Grunnskóli

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 17:12:23 (4859)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. spurði hvað liði endurskoðun grunnskólalaga og hvers væri að vænta um stefnuna. Ég hef svarað þessari spurningu áður að áfangaskýrslu fæ ég núna í þessum mánuði. Nefndin mun starfa til marsloka og það er að sjálfsögðu ekki unnt á þessu stigi að fara að greina frá einstökum hugmyndum eða tillögum sem uppi hafa verið hjá nefndinni. Það er ekki hægt fyrr en áfangaskýrslunni hefur verið skilað og ég vona að það sé skilningur á því.
    Hv. þm. nefndi eins og fleiri hafa gert að þetta frv. hafi komið seint fram. Hún sagði að vísu nokkrum dögum fyrir jól, ég man nú ekki alveg dagsetninguna. Það var í fyrri hluta desembermánaðar og ég hef viðurkennt að það hafi verið nokkuð seint og það er fjarri mér að fara að kenna stjórnarandstöðunni um að ekki tókst að afgreiða það fyrir jól þó að mig minni endilega að stjórnarandstaðan hafi þurft að tala dálítið hérna í desembermánuði um önnur mál en þetta. (Gripið fram í.) Nei, það var bara smávegis.
    Þá var enn vitnað í orð mín frá 20. jan. Þetta hefur verið hin merkasta ræða eða ræður sem ég hef haldið þann dag. Ég veit svo sem vel af því en ég hef margskýrt það út líka hvers vegna það er sem við þurfum að halda áfram með okkar aðhaldsaðgerðir en ég er löngu hættur að gera kröfur til þess að stjórnarandstæðingar skilji það.
    Niðurstaða hv. þm. var sú að ég hefði svikið börnin, ég hefði svikið foreldrana og ég hefði svikið framtíð þessa lands. Það var ekkert minna. Svona bulli vísa ég náttúrlega alfarið frá mér.