Grunnskóli

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 14:42:02 (4845)

     Frsm. minni hluta menntmn. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir áliti minni hluta menntmn. um frv. til laga um grunnskóla. Minni hlutinn leggur til að frv. verði fellt. Að minnihlutaálitinu standa auk mín hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir.
    Á þskj. 597 birtum við ítarlegt nál. þar sem við gerum grein fyrir okkar máli. Ég verð eiginlega að spyrja um menntmrh. Ætli hann sé nokkurs staðar? ( Forseti: Forseti hefur þegar sent eftir menntmrh. og kemur hann væntanlega fljótlega.) Hann er í húsinu? ( Forseti: Já, hann er í húsinu og hefur beðið eftir þessari umræðu.)
    Á þskj. 597 er birt ítarlegt nál. minni hluta menntmn. þar sem m.a. kemur fram að í þessu frv. eru fjögur efnisatriði. Það er í fyrsta lagi að ákvæði grunnskólalaga um skólamáltíðir falli niður. Í öðru lagi að ákvæði grunnskólalaga um tiltekinn lágmarkstíma fyrir börn í grunnskólum falli niður og komi ekki til framkvæmda fyrr en haustið 1994. Í þriðja lagi að fresta framkvæmd þess ákvæðis grunnskólalaganna sem kveður á um skólaathvörf. Og í fjórða lagi að fresta því ákvæði grunnskólalaganna sem kveður á um að fækkað verði í bekkjum.
    Þessi ákvæði frv. eru öll framlenging á ákvæðum sem voru í frumvarpinu og lögunum um ráðstafanir í ríkisfjármálum nr. 1/1992, en ákvæðin runnu út um síðustu áramót. Þegar fjárlagafrv. var lagt fram hér sl. haust kom það fram að það var ætlun ríkisstjórnarinnar að framlengja þessi skerðingarákvæði sem voru geysilega umdeild á sínum tíma. Við gerðum ráð fyrir því, flestir þingmenn sem fylgjast með þessum málaflokki geri ég ráð fyrir, að hæstv. menntmrh. mundi fljótlega leggja fram frv. um málið. Það gerði hann hins vegar ekki fyrr en viku fyrir jól eða svo þannig að málið náði ekki afgreiðslu fyrir hátíðar og

varð þess vegna eitt af þeim málum sem ríkisstjórnin ákvað að leggja áherslu á að yrði að lögum núna á þessu stutta þingi áður en þinghlé yrði tekið.
    Þess vegna er það þannig núna og hefur verið frá 1. jan. 1993 að grunnskólalögin hafa verið í gildi. Grunnskólalögin hafa verið í gildi að fullu. Börnin hafa átt rétt á fleiri tímum en kenndir hafa verið og þau hafa átt rétt á því að það væru færri í bekkjunum en verið hafa. Menn hljóta auðvitað að velta því fyrir sér í þessu sambandi hvaða stöðu grunnskólalögin hafa. Er það þannig að fjárlög geti tekið grunnskólalögin af? Ég vildi gjarnan að hv. þm. áttuðu sig á því hvort það er svo að fjárlög taki af ákvæði grunnskólalaga og spyrja hæstv. menntmrh. um álit hans á því hvort fjárlög taki af ákvæði grunnskólalaganna. Ég tel að svo sé alls ekki. Ég tel alveg tvímælalaust að börnin eigi rétt á þessum tímum núna frá áramótum og þar til þetta frv. verður að lögum, ef það verður að lögum í framhaldi af 2. umr.
    Með því ákvæði sem gert er ráð fyrir hér er ætlunin að spara um 100 millj. kr. Við meðferð fjárlaga fluttum við þrír þingmenn Alþb. tillögu um að þær 100 millj. kr. yrðu teknar með því að skera niður fjárframlag til þess að byggja hús yfir Hæstarétt, vegna þess að ég tel mikilvægara að veita börnum landsins góða þjónustu og góða kennslu og framkvæma grunnskólalögin undanbragðalaust en að byggja hús yfir Hæstarétt. Af þeim ástæðum var það að við fluttum þessa tillögu en niðurstaðan varð því miður sú að meiri hluti Alþingis, Alþfl. og Sjálfstfl., ákváðu að fella þessar brtt. þannig að hér er verið að tala um niðurskurð upp á um 100 millj. kr.
    Nú hefur hæstv. ríkisstjórn, eins og kunnugt er, ákveðið að draga til baka tekjuöflun upp á ég held 500 millj. kr. í sambandi við virðisaukaskatt af vinnu byggingarmanna. Ég tel að það sé í raun og veru einboðið að líta nákvæmlega eins á þetta mál og segja sem svo: Hér eru 100 millj. og það eru mistök að vera að taka þær vegna þess að þetta kemur niður á börnum í skólum landsins og það er ástæðulaust að vera að hrófla við grunnskólalögum út af ekki stærri upphæð en hér er á ferðinni og þess vegna hættum við við þetta. Ég tel því að þegar séu komin fram rök af hálfu hæstv. ríkisstjórnar um að það sé réttlætanlegt að krefja hana um að grunnskólalagafrv. sem hér liggur fyrir verði fellt eða dregið til baka.
    Við meðferð málsins í hv. menntmn. komu fjölmargir aðilar á fund nefndarinnar, sem við stjórnarandstæðingar óskuðum eftir að yrðu kallaðir til. Það voru Svanhildur Kaaber og Eiríkur Jónsson frá Kennarasambandi Íslands, Arthur Morthens frá samtökunum Barnaheillum, Unnur Halldórsdóttir frá Landssamtökunum Heimili og skóli, Áslaug Brynjólfsdóttir, fræðslustjóri í Reykjavík, Helgi Jónasson, fræðslustjóri í Reykjanesumdæmi, Sigþór Magnússon frá Skólastjórafélagi Íslands, Örlygur Geirsson, skrifstofustjóri fjármálaskrifstofu menntmrn., og Sólrún Jensdóttir, skrifstofustjóri skólamálaskrifstofu menntmrn., og loks Ólafur Darri Andrason, starfsmaður í fjármálaskrifstofu menntmrn.
