Framleiðsla og sala á búvörum

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 14:08:17 (4838)

     Frsm. landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Eitt af því allra síðasta sem Alþingi afgreiddi fyrir jólaleyfi þingmanna var að breyta lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, búvörulögunum eins og þau eru gjarnan nefnd. Þar var m.a. kveðið á um í 6. gr. þess frv. að 20. gr. laganna tæki þeim breytingum að heimilt væri að skerða greiðslur afurðaverðs til bænda að vissum skilyrðum uppfylltum. Þessi skilyrði voru að Stéttarsamband bænda færi fram á slíkt leyfi til landbrh. Til að fullnægja þeirri ósk þyrfti að fara fram um það afgreiðsla á fulltrúafundi stéttarsambandsins og slíka tillögu yrði að kynna í fundarboði svo að mönnum heima í héraði gæfist kostur á að fjalla um málið.
    Nú hefur komið í ljós að menn hyggjast einvörðungu nýta þessa heimild til verðskerðingar á nautakjöti, sem væntanlega tæki gildi innan tíðar. Það liggur í hlutarins eðli að það þykir í nokkuð mikið ráðist að kalla saman fulltrúafund stéttarsambandsins til þess að leita eftir þessari ákvörðun að sinni. Aðaðlfundur Stéttarsambands bænda er gjarnan haldinn síðari hluta ágústmánaðar og það gefur auga leið og til þess er auðvitað ætlast að það verði sá vettvangur sem í framtíðinni fjallar um þessa heimild.
    Því er lagt til að til þess að uppfylla þetta samráð, og þá einungis tímabundið því hér er um bráðabirgðaákvæði að ræða sem fellur út 1. sept. nk., yrði farin sú leið í stað þess að leggja þetta mál fyrir aðalfund eða fulltrúafund stéttarsambandsins að leita samráðs við fulltrúa Stéttarsambands bænda heima í héraði þannig að ekki þyrfti að kalla þá til fundar til að fá þessa niðurstöðu. Hún yrði fengin með beinu sambandi milli kjörinna fulltrúa og stjórnar stéttarsambandsins.
    Í þessum tillögum felast því engar efnisbreytingar heldur aðeins þessi breyting sem einungis á að vara til 1. sept. en fellur þá út. Þá verður að sjálfsögðu fylgt lögunum eins og þau voru afgreidd í desember sl., þ.e. að til að þessi heimild komi til framkvæmda þurfi fulltrúafundur að samþykkja hana og jafnframt að hennar hafi sérstaklega verið getið í fundarboði.
    Ég vona, virðulegi forseti, að þetta sé nægilega skýrt um málið efnislega. Ég vil svo taka það skýrt fram að allir fulltrúar landbn. Alþingis standa að þessum tillöguflutningi og að höfðu samráði í þinginu. Það virðist því vera bærilega séð fyrir framgangi þessa litla máls hér. Svo sem venja stendur til geri ég það að tillögu minni að þessu máli verði vísað til 2. umr.