Lánsfjárlög 1993 o.fl.

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 12:01:25 (4827)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get verið hv. þm. sammála um það að ekki mun öll lækkun aðstöðugjaldsins sér beint til almennings en fyrr eða síðar mun drýgsti hlutinn skila sér beint til almennings. Við vitum að hugsunin var sú að styrkja stöðu fyrirtækjanna og sum fyrirtæki eru í þeirri stöðu að þessi lækkun mun ekki skila sér út til almennings, hvorki í þeim mæli að fyrirtækjunum verði gert kleift að greiða hærri laun vegna þess að staða þeirra hefur verið það veik né heldur þá öll lækkunin mun skila sér í lækkun á verði á þjónustu og vörum. En ég hygg þó að mjög víðtæk lækkun muni skila sér og við sjáum það reyndar þegar varðandi byggingarvísitöluna, sem mikið hefur verið rædd, að einmitt vegna lækkunar aðstöðugjalds hefur þegar verið tilkynnt að byggingarvísitalan muni lækka af þeim ástæðum næst þegar hún verður mæld.