Grunnskóli

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 16:03:21 (4850)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hef viðurkennt það að mér var ekki ljóst að þessi fækkun vikulegra kennslustunda mundi bitna á íslenskukennslunni. Og ég viðurkenni líka að ég hef ekki fullkomnar upplýsingar og ég held að þær séu ekki til, ekki heldur hjá Kennarasambandinu, í hve ríkum mæli þessi niðurskurður lenti á íslenskukennslu og stærðfræði. Það er einfaldlega hlutverk skólastjórnendanna og fræðsluskrifstofanna að sjá um að þessar aðhaldsaðgerðir nái fram að ganga. Þeim er ekki stjórnað í smáatriðum úr menntmrn.
    Því að ég hafi verið með einhverjar ósmekklegar dylgjur á Kennarasambandið vísa ég ósköp einfaldlega á bug.
    Varðandi Svíþjóð og borgaralegu ríkisstjórnina þar, sem margoft hefur verið nefnd hér ekki síst af þingmönnum Alþb. sem alveg sérstaka fyrirmyndarstjórn að mér skilst, þá er það nú einu sinni svo varðandi skólamálin að ríkisstjórnirnar í Svíþjóð og á Íslandi komu til starfa á svipuðum tíma ef ég man rétt. Þær glímdu við ósköp svipaðan vanda. Munurinn var hins vegar sá að íslenska ríkisstjórnin tók miklu fastar á en sú sænska. Það sem sænska ríkisstjórnin er að gera núna varðandi skólamálin, sem ég býst við að hv. þm. viti ekki, er að hún er að skera niður í mjög ríkum mæli í skólamálum. Ég er með alveg nýjar upplýsingar um þetta, því miður ekki við hendina, en ég skal koma þeim upplýsingum til hv. þm. Það er einmitt sá vandi sem ríkisstjórn Svíþjóðar stendur frammi fyrir núna að hún þarf að skera niður í þessum málaflokki líka sem hún gerði ekki í fyrra.