    Þessi gestir voru m.a. spurðir um það hvaða lög giltu um grunnskólann um þessar mundir. Talsmenn kennara og skólastjóra töldu einsýnt að lögin um grunnskóla hefðu tekið gildi óskert um sl. áramót. Talsmenn ráðuneytisins viðurkenndu að engin lögfræðileg úttekt lægi fyrir í þessum efnum af hálfu ráðuneytisins og fram kom að aðspurðir mundu forustumenn skólamálaskrifstofu menntmrn. svara skólamönnum á þann hátt að fjárlög gerðu ráð fyrir skertum tíma, að frv. lægi fyrir Alþingi um að breyta grunnskólalögum og því fengju menn nú í janúar ekki fleiri tíma en um var að ræða á sl. ári. Skrifstofustjóri skólamálaskrifstofu menntmrn., Sólrún Jensdóttir, gat ekki svarað því hvort fyrir lægi faglegt mat á niðurskurðinum þegar hún var spurð um það efni. Kvaðst hún reyndar ekki nenna að svara svona spurningum frá þingmönnum og er það í fyrsta sinn í minni þingsögu sem embættismenn nenna ekki að svara spurningum mínum.
    Kennarasamband Íslands óskaði eftir upplýsingum um það hvernig skiptingin hefði verið á þeim kennslustundum sem féllu niður vegna niðurskurðarins eftir greinum og eftir bekkjardeildum. Þær upplýsingar reyndust ekki vera fyrir hendi og af þeim ástæðum hefur það verið hugleitt að flytja sérstaka fyrirspurn með beiðni um skriflegt svar þar sem óskað yrði eftir upplýsingum um skiptinguna á niðurskurðinum eftir greinum og eftir bekkjum með svipuðum hætti og Kennarasambandið gerir grein fyrir í sínu áliti á fskj. II sem birt er með nál. okkar minni hlutans.
    Eiríkur Jónsson, varaformaður Kennarasambands Íslands hefur leyft undirrituðum, þ.e. nefndarmönnum, að hafa það eftir sér í þessu nál. að niðurskurðurinn hafi yfirleitt komið niður á íslensku, reikningi og tungumálum gagnstætt því sem menntmrh. fullyrti er niðurskurðurinn var ákveðinn í fyrra, sbr. fskj. III með nál. þessu, þar sem birt er viðtal á Rás 2 við hæstv. menntmrh.
    Í máli fulltrúa Kennarasambands Íslands kom enn fremur fram að skerðingin á sl. ári virtist langhelst hafa komið niður á íslensku gagnstætt því sem lofað hafði verið. Þau lögðu eindregið til að frv. yrði hafnað. Þau sögðust hafa skrifað ráðuneytinu í september sl. og beðið um upplýsingar um það hvernig niðurskurður síðasta skólaárs hefði komið niður á skólum og greinum.
    Ráðuneytið hafði enn ekki 8. jan. er málið var rætt í nefndinni svarað Kennarasambandi Íslands og ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hefur ráðuneytið nú svarað Kennarasambandi Íslands á þessum drottins degi sem mun vera 14. jan. 1993? En bréfið mun hafa verið skrifað í september 1992.
    Í upplýsingum talsmanna Kennarasambands Íslands kom fram að ótrúlega lítill munur hefði reynst á áætlunum sambandsins um niðurskurðinn í heild í fyrra og því sem svo varð raunin samkvæmt svari ráðuneytisins við fsp. minni frá þessu þingi. Fram kom að fulltrúar Kennarasambandsins hafa ekki verið kallaðir til formlegs samráðs um endurskoðun grunnskólalaganna sem sagt er að standi yfir á vegum svokallaðrar 18 manna nefndar. Hefðu fulltrúar frá Kennarasambandi Íslands einu sinni verið kallaðir fyrir hluta nefndarinnar þar sem tilkynnt var um fjölgun samræmdra prófa.
    Fyrir nokkrum vikum lagði ég fyrir hæstv. menntmrh. fyrirspurn um það hvenær ætla mætti að endurskoðun grunnskólalaganna lyki. Hann skýrði þá frá því að greinargerð um endurskoðunina yrði tilbúin um miðjan desember sl. og að frv. um endurskoðun grunnskólalaganna að nýjum grunnskólalögum yrði tilbúið um miðjan mars. Ætlunin væri að greinargerðin yrði send út til hlutaðeigandi aðila til umsagnar og umræðu frá og með miðjum desember. Mér er ekki kunnugt um að þessi greinargerð sé enn þá komin og nota því þess vegna þetta tækifæri þar sem verið er að krukka í grunnskólalögin til að spyrja hæstv. menntmrh. að því hvort þessi greinargerð sé núna tilbúin.
    Þá lýstu fulltrúar Kennarasambands Íslands þeirri skoðun að ekki væri farið eftir lögum um grunnskóla þar sem nemendur fengju nú færri tíma en þar væri gert ráð fyrir og fleiri nemendur væru í fjölmennustu bekkjunum en kveðið væri á um. Einnig kom fram í máli þeirra að samkvæmt upplýsingum frá menntmrn. væri engin auglýsing um tímafjölda í gildi. Ég vil bæta þessari spurningu við í spurningasafnið til hæstv. menntmrh.: Hvaða auglýsing um tíma í grunnskólum er í gildi að mati hæstv. menntmrh. í dag?
