Lánsfjárlög 1993 o.fl.

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 11:49:53 (4824)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð til þess að víkja að þeim atriðum sem hæstv. forsrh. fór inn á og vil ég þakka honum fyrir það.
    Í fyrsta lagi var sá fundur sem hann nefndi að ég hefði farið á ekki fundur kennara í sjálfu sér heldur var það fundur sem BHMR hélt í Sóknarsalnum og og ef ég man rétt, þá hafði staðið mjög hart

verkfall í einar 3--4 vikur sem hafði lokað framhaldsskólunum og fjölmörgum opinberum stofnunum um langa hríð. En það var að ýmsu leyti lærdómsríkur fundur þannig að hæstv. forsrh. mætti gjarnan hugleiða að fara á slíka fundi. En rétt skal vera rétt, hæstv. forsrh.
    Í öðru lagi varðandi hækkun á framfærsluvísitölunni og skattbreytingarnar þá gat ég einmitt þess, hæstv. forsrh., að samkvæmt útreikningum Hagstofunnar eru breytingar vegna niðurgreiðslna á kjöti ekki enn þá komnar inn í þessa tölu 1,2%. Það eru eingöngu eggin svo að ekki er hægt að nota það til varnar þegar menn eru að skoða nýlega hækkun framfærsluvísitölunnar. Hvað sem því svo annars líður þá er auðvitað alveg ljóst að tekjuskattur einstaklinga, svo að maður taki það eitt út af fyrir sig, hefur aldrei verið hærri en í tíð núv. ríkisstjórnar. Þessi ríkisstjórn hefur slegið met allra ríkisstjórna varðandi tekjuskatt einstaklinga og það finnst mér mjög merkilegt bæði í ljósi yfirlýsinga Sjálfstfl. á undanförnum árum og áratugum og ekki síður í ljósi yfirlýsinga Alþfl. Alþfl. ætlaði sér beinlínis að afnema tekjuskatt einstaklinga og gekk til kosninga 1987 með það sem yfirlýsta stefnu. Þegar ég sat með honum í ríkisstjórn neitaði hann algjörlega að hækka tekjuskattinn nokkuð en fékkst þó til að breyta prósentunni örlítið, innan við 1% eftir mikla erfiðleika í tíð síðustu ríkisstjórnar. Nú er tekjuskattur einstaklinga nánast hækkaður á færibandi langt umfram það sem hefur verið áður.
    Í þriðja lagi varðandi atvinnuleysið þá fletti ég upp ræðu hæstv. forsrh. þegar hann kynnti efnahagsaðgerðirnar og það er nú þannig, hæstv. forsrh., að ekki kemur fram í ræðunni að atvinnuleysi eigi að fara vaxandi á næstu mánuðum. ( Forsrh.: Í hvaða umræðu sagði ég þetta?) Ég er nú ekki með það við höndina en í ræðunni sjálfri segir, með leyfi forseta:
    ,,Mjög erfitt er að ráða í þróun atvinnuleysis á næstu missirum í ljósi þeirra óvenjulegu aðstæðna sem nú eru í þjóðarbúskapnum. Sú styrking á stöðu atvinnulífsins sem felst í aðgerðum ríkisstjórnarinnar bætir atvinnuhorfur frá því sem annars hefði orðið, sérstaklega þegar líður á næsta ár og árinu 1994 þótt þær nái varla að stöðva aukningu atvinnuleysis á næstu mánuðum.``
    Þetta er auðvitað miklu varkárara orðalag en hæstv. forsrh. sagði hér áðan. Vera má að hann hafi orðað þetta öðruvísi í umræðunum en ég held að það sé nokkuð rétt lesið í þennan texta sem var í yfirlýsingunni sjálfri að menn bjuggust þá ekki við því að atvinnuleysið í janúar færi í 5,5% frá mælingu atvinnuleysisskráningarinnar og í 8% í raunverulegu atvinnuleysi.
    Í fjórða lagi varðandi yfirlýsingar menntmrh. þá veit ég auðvitað ekki hvað hæstv. menntmrh. sagði við forsrh. en þetta var hins vegar yfir 70 manna fundur sem við vorum á á Suðurnesjum, margir þingmenn kjödæmisins og nánast allir sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum og það fór ekkert á milli mála hvað hæstv. menntmrh. sagði þar. Það er staðreynd. Fjöldi manns getur borið vitni um það, m.a. margir sem eiga setu á landsfundi Sjálfstfl.
