Grunnskóli

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 16:05:37 (4851)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi er það nokkuð sérkennileg kenning hjá hæstv. menntmrh. að það eigi að fara í niðurskurð þó menn hafi ekki hugmynd um hvernig eigi að framkvæma hann. Það verður þó að segja hæstv. heilbrrh. til hróss að hann veit yfirleitt að hann er að gera tiltekin lyf dýrari. Hann er að láta sjúklinga með tiltekna sjúkdóma greiða meira og er gagnrýndur fyrir það. Nú segir hæstv. menntmrh.: Við erum í niðurskurði í menntmrn. en það er ekki okkar, ekki ráðherrans, ekki embættismannanna, að vita hvort verið er að skera niður leikfimi eða íslensku eða stærðfræði eða grunnmenntun. Það er ekki okkar. Það er einhverra manna sem eru úti í skólunum, einhverra nafnlausra óábyrgra manna, og hann vísar ábyrgðinni af sér. Það er auðvitað kjarni málsins hér.
    Hann er að vísa ábyrgðinni af því að skerða íslenskukennsluna og stærðfræðina af sér og yfir í einhverja ónafngreinda menn úti í skólakerfinu, fræðslustjóra, kennara og skólastjóra. Það er mjög lítilmannlegt. Yfirlýsing ráðherrans gat ekki staðist að hans eigin dómi af því að einhverjir aðrir framkvæmdu þetta öðruvísi.
    Auðvitað á ekki að standa hér í einhverjum niðurskurði bara með því að segja: Hér er einhver tiltekin upphæð, og svo veit ráðuneytið ekkert hvernig hvernig hún er framkvæmd. Er ekki rétt að menntmrh. staldri aðeins við og segi þá við þingið og ríkisstjórnina: Það er greinilegt að þessi niðurskurður kemur niður á greinum sem við vildum ekki láta hann koma niður á eins og íslensku og stærðfræði og við skulum þá leita einhverra annarra leiða. Í staðinn fyrir að segja: Ég held að þetta verði að vera svona af því að einhverjir aðrir þarna úti hafa gert þetta.
    Varðandi hægri mennina í Svíþjóð þá má vel vera að þeir séu nýlega búnir að taka einhverjar ákvarðanir um að skera niður í menntamálum. Ég hef ekki fylgst með því og er auðvitað alveg reiðubúinn að hafa það sem sannara reynist í þeim efnum. En mér fannst óhugnanlegt að heyra fögnuðinn í rödd hæstv. menntmrh. yfir því að nú væru þeir líka farnir að skera niður í menntamálunum í Svíþjóð.