    ,,Sögðust fulltrúar KÍ því hljóta að benda sínum félagsmönnum á`` --- eins og stendur í nál. --- ,,að ekki væri farið eftir lögum og væru samtökin að ræða við lögfræðinga um málið þessa dagana.``
    Ég verð að segja það að ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að lögfræðileg úttekt fari fram á réttarstöðu barnanna í skólunum í landinu. Það kemur fram í gögnum sem við birtum sem fskj. með þessu nál. frá fræðslustjóranum í Reykjanesumdæmi að í mjög mörgum skólum vantar mikið á það að börnin fái tíma samkvæmt viðmiðunarstundaskrá. Það stafar ekki af leti kennara eins og mér fannst hálft í hvoru koma fram af ummælum ákveðinna aðila frá menntmrn. í fyrra. Það stafar af því að verulegur hluti af þessum tímum sem á vantar er notaður í skiptistundir þar sem slíkt er óhjákvæmilegt af því að það er ekki hægt að kenna nema sjö, átta, níu, tíu eða tólf börnum í einu, t.d. handavinnu, og þess vegna er gengið á heildartímamagnið af því að ákvæði laganna um lágmarkstíma fyrir bekk hafa verið afnumin.
    Á fundi nefndarinnar kom fulltrúi Landssamtakanna Heimilis og skóla og vakti hún athygli á því að börn fengju færri tíma í skólum en árin 1960--1968 og að mati samtakanna vantar allt upp í 5 stundir í viku í viðmiðunarstundaskrána. Álit hennar og Samtakanna Heimilis og skóla er birt sem fskj. III með nál. þessu.
    Að mati fulltrúa Barnaheilla sjást þess enn fremur víða merki í skólum að fátækt fari vaxandi og því sé börnum ekki til góðs að fresta þeim ákvæðum grunnskólalaganna er felast í frv. Fram kom einnig í máli fulltrúa Barnaheilla að 2.400 börn í grunnskólum Reykjavíkur eða um 18% barna ættu í erfiðleikum og hefði orðið veruleg fjölgun í þeim hópi barna sem ættu við erfiðleika að stríða. Athvörfin fimm í Reykjavík eru yfirfull. Ástandið er svo bágt hjá börnunum að sögn fulltrúa Heimilis og skóla að þau eru stundum tekin inn í kennarastofur til að gefa þeim að borða.
    Fram kom á fundinum að í samtökunum Heimili og skóli eru nú um 8.400 félagsmenn svo að segja um allt land.
    Vegna niðurskurðarins hefur bekkjardeildum fækkað um 20 í Reykjavík og lýsti fræðslustjóri Reykjavíkur áhyggjum sínum yfir þessari þróun. Benti fræðslustjórinn á að þörfin fyrir sérkennslu væri meiri en skólarnir fengju. Jafnframt vakti fræðslustjórinn athygli á útlendum börnum sem fer stöðugt fjölgandi og fjármunir til kennslu þeirra væru teknir af sérkennslufé. Niðurskurður í menntamálum þýddi í raun aukin útgjöld til heilbrigðis- og félagsmála og sagði fræðslustjórinn í Reykjavík að menn yrðu því að fara að horfa á málin í samhengi.
    Fulltrúi Skólastjórafélags Íslands gagnrýndi niðurskurðinn harðlega. Niðurskurðurinn á kennslustundum bitnar mest á almennum greinum, að sögn fræðslustjóra Reykjavíkur.
    Fræðslustjóri Reykjaness lét þess getið á fundi nefndarinnar að ekki væri unnt að auka við kennslumagn um áramót, jafnvel þó að lög heimiluðu. Hann lagði jafnframt fram ýmis fróðlegt gögn sem birtast með þessu nál. sem fskj. V. Fulltrúi Skólastjórafélagsins taldi hins vegar unnt að auka eitthvað við kennsluna ef leyfi fengist til þess, jafnvel á miðju skólaári.
    Þegar frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum var lagt fram í fyrra urðu um það miklar umræður. Þá sagði hæstv. menntmrh. m.a. í útvarpsviðtali, en afrit þess er birt sem fskj. IV, að ekki kæmi til greina að skera niður kennslu í íslensku eða orðrétt, eins og hæstv. ráðherra komst að orði: ,,Ég hef líka sagt að það komi ekki til greina að minnka kennslu í íslensku eða hætta kennslu í einhverju tungumáli. Þarna er bara verið að mála þetta allt of dökkum litum. Þetta verður ekki gert svona.``
    Því miður hefur farið svo að þessi orð hans hafa ekki staðist, niðurskurðurinn hefur aðallega bitnað á svokölluðum almennum greinum og meira á íslensku en öðrum greinum þar sem svokallaðir tímar til ráðstöfunar voru frekar notaðir til að auka við íslenskukennslu en við aðrar greinar.
    Í nál. minni hlutans segir síðan, með leyfi forseta:
    ,,Með hliðsjón af því sem að framan segir leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði fellt vegna þess     að ákvæðið um skólamáltíðir á ekki heima í lögum sem sett eru vegna ástandsins í ríkisfjármálum af því að skólamáltíðirnar eru verkefni sveitarfélaganna,
    að ráðherra lofaði því í fyrra að ákvæðið um tiltekinn lágmarkstíma handa skólunum kæmi til framkvæmda um þessi áramót,
    að það er nauðsyn nú, einmitt á tímum samdráttar í þjóðfélaginu, að betur sé búið að menntun barna þessa lands,
    að afturför í skólamálum þýðir afturför í lífskjörum til lengri tíma litið,
    að sparnaður ríkissjóðs er aðeins 100 millj. kr. Með þeim sparnaði er verið að spara eyrinn en kasta krónunni.
    Minni hlutinn bendir á að þessa dagana er ríkisstjórnin að leiðrétta ákvæði skattalaga, sem sett voru fyrir áramót, um virðisaukaskatt af byggingarvinnu.
