Lánsfjárlög 1993 o.fl.

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 14:04:57 (4837)


     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Það hefur almennt verið svo hér á Alþingi að tekist hefur að ná samstöðu um fyrirsögn frv. Það er nú hins vegar þannig með þetta mál að það hefur verið tilhneiging í þá átt að bæta ýmsu inn í lánsfjárlög eins og margvíslegum skerðingarákvæðum. Þess vegna hefði þetta frv. e.t.v. átt að heita frv. til lánsfjárlaga o.fl. þegar í upphafi. En vegna hefðar þar um þá var það ekki gert.
    En það er nokkuð langt gengið í lagasmíð þegar farið er að breyta skattalögum jafnframt með lánsfjárlögum. Ég tel að við séum komin allt of langt í bandormssmíði hér á Alþingi og hæstv. ríkisstjórn hefur gengið lengra í því en nokkru sinni fyrr. Af þeim ástæðum treystum við í stjórnarandstöðunni okkur ekki til að styðja fyrirsögn þessa frv. og munum sitja hjá sem mun vera harla óvenjulegt hér á Alþingi.