnkvæmar veiðiheimildir í samningi þessum er verið að færa fram eitthvert mesta öfugmæli sem sést hefur í samskiptum Íslendinga við erlend ríki. Hér er verið að skrifa upp á kröfu Evrópubandalagsins, sem staðið hefur á Íslendingum frá 1976, að gjalda fyrir lækkun tolla fyrir íslenskar afurðir inn á Evrópubandalagsmarkaðinn með aðgangi fyrir Evrópubandalagið að íslenskum fiskveiðiauðlindum. Þetta er skilningur Evrópubandalagsins sem blasir við í sambandi við þetta mál og fyrir það munu Íslendingar eiga eftir að gjalda í frekari samskiptum við Evrópubandalagið.
    Jafnframt er hér um að ræða aðgöngumiða vegna samningsins um Evrópskt efnahagssvæði en Evrópubandalagið hefur gert það að skilyrði fyrir sitt leyti fyrir að staðfesta samninginn um EES að þessi samningur um fiskveiðimálefni verði frá genginn. Það er verið að binda okkur með þessum samningi til tíu ára og öll eru þau kjör sem eru tengd þessum samningi óaðgengileg. Því segi ég nei.