    Minni hlutinn telur að ríkisstjórnin eigi líka að leiðrétta stefnu sína í skólamálum; hún eigi að láta grunnskólalögin í friði. Minni hlutinn viðurkennir að vísu að skólatíminn mælist ekki í vísitölu lánskjara eða byggingarkostnaðar, en hann mælist í manngildum sem þarf líka að muna eftir þegar ríkisstjórn fjallar um stjórn landsins.``
    Eins og ég sagði áðan, virðulegi forseti, þá fylgja þessu nál. síðan ítarleg fskj. Í fyrsta lagi frá menntmrn. þar sem er yfirlit yfir fjölda bekkjardeilda í grunnskólum þar sem heimild fræðslustjóra til að fjölga í deildum um allt að tvö nemendur umfram ákvæði grunnskólalaga er nýtt. Það kemur fram að þetta ákvæði sparar ríkinu á árinu 1993 um 20 millj. kr., það er ekki hærri tala, sparar væntanlega á heilu ári þá tvöfalda þá upphæð, eða mér sýnist 47 millj. kr. samkvæmt áliti ráðuneytisins en á þessu ári eingöngu 19,6 millj. kr., það er ekki meira. Það er satt að segja alveg ótrúlegt að menntmrn. skuli leggja sig niður við það að sækja 19 millj. kr. af 4.500 millj. kr. fjárlögum grunnskólanna í landinu með því að fjölga í bekkjum á þremur svæðum í landinu, þ.e. Reykjavík, Reykjanesi og Norðurlandskjördæmi eystra.
    Í Reykjavík er fjölgað í 19 bekkjardeildum. Í 6 ára bekk er verið að kenna á þremur stöðum þar sem eru fleiri en 22 börn í bekk. Í 7 ára bekk er verið að kenna á fimm stöðum þar sem eru fleiri en 22 börn í bekk. Við erum að tala um 6 og 7 ára krakka, í mörgum tilvikum börn sem hafa verið á leikskólum, búið þar við allt annað atlæti og meiri starfsmannafjölda. Hér er auðvitað um að ræða afar mikla breytingu á aðbúnaði og aðhlynningu þessara barna þegar þau koma í grunnskóla frá því sem er í leikskóla, þ.e. hjá þeim sem eru svo heppin að hafa fengið leikskólapláss.
    Í Reykjanesumdæmi fjölgar bekkjardeildunum um 12 af þessum ástæðum og í Norðurl. e. um 3. Samtals er fjölgað í bekkjardeildum í landinu um 34 af þessum ástæðum og heildarsparnaðurinn er, eins og ég sagði, 19,6 millj. kr.
    Það er ástæða til þess, virðulegi forseti, að færa menntmrn. þakkir fyrir yfirlitið. Það er mjög greinargott og glöggt og ég geri ráð fyrir því að aðrir þingmenn geti tekið undir það með mér. Ekki hefur áður komið fram með hvaða hætti þetta hefur gerst í einstökum atriðum. Að vísu er dálítið skrýtið að það skuli ekki hafa sést áður en þó það sé fyrst núna þá er það þakkarvert engu að síður og ég kem þeim þökkum mínum á framfæri við hæstv. menntmrh.
    Sem fskj. II er birt greinargerð frá Kennarasambandi Íslands sem er dagsett 7. jan. 1993. Þar er lýst skoðunum Kennarasambandsins á þessu máli og svo er spurt hvernig þær 4.592 kennslustundir, sem niðurskurðurinn á árinu 1992 nemur, dreifast á kennslugreinar eftir árgöngum. Sérstök ástæða er lögð á að nákvæmlega komi fram hvort og þá hvað mikið og í hvaða árgöngum kennslustundum hefur fækkað í íslensku, stærðfræði og erlendum tungumálum, greint eftir árgöngum og hversu marga nemendur niðurskurðurinn á árinu 1992 snertir í hverri námsgrein.
    Eins og ég sagði áðan þá liggja ekki fyrir upplýsingar sem eru svör með þessum spurningum og ber að harma það. Við báðum ráðuneytið um þessar upplýsingar en þær lágu ekki fyrir. Eins og ég sagði áðan hefur engin fagleg úttekt farið fram á niðurskurðinum í ráðuneytinu og er það ekki nógu gott að mínu mati. Ég tel þess vegna að óhjákvæmilegt sé að leita eftir upplýsingum ráðherra um þetta mál með öðrum hætti og er auðvelt út af fyrir sig að gera ráðstafanir til þess þó upplýsingarnar hefðu þurft að liggja fyrir núna.
    Í þriðja lagi birtum við með nál. fskj. III sem er frá Landssamtökunum Heimili og skóli, sem telja milli 8.000 og 9.000 félagsmenn í landinu og verða vonandi áður en langur tími líður áhrifamestu samtök á Íslandi. Það er það sem við þurfum. Við þurfum virk foreldrasamtök, bæði til að verja skólann og til að hjálpa menntmrn. í slag við fjármálayfirvöld í landinu, hver sem þau eru. Við þurfum að eignast foreldrasamtök sem eru svo stór og sterk að þau haldi fundi á stórum stöðum, a.m.k. einu sinni á ári eða annað hvert ár, landsfundi sem veki ekki minni athygli en t.d. landsfundir Sjálfstfl. eða eitthvað því um líkt, svo ég nefni svona smærri samtök til viðmiðunar og að áhrif Landssamtakanna Heimili og skóli verði ekki minni þegar fram í sækir. Við þurfum að eiga sterk foreldrasamtök, við þurfum að hafa tugþúsundir foreldra sem sýna það í verki í samtökum sínum að þeim er ekki sama hvernig búið er að börnum í skólum. Ég tel að góð foreldrasamtök gætu orðið þegar fram liðu stundir besti bandamaður menntmrh. sem sýndi öflugan metnað fyrir hönd greinar sinnar. Samtökin mótmæla þessum niðurskurði og í greinargerðinni neðst er spurt, með leyfi forseta: ,,Geta bílarnir okkar ekki beðið aðeins lengur eftir glæstum skoðunarstöðvum?`` --- frekar en að skera niður peninga til grunnskóla í landinu.
    Birt er ályktun þar sem samtökin mótmæla áformum ríkisstjórnarinnar að framlengja þá skerðingu á kennslu sem hefur verið í gildi í haust. Þetta er ályktun sem var gerð á fundi samtakanna 21. des. 1992 og var send öllum alþingismönnum.

