Lánsfjárlög 1993 o.fl.

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 13:49:22 (4833)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni mjög síðborin tilraun hæstv. ríkisstjórnar til að bjarga andlitinu varðandi efndir á einu af ákvæðum búvörusamsnings sem rækilega var bent á hér fyrir áramótin að ekki fælist í fjárlagafrv. eða öðrum tillögum sem hæstv. ríkisstjórn afgreiddi fyrir áramót. Samkvæmt búvörusamningi er skýr og ótvíræð skuldbinding lögð á ríkið til að leggja Byggðastofnun til fé til atvinnusköpunar í sveitum til að mæta þeim samdrætti sem af minni búvöruframleiðslu stafar. Hygg ég að í hugum samningsaðila þeirra sem stóðu að gerð samningsins á sínum tíma hafi ekki verið neinn vafi á um að þar ættu að koma til framlög. Í fjárlagafrv. er ekki gert ráð fyrir efndum á þessu ákvæði því miður og brtt. um framlög í þessu skyni voru felldar í atkvæðagreiðslum hér fyrir áramótin. Hæstv. ríkisstjórn hefur þó séð að sér í þeim mæli að hér er nú á ferðinni mjög sérstök, svo ekki sé fastar að orði kveðið, tilraun til þess að bjarga andlitinu. Sem sagt sú að fjmrh. fái heimild til að lána Byggðastofnun sérstaklega víkjandi lán að fjárhæð allt að 20 millj. til að mæta framlögum í afskriftarsjóð útlána í tengslum við ákvæði í viðauka 2 við búvörusamning frá 11. mars 1991.
    Þó svo okkur þyki það að sjálfsögðu til bóta að hæstv. ríkisstjórn viðurkenni með þessu að afgreiðsla fjárlaganna var í raun brot á þessu ákvæði búvörusamningsins þá getum við undir engum kringumstæðum stutt þá aðferð sem hér er lögð til. Enda hygg ég að hún sé harla óvenjuleg ef ekki einsdæmi, fyrr en þá nú á síðustu tímum, og hlýtur að teljast mjög sérstakt að ríkið veiti sinni eigin stofnun, stofnun sem ríkið á, víkjandi lán af þessu tagi. Auk þess tel ég, og það er nú kannski aðalatriði málsins, að allt annað en fjárframlög í þessu skyni, óafturkræf framlög til Byggðastofnunar, séu brot á ákvæðum búvörusamningsins.
    Við munum því sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu sökum þess að við getum ekki stutt þessa aðferð sem hér er lögð til og teljum hana ekki fullnægjandi til að efna ákvæði samningsins eins og efni standa til.