Grunnskóli

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 15:56:07 (4847)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. menntmrh. gerði athugasemdir við orðalag í nál. minni hluta menntmn. þar sem rætt er um að við meðferð málsins í nefndinni var því borið við að ætlunin væri að breyta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég vil bara ítreka það að ég skildi ummæli sem féllu í menntmn. á þennan veg. Þar var sagt að það væri biðstaða í þessum málum vegna þess að verið væri að endurskoða grunnskólalögin og að meiningin væri að færa meiri ábyrgð yfir til sveitarfélaganna. Það er algerlega í samræmi við það sem stendur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, Velferð á vananlegum grunni. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Stefnt er að því að auka áhrif og ábyrgð sveitarfélaga, kennara og foreldra á sviði skóla- og dagvistarmála.`` Ég spyr nú bara: Stenst þessi stefna ekki lengur eða hvað? (Gripið fram í.) Ég er með orðið, hæstv. menntmrh. Hann lýsti furðu sinni á því að niðurskurður á kennslu skuli hafa bitnað á íslensku ,,gagnstætt því sem ég átti von á`` skrifaði ég eftir honum. Ég spyr: Hefur menntmrn. ekki fylgst með því hvernig niðurskurðinum var framfylgt? Reynir ráðuneytið ekki að gera sér grein fyrir því hvernig þeim ákvörðunum er framfylgt sem skipta jú skólakerfið svo miklu máli? Hvers konar vinnubrögð eru þetta?