Grunnskóli

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 16:39:29 (4855)

     Valgerður Sverrisdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Með sem hagkvæmustum hætti, sagði hæstv. ráðherra. Hvernig gat hann þá fullyrt það í þessari umræðu fyrir ári síðan að þetta mundi ekki bitna á íslenskunni? Það er það sem ég er að tala um. Fyrst hann hafði ekkert fyrir sér í því. Hann talaði alltaf um einhverjar skiptistundir og sparistundir eða hvað það nú var. ( Menntmrh.: Hvorugt.) Sennilega hefur hann ekki sagt sparistundir. Það hafa frekar verið orð okkar. ( Menntmrh.: Ekki skiptistundir heldur.) Nei, ekki skiptistundir heldur. Það sem mér er minnistæðast úr þeirri umræðu, hæstv. ráðherra, er að þetta væri ekki svo mikið mál því þetta mundi ekki bitna á íslenskunni. Þetta mundi ekki bitna á stærðfræðinni og þetta mundi ekki bitna á tungumálunum. Þetta stendur eftir í mínum huga eftir ræður hæstv. ráðherra frá síðasta ári og þess vegna finnst mér það skrýtið ef hann hefur sett þetta fram með þessum hætti án þess að hafa nokkuð fyrir sér í því nema bara vonina um að skólastjórarnir geri þetta einhvern veginn öðruvísi eða geri þetta, eins og hann sagði, á hagkvæman hátt.