    Varðandi virðisaukaskattinn ætla ég ekkert að draga það í efa sem hæstv. forsrh. hefur sagt um það sem hefur komið honum á óvart. Ég endurtek bara það sem ég sagði áðan að það er ekki afsökun sem hæstv. viðskrh. og hæstv. utanrrh. geta notað. Það er alveg ljóst. Hæstv. viðskrh. Jóni Sigurðssyni átti að vera fullkomlega ljóst hvaða afleiðingar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar varðandi virðisaukaskatt á vinnu á byggingarstað og atkvæðagreiðslan um lögin á Alþingi mundi hafa í för með sér. Með hæstv. forsrh. í ríkisstjórninni sátu a.m.k. tveir ráðherrar sem áttu að vita það. Þess vegna vildi ég hafa hæstv. viðskrh. í umræðunni í dag.
    Í sjötta lagi mun það auðvitað koma í ljós, hæstv. forsrh., núna síðar í þessum mánuði hvort bankarnir lækka vextina og þá hve mikið. Þegar við komum aftur saman til fundar að loknu þinghléi vitum við dóminn í því máli þannig að við skulum bara bíða hans og sjá til.
    Í sjöunda lagi varðandi deilur mínar við hinn raunverulega fjmrh. þá get ég alveg fallist á að það er kannski ósanngjarnt að láta hæstv. forsrh. bera það allt saman hér þó að hann sé fjmrh. í nokkra stund. Hins vegar er skemmtilegt hjá hæstv. forsrh. og sýnir það að honum er ekki alls varnað eftir um eitt og hálft ár í forsrn. að hann getur sagt það á næsta landsfundi Sjálfstfl. að sá sé munurinn á honum og hæstv. fjmrh., Friðrik Sophussyni, að hæstv. forsrh. lækki yfirleitt skatta þegar hann sé fjmrh. en varaformaður Sjálfstfl. hækki hins vegar skatta og kem ég þessu áleiðis til hæstv. forsrh. að hann geti notfært sér þessa ,,replikku`` og hún mun standast.
    Hins vegar er ekki alveg rétt að rifja upp mokstur minn 1988 fyrir áramót þegar ég var fjmrh. yfir árið 1988 vegna þess að þar var aðallega um að ræða vanefndir á greiðslum vegna landbúnaðar. Þannig var með hæstv. utanrrh., þáv. fjmrh. 1987--1988, að hann átti í miklum tilfinningalegum erfiðleikum að láta mikla peninga ganga úr ríkissjóði til landbúnaðarins. Ég vona að ég þurfi ekki að útskýra það hér, menn þekkja það allir, þannig að það tóku nánast úr honum hjartað og nýrun hverjar 100 millj. sem fóru út úr ríkissjóðskassanum í landbúnaðarhítina og sukkið og mafíuna og ég veit ekki hvað það var sem hann kallaði það allt saman. Hann brá því á það ráð að borga bara ekki neitt til þess að halda sálarró sinni. Þegar ég kom í fjmrn. held ég að það hafi verið hátt yfir hálfan milljarð sem var þar sannanlega vangoldið bara samkvæmt fjárlögum og réttu uppgjöri til landbúnaðarins. Af því að ég hef ekki verið þjakaður af þessari sálarkreppu gagnvart landbúnaðinum gat ég alveg borgað þetta út. Þetta voru nú helstu upphæðirnar sem ég mokaði, svo að ég noti nú orðalag hæstv. ráðherra, fyrir áramótin 1988 út úr ríkiskassanum. Það var eiginlega hreinsun á tilfinningaerfiðleikum fyrrv. fjmrh. í ríkisfjármálum.
    Svo að ég haldi áfram þessari leikfléttu með hæstv. forsrh. tek ég eftir því að hann telur við hæfi

að merkja innganginn í þingflokk Alþfl. sem kvennasnyrtinguna hér í Alþingishúsinu og það má alveg standa þannig. Það sýnir kannski hvernig hæstv. forsrh. er farinn að líta á Alþfl., þó með allri virðingu fyrir konum. Það er sérstaklega síðari hluti orðsins sem ég legg áherslu á í þessu sambandi því að ég valdi mér auðvitað anddyrið að þingflokksherbergi Alþfl. sem staðsetningu þessa blaðamannafundar en að þingflokksherbergi Alþfl. skuli í tvo mánuði vera búið að minna hæstv. forsrh. á kvennasnyrtingu finnst mér segja meira um sambúðina í ríkisstjórninni en um sálarlíf mitt.
    Fleira var það nú ekki sem ég ætlaði að segja hér, virðulegi forseti, og þakka fyrir að fá að koma með þessar athugasemdir en þakka hæstv. forsrh. fyrir framlag hans til umræðna. Það er auðvitað þannig að hvorugur okkar getur flúið dóm reynslunnar og hæstv. forsrh. verður að sjálfsögðu að hlíta honum þegar lengra líður á árið.