    Í fjórða lagi birtum við sem fskj. nokkur gögn frá fræðslustjóranum í Reykjanesumdæmi sem hann kom með óumbeðinn á fund nefndarinnar og er ástæða til að þakka það líka. Það eru afar glöggar upplýsingar og ég vek fyrst athygli á skjalinu. Nemendastundir í einstökum skólum sem hlutfall af lágmarki skólaárið 1991/1992.
    Fræðslustjórinn birtir þarna yfirlit yfir 29 skóla í umdæminu og í ljós kemur að aðeins í fimm skólum fá börnin fulla viðmiðunarstundaskrá. Í a.m.k. tveimur skólum fá börnin aðeins 90% af viðmiðunarstundaskránni. Auðvitað er þetta ekki vegna þess að verið sé að skera niður heildartímamagnið heldur er mismunurinn yfirleitt notaður í skiptistundir. Formaður Félags skólastjóra og yfirkennara, Sigþór Magnússon, sagði okkur frá því að í skóla hans háttar svo til að hann er með handavinnustofu með sjö hefilbekkjum inni þar sem hann getur alls ekki haft fleiri en 14 nemendur og verður þess vegna að skipta bekkjum. Út úr þessu verður auðvitað skerðing á öðrum bekkjum á móti. Reglurnar um skiptistundir eru svo strangar af hálfu ráðuneytisins og hafa lengi verið, að það er ekki hægt að veita börnunum fulla viðmiðunarstundaskrá. Þess vegna er það að mínu mati grafalvarlegt mál, virðulegi forseti, að afnema ákvæðin um lágmarkstíma. En ég skil frv. svo að þau séu afnumin áfram og ráðherrann geti í raun og veru ákveðið lágmarkstíma á bekki eins og honum sýnist og niðurstaðan verður þá sú að í nær öllum tilvikum fá börnin í þessu umdæmi minni kennslu en kveður á um í viðmiðunarstundaskránni. Í nær öllum skólunum, þ.e. öllum skólunum nema fimm, fá börnin minni kennslu en nemur viðmiðunarstundaskránni.
    Í fskj. eru birtar fleiri mjög fróðlegar upplýsingar sem ég ætla ekki að lesa upp en endurtek hins vegar þakkir mínar til fræðslustjórans í Reykjanesumdæmi fyrir þessar upplýsingar.
    Þá er birt sem fskj. V endurrit úr dægurmálaþætti Rásar 2 þar sem fréttamaður ræddi við Svanhildi Kaaber, formann Kennarasambands Íslands, Ólaf G. Einarsson menntmrh., ég hygg það hafi verið í janúar á árinu 1992.
    Í þessu viðtali segir hæstv. menntmrh. t.d. um fjölgunina í bekk, með leyfi forseta: ,,Það skilar kannski 25 millj. kr. í heild.``
    Staðreyndin er sú að þetta skilar ekki einu sinni 25 millj. kr. eins og menntmrn. viðurkennir núna heldur 19,6 á önn. Ég segi alveg eins og er að mér finnst að menntmrn. leggist lágt við að sækja 19,6 millj. kr. með því að kollsteypa þannig grunnskólalögunum og fjölga í bekkjardeildum með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir.
    Síðan segir hæstv. menntmrh., í þessu viðtali:
    ,,Ég hef líka sagt að það komi ekkert til greina að minnka kennslu í íslensku eða hætta kennslu í einhverju tungumáli. Þarna er bara verið að mála þetta allt of dökkum litum. Þetta verður ekki gert svona.``
    Reynslan segir allt annað. Reynslan segir þó að það liggi ekki fyrir nákvæmlega, að allar þær upplýsingar sem ég hef, bæði frá fræðslustjórum og frá einstökum skólastjórum --- en ég hringdi í nokkra nú á dögunum --- benda til þess að þetta komi aðallega niður á íslensku. Það sé fyrst og fremst kennsla í íslensku máli, móðurmáli, sem hafi orðið fyrir barðinu á niðurskurðinum.
    Síðan segir hæstv. ráðherra til að undirstrika þetta enn frekar í framhaldi af orðum Svanhildar Kaaber. Svanhildur segir í þessu viðtali, með leyfi forseta:
    ,,Það á ekki að taka þetta af íslenskunni, það á ekki að taka þetta af yngstu bekkjunum. Af hverju á að taka það?``
    Menntmrh. svarar: ,,Þar er bara alveg augljóst mál og það veit náttúrlega Svanhildur að það er ákveðinn fjöldi aukatíma til ráðstöfunar fyrir skólana, það er þeim sem fækkar.``
    Þarna finnst mér koma fram að hæstv. menntmrh. hafi litið svo á að tímar til ráðstöfunar væru það sem hann segir, þ.e. aukatímar, en í raun og veru ekki virkir kennslutímar sem hafa þó verið notaðir til þess að kenna börnum m.a. íslensku.
    Mér er kunnugt um að verulegur hluti af tímunum til ráðstöfunar hefur verið notaður til að kenna íslensku. Þegar saumað er að skólunum eins og gert er hér minnkar íslenskukennslan og það er það sem hefur gerst. Það er mjög alvarlegur hlutur á þessum tímum. Ég er þó ekki í hópi þeirra manna sem telja að öllu fari hrakandi af því er varðar íslenskt mál og notkun þess, það er langt frá því, þar er margt til bóta og er margt mjög vel gert, m.a. í skólunum. Svo er ekki að börn og unglingar tali miklu verra mál en talað var í gær og í fyrradag eins og einlægt er verið að jarma um, þvert á móti tala börnin yfirleitt heldur gott mál og unglingar líka. En allt um það, þetta er það sem heldur þjóðinni saman, það er málið, það er tungan, og þess vegna má ekki skera niður fjármuni til kennslu í þessum greinum að mínu mati.
