Grunnskóli

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 17:14:27 (4860)

     Guðmundur Árni Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að sú umræða sem hér fer fram um það frv. sem fyrir liggur sýni enn og sanni og undirstriki að mörgu leyti þá þverstæðu og hráskinnsleik sem margir eru uppvísir að í umr. um skólamál og í raun verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga því að hér kveður auðvitað við þann tón enn og aftur að annars vegar er talað um nauðsyn þess að auka áhrif heima í héraði, auka áhrif skólamanna, kennara, foreldra barna og sveitarstjórnarmanna en í hinu orðinu er hæstv. menntmrh. eltur uppi með það að hann standi ekki skil á því að kennslu í einni eða annarri grein skuli ekki vera haldið til haga þrátt fyrir niðurskurð. Þetta kemur auðvitað ekki heim og saman en er því miður ekki einhlítt og ég sem sveitarstjórnarmaður finn auðvitað mjög oft fyrir þessu í samskiptum við ríkisvald og hið háa Alþingi. Ég hygg að aðrir hv. þm., sem hafa auðvitað margir hverjir sinnt störfum í sveitarstjórnum víða um land, þekki einmitt þessi dæmi sem eru fjölmörg. Og enn og aftur verður maður var við þetta viðhorf í nál. minni hluta menntmn. þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Sveitarfélögin kosta skólamáltíðir og þess vegna eru engin rök fyrir því að fella þetta ákvæði niður í grunnskólalögum sem flutt er í lagafrumvarpi vegna ástandsins í ríkisfjármálum.``
    Þetta segir í mæltu máli að það er allt í lagi að leggja þessar klyfjar, þennan aukakostnað á vegna þess að annar borgar, vegna þess að sveitarfélögin borga brúsann. Þetta er of ríkt í hinu háa Alþingi og hjá framkvæmdarvaldinu. Það þekkja sveitarstjórnarmenn fyrr og síðar.
    Nú er það þannig, einmitt hvað varðar þetta tiltekna efnisatriði, skólamáltíðir, að í fjölmörgum sveitarfélögum þar sem metnaður er fyrir hendi að efla skólana og allt þeirra starf að margir skólar og mörg sveitarfélög hafa einmitt tekið upp þessa þjónustu þrátt fyrir það að skýr lagafyrirmæli setji ekki þær kvaðir á viðkomandi sveitarstjórnir. Þannig er það til að mynda í mínu sveitarfélagi að hægt og bítandi hefur sveitarstjórnin í ágætu samstarfi við skólana verið að koma þessari þjónustu á. Og það leiðir mig að þeirri hugleiðingu hvort hið háa Alþingi einmitt í lagafrumvörpum á borð við grunnskólalög fari ekki stundum offari í lagafyrirmælum til framkvæmdar- og rekstraraðila. Það ber nefnilega einatt á talsverðu vantrausti á hendur þeim aðilum sem ábyrgðina bera og hita og þunga dagsins bera, þ.e. þessara framkvæmdaraðila sem í orði kveðnu margir hv. þm. tala um að eigi að auka áhrif og ábyrgð hjá. Það er þessi þverstæða sem er ekki ný af nálinni en skín mjög glatt í þeirri umræðu sem hér á sér stað.
    Nú ætla ég ekki að draga dul á það, virðulegi forseti, að það frv. sem hér er til umræðu og afgreiðslu er ekki af þeim toga að nokkur taki því með húrrahrópum. Hér er um ákveðna nauðvörn að ræða, ákveðna aðgerð sem ég hygg að ekki sé mörgum að skapi. Hitt er auðvitað fjarri öllu lagi og það hygg ég að flestir þeir viti sem eitthvað þekkja til og hafa kynnt sér af raun, þekkja til gangs skólamála, til að mynda á síðasta ári og leyfa sér ekki að halda því fram að þetta ákvæði sem þá var sett til bráðabirgða hafi sett allt skólastarf þannig á hliðina að börn þessa lands væru í stórhættu. Það fólk sem til þessara mála þekkir og hefur kynnt sér í hinu eiginlega skólastarfi í einstökum skólum veit auðvitað að hið ábyrga fólk heima í héraði, í skólunum sjálfum, kennarar og annað starfsfólk, foreldrar með liðsstyrk sveitarstjórna hafa auðvitað séð til þess og tryggt það af gaumgæfni að áhrif þessa niðurskurðar á börnin væri sem minnstur. Ég get að vísu auðvitað ekki fullyrt um einstaka skóla vítt og breitt um landið. En í mínu sveitarfélagi veit ég auðvitað að andinn hefur nákvæmlega verið þessi og ég þori nánast að fullyrða og treysti því að þannig hafi það verið í flestum skólum annars staðar, trúi því raunar og treysti.
    Það er nefnilega þannig og er rétt að undirstrika það enn og aftur að kostnaðarhlutdeild sveitarfélaga í rekstri skólanna er ekki lítilvæg og ekki léttvæg, hefur raunar vaxið að umfangi, ekki af sjálfu sér heldur vegna aukins áhuga fjölmargra sveitarstjórna á því að bæta hag barnanna þótt engin bein lagafyrirmæli væru þar annars vegar. Metnaður rekstraraðila og heimamanna er til staðar og það er engin þörf á því, virðulegi forseti, að einstakir hv. þm., þó enginn efist um góðan hug þeirra til viðkomandi málefnis, einsetji sér að fara niður í smæstu smáatriði um rekstur þessara skóla. Það fer ekki saman við þá yfirlýstu stefnu sem ég hygg að flestir hv. þm. séu sammála um að auka þetta sjálfsforræði skólanna, þetta sjálfstæði þeirra, þessa ábyrgð þeirra og þessi áhrif þeirra. Ég trúi því einnig og treysti að sú endurskoðun grunnskólalaga sem nú er yfirstandandi og menn fá væntanlega fréttir af nú í þessum mánuði verði einmitt í þá veru að menn taki markverð skref og marktæk skref í þá átt að um raunverulega valddreifingu verði að ræða, að menn láti verkin sýna merkin, láti ekki aðeins orðin tala heldur raunveruleikann og að sveitarfélögin og heimamenn fái til þess tekjustofna og raunveruleg völd til að ráða sínum málum til að ala önn fyrir börnunum sem er auðvitað meginatriði þessa máls.
    Ég nefndi til sögunnar að í fjölmörgum sveitarfélögum, fjölmörgum skólum, væru menn hægt og sígandi að stíga skref í átt til skólamáltíðar. Hér kom fram í þessum umræðum að víða úti um land væru þessi skref fjölmörg tekin nú þegar og því ber auðvitað að fagna. Það liggur líka fyrir að í fjölmörgum skólum og fjölmörgum sveitarfélögum þar sem þessi metnaður og þessi áhugi á bættu skólastarfi er til staðar, hafa sveitarfélög þegar tekið á sig auknar byrðar í krónum talið til þess að tryggja samfelldan skóladag. Þannig er sú athugun í gangi í því sveitarfélagi sem ég stýri og að því er stefnt að strax á næsta hausti verði samfelldur skóladagur til staðar þannig að börnin eigi þar skjól frá kl. 8 á morgnana þar til síðdegis. Ég vil með þessu enn og aftur undirstrika, virðulegi forseti, að það er ekki alltaf nauðsyn á því að lagasetning og löggjöf sé með þeim hætti að upp á punkt og prik, frá a til ö sé málum skipað þannig að svigrúm ábyrgðar- og áhrifaaðila heima í héraði sé nánast ekki nokkur skapaður hlutur.
    Ég get náttúrlega á hinn bóginn líka nefnt það í þessu samhengi og það eru auðvitað engin ný

