Grunnskóli

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 15:58:12 (4848)

     Frsm. minni hluta menntmn. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst þakka fyrir að hæstv. menntmrh. viðurkennir að 1. mgr. 46. gr. grunnskólalaganna hefur verið í gildi núna frá áramótum. Þar stendur: ,,Vikulegur kennslutími á hvern nemanda í grunnskóla skal vera þessi`` --- og síðan er það tíundað nákvæmlega bekk fyrir bekk. Það er mjög mikilvægt að þessi yfirlýsing liggur fyrir. Auðvitað má segja eins og hæstv. ráðherra að þetta gæti hver maður sagt sér sjálfur. En það var ekki þannig með þá sem svöruðu fyrir ráðuneytið þegar þeir komu í nefndina. Þess vegna var óhjákvæmilegt að leggja þessa spurningu fyrir ráðherra.
    Ég held að þetta sé mikilvægt fyrst og fremst vegna þess að ég vil a.m.k. líta þannig á að grunnskólalögin séu mannréttindalög barna sem eru í skólum og ekki sé hægt með fjárlögum án annarra lagabreytinga að skerða réttindaákvæði grunnskólalaganna.
    Í öðru lagi verð ég að segja alveg eins og er að mér finnst það mjög merkilegt sem hér kom fram hjá hæstv. ráðherra í sambandi við íslenskukennsluna og hv. 18. þm. Reykv. vék hér að í andsvari núna áðan. Það liggur með öðrum orðum fyrir að ráðherrann viðurkennir að hlutirnir séu þannig að íslenskukennslan hafi sérstaklega verið skert. Og ég spyr þingheim og ráðherra og hæstv. forseta: Er það svo að á þessum tímum sé það viðunandi, sé það þolandi að íslenskukennsla sé skert? Svarið við þessu er auðvitað það af hálfu hæstv. ráðherra að hann á ekki að skera niður með þeim hætti sem þarna er gert heldur á að fara öðruvísi í þá hluti ef menn eru að spara á annað borð. Það á með öðrum orðum að segja: Það kemur ekki til greina að snerta við íslenskukennslunni eða eitthvað því um líkt. Ég er sannfærður um að ef skólamenn hefðu haft þau fyrirmæli skýr og afdráttarlaus frá ráðuneytinu hefðu þeir ekki snert við íslenskukennslu. En það gerðu þeir fyrst og fremst vegna vandræða með skiptistundirnar og vegna þess að ráðherrann gaf ekki skýr fyrirmæli í þessum efnum.
    Loks varðandi Sjálfstfl. og skólamálin. Sjálfstfl. hefur aldrei sýnt áhuga á skólamálum á Alþingi þegar hann hefur verið í ríkisstjórn síðan vorið 1946 þegar hann stóð að fræðslulögunum nýju sem þá voru kölluð og voru kölluð svo þangað til grunnskólalögin voru sett árið 1974. Sjálfstfl. barðist með kjafti og klóm gegn grunnskólalögunum vorið 1974. Þá var haldin lengsta ræða í þinginu í manna minnum. Til hvers? Til að stoppa grunnskólalögin. Sjálfstfl. hefur í ríkisstjórn aldrei sýnt áhuga á skólamálum síðan vorið 1946.