    Síðan segir hæstv. menntmrh. varðandi 46. gr. ,,Það er aðeins verið að taka úr sambandi 46. gr. fyrir skólaárið 1992--1993. Þessi grein laganna, 46. gr., hún tekur gildi að nýju.``
    Fréttamaðurinn spyr: ,,Eftir ár?``
    Ráðherrann segir: ,,Já, að sjálfsögðu. Ég tek það á mig að fá þessa heimild til þess að setja þetta í reglugerð . . .   Svona einfalt er það og það þýðir að hún kemur auðvitað til framkvæmda þar á eftir að loknu því ári.``
    Skólamenn í landinu stóðu því í þeirri meiningu eftir yfirlýsingar frá hæstv. menntmrh. að í fyrsta lagi yrði íslenskan varin. Í öðru lagi mundu ákvæðin um lágmarkstímana koma til framkvæmda eftir eitt ár. Annars er hætta á því að skólarnir gangi á heildartímamagnið með því að nota tímana í skiptistundir

eins og sést á þessu glögga yfirliti úr Reykjanesumdæmi sem ég var hér að rekja áðan. Þess vegna finnst mér að menntmrh. eigi sjálfs sín vegna að draga þetta frv. til baka.
    Í nál. minni hlutans birtum við einnig gögn frá Reykjavíkurumdæmi sem sýna svipaða sögu og á Reykjanesi og þó ívið lakari ef eitthvað er. Ástandið á skólunum í Reykjavík er satt að segja sennilega eitt það versta í landinu. Og að mörgu leyti stafar það af því hvernig hefur verið haldið á yfirstjórn þeirra mála af allra hálfu, m.a. vegna þess að Reykjavíkur-íhaldið hefur alltaf verið að passa að ríkið eða menntmrn. kæmist aldrei að skólakerfinu í Reykjavík. Þetta hefur verið svona sérstök deild og stofnuð sérstök skrifstofa og sérstakt ráð, skólamálaráð í Reykjavík, til að vinna á móti fræðsluráðinu sem þó starfar samkvæmt lögum --- búa til sérstakan klúbb fyrir Sjálfstfl. til að stjórna skólamálum í Reykjavík. Niðurstaðan er auðvitað dapurleg í skólamálum í þessu stærsta kjördæmi landsins. Hér eru fleiri vandamál hjá börnum en víðast annars staðar, sem almennt leiðir af þéttbýlinu, m.a. og þess vegna þurfum við að eiga hér betri skóla en nokkurs staðar annars staðar. Við eigum að hafa metnað til þess einmitt í þessu kjördæmi.
    Í gögnum fræðslustjórans í Reykjavík koma fram, virðulegi forseti, svipaðar upplýsingar og koma fram hjá fræðslustjóranum í Reykjanesumdæmi. En þar kemur líka fram athyglisvert blað um þau börn sem koma erlendis frá. Og ég leyfi mér að lesa það, þetta eru örfáar línur, með leyfi forseta.
    ,,Til viðbótar við þann fjölda sem þarf á sérkennslu að halda í grunnskólum borgarinnar eru nú á þriðja hundrað nemendur (221) sem koma erlendis frá og þurfa á verulegri íslenskuaðstoð að halda. Af þeim eru 82 börn sem eru af erlendu bergi brotin og tala litla sem enga íslensku og þurfa mikla aðstoð og 139 börn af íslensku bergi brotin sem hafa dvalið langdvölum erlendis og þurfa á aukinni íslenskukennslu að halda. Sum þessara barna tala og skrifa mjög bjagað mál.``
    Í Reykjanesumdæmi skipta þau börn sem þurfa stuðning af þessu tagi mörgum tugum einnig, samkvæmt upplýsingum sem fram komu á fundi í hv. menntmn. Og hvaða peningar eru til í skólakerfinu til að kenna þessum börnum? Það er 5 millj. kr., ég endurtek, 5 millj. kr. til að sinna öllum þessum börnum sem á landinu öllu er sjálfsagt 400--500 talsins. Ég tel að frammistaða menntamálayfirvalda í þessu efni sé ekki einasta hneisa gagnvart börnunum sem slíkum heldur hygg ég að hún sé bort á eðlilegum alþjóðlegum samskiptavenjum. Ég bendi á það í þessu sambandi, virðulegur forseti, að því miður fór það svo að meiri hluti Alþingis samþykkti hér fyrir tveimur sólarhringum frv. til laga um staðfestingu á samningi um Evrópskt efnahagssvæði, sem mun, ef það verður framkvæmt með þeim hætti sem gert er ráð fyrir, hafa í för með sér stórkostlega aukinn fjölda erlendra barna hér á landi. Það þýðir auðvitað að það verður að auka við fjármuni til að þessu fólki sé hægt að kenna íslensku því annars er voðinn vís. Í fyrsta lagi auðvitað fyrir þessi börn en í öðru lagi fyrir það umhverfi sem þau koma til með að lifa og starfa í. Þess vegna vil ég leyfa mér að bæta þeirri spurningu við spurningar mínar til hæstv. menntmrh., hvaða ráðstafanir hyggst ríkisstjórnin gera til þess að koma sérstaklega til móts við þau börn sem hér er um að ræða? Fræðslustjórarnir í Reykjavík og á Reykjanesi töldu báðir að þeim væri ekki sinnt sem skyldi, hér væri um að ræða mjög alvarlegt vandamál í okkar skólakerfi.