sannindi að fjölmörg ákvæði grunnskólalaga og raunar fleiri laga sem hið háa Alþingi hefur samþykkt og sent frá sér er auðvitað með þeim hætti og hefur verið um langan tíma, ekki aðeins á yfirstandandi ári og hinu síðasta, ekki aðeins í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar eða hinnar fyrri heldur fjölmargra annarra, þau ákvæði sem aldrei hafa í raun og sanni komið til framkvæmda. Þannig er það með sálfræðiþjónustu í skólum þar sem segir að það skuli tryggja sálfræðiþjónustu, einn sálfræðing á hverja þúsund nemendur. Þannig er það auðvitað ekki. Og tilraunir í þá átt af hálfu skólanna að tryggja að þessi þjónusta væri með þeim hætti sem lög mæla fyrir um hefur ekki tekist. Þessi saga er löng og ströng og auðvitað við engan einn að sakast í þeim efnum. Hæstv. fyrrv menntmrh. þekkir þetta vafalaust sem og núv. hæstv. menntmrh., en þannig er þetta nú samt og þannig sjá auðvitað heimamenn, rekstraraðilar, skólamenn í einstökum skólum marga ágæta lagasetningu, að hún er frómar óskir en fjármunir og efndir eru ekki í réttu samræmi. Ég hygg og ég vil gera það að lokaorðum að sú endurskoðun grunnskólalaga sem nú stendur yfir eigi að leiða til þess fljótt og vel að raunveruleg valddreifing þessara mála verði loks að veruleika, að grunnskólinn verði einfaldlega færður til sveitarfélaga og í raun og sanni verði það skólamennirnir, foreldrarnir, starfsfólk skólanna sem hafi raunveruleg áhrif um það hvernig best verði alin önn fyrir börnunum okkar, hvernig best verði staðið að menntun þeirra og undirbúningi fyrir lífið. Það hygg ég að sé hin raunverulega og varanlega endurbót í skólastarfi hér á landi.