Lánsfjárlög 1993 o.fl.

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 12:21:50 (4830)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst og mér hefur aldrei dottið annað í hug en að á lokastigum

þeirra viðræðna sem voru í haust þá varð náttúrlega ríkisstjórnin að taka ábyrgð á því sem sneri að henni og því sem þurfti að fá fram í gegnum Alþingi. Það hefur mér alla tíð verið ljóst en ég hygg hins vegar að hvað sem líður deilum um gengisfellingu eða ekki gengisfellingu, þá hafi það verið atriði sem allir gengu samstiga að varðandi þessar viðræður, að þeim sem lægst hefðu launin ætti að hlífa. Þeir sem hefðu tekjurnar til þess að bera það ættu að borga. Þess vegna var það að sú ákvörðun, sem var framkvæmd á síðustu stundu að lækka persónuafsláttinn, kom eins og köld vatnsgusa framan í launafólk í landinu. Það datt ekki nokkrum manni það í hug að í þessum aðgerðum yrði gripið til þeirra leiða til þess eins að komast hjá því að þurfa að hækka skattprósentuna sem sýndi þá skattahækkunina á þann hátt. Þetta er engu að síður skattahækkun en hún kemur bara niður jafnt á þeim sem af engu hafa að taka. Meðan þetta verður ekki tekið til baka og leiðrétt þá sé ég ekki fram á að menn komist með nokkru móti fram úr þeim samningum sem nú eru fram undan.
    Virðulegi forseti. Ég vil síðan ítreka spurningu mína sem ég bar fram beint til hæstv. ráðherra varðandi Atvinnutryggingarsjóðinn og skuldbindingar hans gagnvart öðrum atvinnugreinum en sjávarútvegi, hvort það sé ætlast til þess að sjávarútvegurinn taki þær yfir með öðrum skuldbindingum Atvinnutryggingarsjóðs eða hvað verði um þær skuldbindingar.