    Já, virðulegi forseti, hér er verið að breyta grunnskólalögum í annað sinn frá því að núv. ríkisstjórn tók við. Grunnskólalög sem voru sett vorið 1991 með mjög sterkri samstöðu á Alþingi. Þau höfðu verið lengi í meðförum Alþingis. Þau voru lögð fyrir þing tvisvar sinnum. Þá var nú ekki verið að keyra svona mál í gegn á einu þingi heldur fengu menn tvö þing til að fara í yfir málið. Það var farið yfir málið í menntmn. fjórum sinnum í raun og veru, tvisvar í neðri deild og tvisvar í efri deild. Og á milli þinganna 1989--1990 og 1990--1991 var talsverðum hlutum breytt í frv. til að koma til móts við m.a. sjónarmið stjórnarandstöðunnar. Þegar frv. var lagt fram í fyrra skipið þá lagði Sjálfstfl. á það mjög mikla áherslu að hlutur sveitarfélaganna á stjórnkerfi skólanna yrði tryggður. Það var rétt ábending og niðurstaðan varð sú að frv. var breytt til samræmis við sjónarmið Sjálfstfl. Þegar frv. kemur síðan hér inn í þingið er það flutt í neðri deild, það kemur hér til meðferðar og Sjálfstfl. talar mikið í þessu máli. Það eru 137 dálkar í þingtíðindum, umræður Sjálfstfl. um grunnskólalögin veturinn 1990--1991, 137 dálkar. ( Gripið fram í: Þá eru ekki komnar þingskapaumræður.) Þá er þingskapaumræðan ekki talin með heldur eingöngu --- þá voru ekki til andsvör --- heldur eingöngu ræður þingmanna Sjálfstfl. Það var alveg bersýnilegt þegar frv. var fyrst lagt fram að það olli þeim verulegum áhyggjum. Í fyrsta lagi vegna þess að þeim fannst þetta gott frv. í raun. Þeim fannst það heldur óþægilegt að menn úr öðrum stjórnmálaflokkum væru mikið að flytja svoleiðis frv. Vegna þess að Sjálfstfl. metur alltaf skóla- eða heilbrigðismál eða annað eftir því úr hvaða flokki það kemur en ekki eftir því hvernig málið er. Sjálfstfl. er í raun og veru eini flokkurinn sem beygir fagmálefni undir sín flokkspólitísku sjónarmið. Það hefur oft gerst í menntmrn. eins og kunnugt er, bæði á síðari missirum en þó einkum hér fyrr á öldinni þegar forverar okkar sem hér erum í salnum núna sátu þar og skipuðu menn upp í háskóla við litlar undirtektir manna þar. Kvennalistinn tók mjög undir þetta frv. á sínum tíma en gagnrýndi það. Kvennalistinn gagnrýndi frv. fyrir það að þar væri í raun og veru of skammt gengið með réttindi barna. En ég man eftir því að einn af þingmönnum Kvennalistans, sem ég hygg að sé prófessor í uppeldisfræði við Háskóla Íslands, varaþingmaður Kvennalistans, ( Gripið fram í: Dósent.) dósent, tók þannig til orða að hún fagnaði því sérstaklega að ég hafði komist svo að orði í framsöguræðu minni með frv., að grunnskólalögin væru mannréttindaskrá barna á Íslandi. Hún taldi það mikilvægt að þetta viðhorf frá ráðuneytinu og ríkisstjórninni þáv. lægi fyrir. Ég valdi þessi orð eftir þó nokkra umhugsun vegna þess að ég tel að það eigi að líta þannig á að þetta sé mannréttindaskrá barna sem eru

í skólum. Það eru réttindi barna til að vera í skólum. Og af þeim ástæðum fannst mér það sárt að heyra að ráðuneytið skyldi ekki í umræðum í menntmn. hafa áttað sig á þessu grundvallaratriði og telja, að því er mér virtist, að fjárlögin tækju af ákvæðin um lágmarkstímafjölda barna og hámarksfjölda í bekk samkvæmt grunnskólalögunum eins og þau eru. Það er auðvitað ofboðslegt ef ráðuneyti menntamála heldur þannig á málum. Og er auðvitað rökstuðningur fyrir því sem ég hef stundum verið að segja að í þessari ríkisstjórn eru engir fagráðherrar heldur bara nokkrir fjmrh. Enda hefur hæstv. fjmrh. sagt það: Í þessari stjórn eru allir fjmrh. Það vantar fagráðherra í þessa stjórn. Það vantar metnað fyrir þennan málaflokk til að verja hann fyrir árásum. Verja m.a. þessi mannréttindamál barna.
    Hv. þm. Kvennalistans komst m.a. þannig að orði í ræðu sinni: ,,Á meðan bruðlið í kringum ráðhús, skopparakringlu eða álversundirbúning er eins yfirgengilegt og allir vita þá er sá málflutningur sem gefur það til kynna að menn sjái eftir peningum í skóla yfirgengilegur.`` Undir þetta tek ég, mér finnst þetta vel sagt og ástæða til að það verði tvíprentað í Alþingistíðindum.
    Þingmenn Sjálfstfl. sáu hins vegar ástæðu til að mótmæla þessu vegna þess að eftir að þeir voru búnir að tala svona 70--80 dálka um það hvað það kostaði mikið að mennta börnin í landinu þá fundu þeir allt í einu að þeir voru komnir út á hálan ís. Hv. þm. Sólveig Pétursdóttir og hv. þm. Ranghildur Helgadóttir bættu nú um betur þegar mjög var liðið á umræðuna og komið fram í mars 1991 og sögðu: ,,Það er enn fremur skoðun okkar Ragnhildar Helgadóttur að ekki sé nógu langt gengið í þessu frv. eins og vera þyrfti og að því leyti erum við sammála sjónarmiðum Kvennalistans,`` sagði Sjálfstfl. 5. mars 1991. Og hv. þm. Sólveig Pétursdóttir bætti um betur, hún var ekki að skafa utan af því, hún sagði: ,,Það er einnig okkar skoðun að nýtt grunnskólafrv. sé það mikilvægt fyrir þjóðfélagið að það beri að setja á forgangslista stjórnvalda. Ég mun fyrir mitt leyti reyna að stuðla að því ef Sjálfstfl. á aðild að næstu ríkisstjórn,`` segir þingmaðurinn. ( Gripið fram í: Hvar er hún nú?) Ja, hún er ekki hér, svo mikið er víst, hv. þm., hún er ekki hér. Það hefur af einhverjum furðulegum ástæðum gjörsamlega gufað upp áhugi Sjálfstfl. á grunnskólamálum eftir að hann fékk menntmrn. Og það er nokkuð dapurlegt að kaflaskilin skuli ævinlega vera þar að hann sýni eldlegan áhuga alltaf þangað til hann kemst inn í menntrmn. Það mætti frekar vera öfugt að hann væri daufari til verkanna og ræðuhaldanna þegar henn er utan stjórnar en öflugri þegar hann er í stjórn. Hundrað þrjátíu og sjö dálkar voru það sem þær töluðu og að sjálfsögðu bar af í þeim hópi alveg gjörsamlega, hæstv. forseti þingsins, Salome Þorkelsdóttir, sem greiddi atkvæði með sérstökum og skynsamlegum og eftirminnilegum hætti hér í gær. Hún flutti mjög ítarlegar ræður um grunnskólafrv. Þá var Sjálfstfl. búinn að tala illa um það í svona 70--80 dálka að þetta væri hið versta frv., sneri svo við blaðinu af því hann ,,fattaði`` það að hann var búinn að tala of illa um frv. og Sjálfstfl. fór allt í einu að tala dálítið vel um frv. þegar það kom upp í efri deild. En það heyrðist á milli þannig að menn áttuðu sig á því að flokkurinn þurfti að ,,ballansera`` sig og hann hafði kannski að þessu leytinu til svipaða aðferð og Framsókn að tala stundum vel hér en illa þar og passar að þetta sé svona að meðaltali nokkurn veginn normalt. Sjálfstfl. fór allt í einu að tala vel um grunnskólafrv. þegar það kom upp í efri deild. Það voru fluttar þarna nokkrar brtt. og Sjálfstfl. fann það að ráðherra var eiginlega alveg tilbúinn að fallast á þær. Nú voru góð ráð dýr, nú voru góð ráð dýr. Það bara var alveg yfirvofandi að frv. yrði samþykkt. Þá sagði Sjálfstfl. við mig: Heyrðu, það þarf endilega að flytja fleiri brtt. og laga frv. Hvað er það? Þeim vafðist nú tunga um höfuð eins og einn fyrrv. menntmrh. orðaði það einu sinni, þeim vafðist nú nokkuð tunga um tönn og tunga um höfuð. Þannig að það fór nú svo að ég hjálpaði þeim við að finna svona eina og eina brtt. ef það mætti verða til þess að Sjálfstfl. yrði auðveldara að samþykkja frv. Og við bjuggum til nokkrar brtt., ég og hæstv. núv. forseti þingsins. Það endaði með því að hún flutti hér alveg skínandi og eftirminnilega ræðu þar sem hún komst að þeirri niðurstöðu að það hefði verið komið til móts við langflest sjónarmið Sjálfstfl. í þessu máli og þetta væri orðið hið besta frv. að öllu leyti. Það var þvílíkur fögnuðurinn að leikurinn barst hingað aftur niður í neðri deild. Ranghildur Helgadóttir, hv. þm. og hæstv. ráðherra, sem hafði verið viðskotaverst allra hér í neðri deild, sneri nú við blaðinu líka, hún fann óm gleðinnar úr efri deild og sagði, með leyfi forseta, sem voru nú nokkrar ýkjur auðvitað hjá þingmanninum sem var að reyna svona að bjarga sér í horn í málinu: ,,Allar þessar brtt. er mér óhætt að segja að eigi uppruna sinn í Sjálfstfl. og við getum auðvitað ekki annað en verið mjög ánægð með það að það skuli vera á þetta fallist.`` Eitt af áhersluatriðum frv. Sjálfstfl. var það síðan að frv. tæki ekki gildi fyrr en 1. ágúst 1991. Það var gífurlegt kappsmál að það væri í raun og veru ekki hægt fyrir fráfarandi menntmrh. að fara að undirbúa framkvæmd frv. af neinum krafti og útilokað fyrir hann að gefa út neinar reglugerðir um málið. Mér datt satt að segja ekki annað í hug en að þetta væri nú bara vel meint af Sjálfstfl., þannig að menn vildu gjarnan að svona lög tækju gildi á skólaáraskiptum. Síðan gerist það að það verður til ný ríkisstjórn, ég held að það hafi verið 30. apríl 1991, fimm, sex vikum eftir að þessi orð voru mælt hér um að þetta frv. væri í raun og veru að öllu leyti í samræmi við það sem Sjálfstfl. helst hefði viljað. Og viti menn, hvað er gert? Það er byrjað á að breyta frv. en ekki í samræmi við það sem Sjálfstfl. hafði lofað heldur alveg þvert á móti. Það er skorið, skorið og skorið. Það er fækkað tímum, það er fjölgað í bekk, að eru felld niður skólaathvörf, það eru felldar niður skólamáltíðir og það eru meira að segja felld niður ákvæði laga um skólamáltíðir þó þær séu verkefni sveitarfélaganna og komi ríkinu ekkert við, þá er það bara strikað út. Þó það sé vitað að fjöldi sveitarfélaga sé að stofna til aðstöðu fyrir skólamáltíðir, meira að segja það afturhaldssama sveitarfélag Reykjavík er að skapa aðstöðu til þess að veslings börnin geti jafnvel nærst og

þykir mikið framfaraspor. Og ég hef séð að formaður skólamálaráðs Reykjavíkur og fræðsluráðs Reykjavíkur eru einlægt að hæla sér yfir því að börnin geti orðið nærst í einum og einum skóla í þessari höfuðborg Íslands árið 1993. Ja, hérna. Haustið 1992 er svo lagt fram frv. til fjárlaga. Þar segir, það á að skera áfram þó það sé búið að lofa því að skera ekki meir. Ráðherrann sagði það í fyrra. Og seint á því ári flytur hann svo frv. til laga um skerðinguna, frv. til grunnskólalaga, sem er hér til 2. umr. Ég segi alveg eins og er, virðulegi forseti, að þetta er svo aumt og svo fyrir neðan allar hellur að það er engu lagi líkt.
    Þess vegna leggjum við það til með djúpri sannfæringu að það eina sem er vit í að gera í þessu máli, virðulegur forseti, er að Alþingi Íslendinga felli þetta frv. og hafni því algerlega og vísi því út í ystu myrkur og að grunnskólalögin verði framkvæmd undanbragðalaust.